Gönguleiðir: Stóra-Dímon

Suðurland

Stóra-Dímon

Lýsing

Stóra-Dímon er ekki með hæstu fjöllum. Hún stendur stök á aurunum vestan við Markarfljót og þótt tindurinn rísi aðeins 178 metra yfir sjávarmál þá ber þetta litla fjall sig alveg sérlega vel og virkar bæði hátt og reisulegt.
Á fallegum sumardegi er sérlega gaman að beygja af þjóðvegi eitt rétt vestan við brúna yfir Markarfljót og aka leiðina sem liggur beint yfir aurana upp í Fljótshlíð. Við rætur Stóru-Dímon er hægt að leggja bílnum og skondra eftir greinilegum stíg sem leið liggur upp á fjallið.
Uppi blasir sést vel hve fögur hlíðin getur verið þegar sólin skín og til austurs gnæfir sú hin mikla mynd fannhvíts Eyjafjallajökuls. Niðri á aurunum sunnan við Dímon er hólminn þar sem Gunnar sneri aftur eins og lýst er á svo harmrænan hátt í Njálssögu.
Til að fullkomna heimsóknina á Dímon er rétt að einhver dragi Njálssögu úr pússi sínu og lesi frásögnina af bardaganum við Rauðuskriður en talið er að hann hafi farið fram hér undir fjallinu. Svo má lesa Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar upphátt því vandfundinn er betri staður til þess. Svo förum við niður aftur og fáum okkur eina með öllu á Hvolsvelli.