Gönguleiðir: Umhverfis Valahnúka

Suðvesturland

Umhverfis Valahnúka

Lýsing

Valahnúkar eru móbergshryggur rétt norðan við Helgafell ekki langt frá Kaldárbotnum. Á þessum slóðum eru merktar gönguleiðir sem freista útivistarfólks. Áhugaverð gönguleið liggur umhverfis Valahnúkana.
Gangan hefst á bílastæði við enda Kaldárselsvegar (GPS N.64.01.564 W. 21.52.459).
Fyrst skal haldið eftir hefðbundinni gönguleið áleiðis á Helgafellið en þegar er komið stutt inn fyrir vatnsverndargirðinguna í Kaldárbotnum liggur stikuð slóð til vinstri og skal fylgja henni. Leiðin liggur fyrir endann á Valahnúkum og beygir og liggur meðfram þeim að norðanverðu. Skýr og góður stígur er í hrauninu og þegar göngumaður er staddur um það bil undir miðjum hryggnum kemur hann að skógræktarlundi og liggja tröppur yfir girðinguna. Þetta er Valaból eða Músarhellir sem er skoðunarverður. (GPS N. 64.01.287 W. 21.50.498)
Svo liggur leiðin áfram meðfram hlíðinni, beygir svo fyrir endann og fer fljótlega að stefna í átt til Hafnarfjarðar á ný. Göngumaður sér slóðina sem liggur umhverfis Helgafellið en kemur fljótlega fram í skarðið milli Helgafells og Valahnúka og er þá kominn á strikið aftur þangað sem ferðin hófst.
Ef menn langar upp á Valahnúkana þá verða þeir að velja sér leið eftir sinni eigin getu. Engin ein leið er stikuð eða merkt upp en viða sýnist vera ágætlega fært.
GPS-ferill

Um Valaból og Músarhelli

Trjálundurinn norðan við Valahnúka er kallaður Valaból. Það var Bandalag íslenskra farfugla sem hóf gróðursetningu á svæðinu rétt eftir 1940. Lítill hellir sem ber nafnið Músarhellir hafði lengi verið notaður sem afdrep smalamanna. Farfuglar fengu árið 1942 formlegt leyfi bæjarstjórnar í Hafnarfirði til þess að taka hellinn að sér. Þeir mokuðu út úr honum og stækkuðu hann þannig og komu fyrir frumstæðum innréttingum. Farfuglar notuðu Músarhelli sem sæluhús í áratugi og gistu þar á ferðum sínum.