Gönguleiðir: Þverfellshorn

Suðvesturland

Þverfellshorn

Lýsing

Þverfellshorn er sá hluti Esjunnar sem gengur fram fyrir ofan Steininn. Ein best merkta og vinsælasta gönguleið landsins liggur upp að Steini í Esjunni og fær hún sérstaka færslu hér í safninu.
Frá Steininum liggur svo stígur upp bratta kinn sem þræðir sig svo gegnum klettabelti uns komið er upp á brún. Um nokkrar mismunandi leiðir er að ræða en best er að reyna að fylgja skiltum og stikum. Í klettunum eru keðjur og tröppur til að auðvelda uppgöngu. Sumum gæti þótt þægilegra að nota stíg sem liggur til vinstri inn skálina og er að mestu laus við kletta.
Að sumarlagi er þessi leið fær öllum sem ekki stríða við lofthræðslu. Að vetrarlagi ætti enginn að fara þarna upp nema með nauðsynlegan öryggisbúnað, jöklabrodda og ísöxi sem viðkomandi hefur fengið þjálfun í að beita.

Þegar upp er komið finnur göngumaður hringsjá og gestabók þar sem sjálfsagt er að setja nafn sitt. Þarna er göngumaður staddur uppi á Esjunni sjálfri og getur gengið lyst sína um þann víðáttumikla fjallabálk. Stutt ganga er af Þverfellshorni inn á Hábungu Esjunnar í 914 metra hæð. Hér uppi eru engar merkingar og því nauðsynlegt að vera með GPS og feril til þess að forðast villur í dimmviðri.

GPS-ferill