Gönguleiðir: Stóri-Meitill

Suðvesturland

Stóri-Meitill

Lýsing

Stóri_Meitill er eldfjall eða gígur við Þrengslaveg. Hann og bróðir hans Litli-Meitill eru báðir úr móbergi myndaðir á seinni hluta síðasta jökulskeiðs. Frekar létt og áhugaverð ganga er á Meitlana en flestir vilja fara á þann stærri. Hér verður lagt til að ganga einskonar hring um þá bræður með viðkomu á Stóra-Meitli.
Gangan hefst við gatnamót á Þrengslavegi á móts við Sandfell sem er lágt fell sunnan vegar. (GPS N. 63. 57. 696 W. 21. 26. 988). Fyrst er gengið eftir malarvegi sem liggur milli hrauns og hlíða inn með Litla-Meitil að austan. Fljótlega er komið að vöxtulegum skógarlundi sem er að mestu handaverk eins manns, Einars Ólafssonar.
Áfram er haldið og fljótlega kemur Stóri-Meitill í ljós og þægileg ganga upp aflíðandi halla upp gígbarminn. (GPS N. 63. 59. 997 W. 21. 25. 901). Gígurinn er feiknastór sem gefur hugmynd um stærð gossins sem myndaði hann.
Síðan er haldið suður eftir hálsinum milli Litla-Meitils og Stóra-Meitils og haldið út af fjallinu niður á flatlendið vestan við Litla-Meitil. Þaðan er farið til suðurs meðfram fjallinu framhjá Votabergi sem er sérstakur og áberandi berggangur sem stendur vestan úr fjallinu.
Göngunni lýkur svo á sama stað og hún hófst. Þessum áformum er hægt að breyta með því að ganga á bakaleiðinni upp á Litla_Meitil  (GPS N. 63. 58. 610 W. 21.26. 425) í stað þess að fara vestur af fjallinu. Af Litla-Meitli er létt ganga til vesturs niður að upphafsstað göngu á ný.

GPS-ferill