Gönguleiðir: Vífilsfell

Suðvesturland

Vífilsfell

Lýsing

Vífilsfell er 655 metra hátt tignarlegt fjall austan við Sandskeið. Það er nokkuð bratt en vinsælt hefur verið að ganga á fjallið engu að síður.
Best er að beygja af þjóðvegi eitt til hægri rétt við Sandskeið og aka eins langt og heimilt er en malarnám er stundað við rætur fjallsins. (GPS N. 64. 03. 290 W. 21. 31. 898). Síðan er gengið eftir vegi gegnum malarnámið áður en lagt er á brattann.
Vífilfellið er eiginlega í tveimur hlutum. Fyrst er farið upp skýran og merktan stíg upp bratta skriðu. Þegar komið er upp úr klettabelti er göngumaður staddur á sléttum stalli eða hjalla. Fyrir ofan hann rís toppur fjallsins sem er úr móbergi og stikur vísa manni veg upp á móbergið og svo til vesturs á toppinn. Á einum stað er þröng klauf sem þarf að brölta í gegnum og enn ofar er spotti göngumönnum til hughreystingar.
Útsýni er harla gott af toppi Vífilsfells (GPS N. 64. 02. 322 W. 21. 33. 394) og gaman að rifja upp að það heitir eftir Vífli, þræli Ingólfs Arnarsonar sem fékk frelsi og bjó á Vífilsstöðum. Sagt er að hann hafi hlaupið hér upp hvern morgun til að gá til veðurs.

 

Að finna súlur

Í Landnámabók segir af landnámi Ingólfs Arnarsonar. Hann varpaði öndvegissúlum sínum í sjó og hét að reisa bæ þar sem þær ræki að landi. Ingólfur hafði vetursetu í Öræfum hinn fyrsta vetur og sendi svo þræla tvo, Vífil og Karla til að leita súlnanna.
Þremur vetrum seinna fundu Vífill og Karli öndvegissúlur Ingólfs reknar við "Arnarhvál fyrir neðan Heiði." Það gæti verið hér um bil þar sem tónlistarhúsið Harpa stendur nú.
Svo segir í Landnámu: " Þá mælti Karli: "Til ills fórum vér um góð héruð að vér skulum byggja útnes þetta."
Ingólfur gaf þeim báðum frelsi. Vífill byggði að Vífilstóftum (Vífilsstöðum) og við hann er kennt Vífilsfell. 

GPS-ferill