Gönguleiðir: Útigönguhöfði

Suðurland

Útigönguhöfði

Lýsing

Útigönguhöfði er meðal tignarlegustu fjalla á Goðalandi en svo nefnist svæðið sunnan Krossár en Þórsmörk fyrir norðan ána. Útigönguhöfði rís hátt 800 m.y.s. á rananum milli Hrunárgils og Hvannárgils. Vel merkt net gönguslóða liggur um Goðaland og hjarta þess slóðakerfis er í Básum á Goðalandi við skála Útivistar.
Gott er að skilja bíl eftir í Básum og hefja þar gönguna á Útigönguhöfðann (GPS. N. 63. 40. 624 W. 19. 28. 882). Fyrst liggur leiðin upp brattan stíg en undir klettum er beygt til vinstri og fljótlega stendur göngumaður á hálsinum milli Bása og Hvannárgils með stórkostleg útsýni til allra átta.
Svo liggur leiðin áfram upp á Útigönguhöfða og er vel merktur og skýr stígur alla leið. Á köflum er leiðin brött og þeir sem eiga vanda til lofthræðslu gætu þurft að draga andann djúpt á nokkrum stöðum. En svo stendur göngumaður á toppnum (GPS. N. 63. 39. 938. W. 19. 27. 498).
Af toppnum er frábært útsýni og því líkast að Eyjafjallajökull sé í seilingarfjarlægð. Lengra í austur sér til Heiðarhorns og Bröttufannar við leiðina yfir Fimmvörðuháls.
Rétt er að feta sömu leið ofan aftur en haldi göngumaður áfram hálsinn til vesturs er hægt að bæta Réttarfellinu við og er það ekki langur krókur.
GPS-ferill