FÍ Hjól og fjall

Um verkefnið 2021

Hjól og fjall verkefnið naut mikilla vinsælda á haustmánuðum. Nýtt verkefni fer af stað í byrjun apríl 2021 og samanstendur af 10 styttri og lengri ferðum. Um er að ræða hjólaferðir um áhugaverðar slóðir og hluti af hverri ferð er lengri eða skemmri gönguferð annað hvort á fjall eða um söguslóðir og náttúru þess svæðis sem ferðast er um.

Hjól er afbragðs gott tæki til þess að stunda útivist með nýjum hætti. Á hjóli komast menn yfir lengri vegalengdir en gangandi og sjá land og náttúru með öðrum augum. Hjól og fjall á vegum FÍ snýst um að hjóla saman um forvitnilegar slóðir og stíga svo af hjólinu og taka stutta fjallgöngu eða langa eftir atvikum.

Hjólreiðar þjálfa jafnvægi, úthald og snerpu og margar rannsóknir sýna að fjölbreytt hreyfing er góð og því hentar vel að blanda saman hjólreiðum og göngu.

Umsjón: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Verð: 48.900 árgjald FÍ 2021 innifalið.

Hvað þarf ég að eiga?

Þess er vænst að þátttakendur eigi fjallahjól og sæmilegan fatnað til skjóls og hlífðar á hjóli og göngu. Allir þurfa að eiga hjálm og hjóla festingu á bíl svo flytja megi hjólið á upphafsstað göngu. Léttur bakpoki undir nesti og annað er nauðsynlegur. Umsjónarmenn og fararstjórar vilja að ferðirnar séu í hefðbundnum anda Ferðafélags Íslands þar sem áhersla er lögð á fræðslu og upplýsingar um sögu þeirra slóða sem ferðast er um. Við viljum auðga andann um leið og við þjálfum líkamann og í þessum ferðum verða lesin ljóð sem fjalla um hjólreiðar með einum eða öðrum hætti.

Dagskrá

Dagsetning Vikudagur Tími Áfangastaður Lengd/hækkun
11.04. Sunnudagur 10:00 Drumbabót og Dímon 36km/ stutt ganga
18.04. Sunnudagur 10:00 Hraunfjörður og Kolgrafir 45 km/ stutt ganga
22.04. Fimmtudagur 10:00 Vatnasull á Hellisheiði 15 km/ stutt ganga
26.04. Mánudagur 18:00 Mosfell 16 km/3 km ganga
02.05. Sunnudagur 10:00 Þingvellir-saga og búseta 30 km/1 km ganga
09.05. Sunnudagur 10:00 Eldborg á Mýrum 25km/5 km ganga
16.05. Sunnudagur 10:00 Skarfanesskógur 35 km/ 4 km ganga
25.05. Þriðjudagur 18:00 Vífilsstaðir/Hvaleyrarvatn 15 km/ stutt ganga
29.- 30.05. Laugard.-Sunnud. 10:00 Hafursey/Mýrdalsjökull 65 km/3 km ganga
07.06. Mánudagur 18:00 Hólmsheiðartvist 15 km/ stutt ganga

 

Ferðafélag Íslands áskilur sér rétt til að breyta, fresta eða endurskipuleggja dagskrá fjallaverkefna félagsins vegna sóttvarnarfyrirmæla í tengslum við Covid 19 eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna.

Smelltu á mynd til að bóka

 

Markarfljótsaurar og Dímon

11 maí kl. 10.00

Hjólreiðin hefst að morgni þar sem Affallið rennur undir þjóðveg eitt. Hjólað um fáfarnar slóðir að eyðibýlinu Auraseli þar sem Ögmundur galdramaður bjó en hann gat fært til jökulvötn. Þaðan verður haldið upp að náttúruundrinu Drumbabót þar sem 1500 ára gamall birkiskógur er að koma upp úr sandinum en skógurinn eyddist í Kötluhlaupi rétt fyrir landnám. Svo verður haldið áfram austur með Fljótshlíð og þvert niður aurana að Stóru-Dímon og gengið á það merka fjall.
Vegalengd á hjóli 36 km. Stutt ganga með 80 metra hækkun.

 

Hraunsfjörður og Kolgrafafjörður

18 apríl kl. 10.00

Þáttakendur hittast að morgni við gatnamót Vatnaleiðar og Snæfellsnesvegar að norðan. Þaðan verður hjólað eftir gömlum þjóðvegum meðfram Berserkjahrauni í Hraunsfjörð. Síðan fyrir fjörðinn og út með honum út á þjóðveg og áfram í Kolgrafarfjörð og hjólað umhverfis hann líka. Fjölbreytt náttúra en fáséðar leiðir. Síðan verður þjóðvegi fylgt aftur austur að gatnamótum Vatnaleiðar.
Vegalengd á hjóli 45 km.

 

Vatnaleið á Hellisheiði

22 apríl kl. 18.00

Hittumst við afleggjara að Ölkelduhálsi á Hellisheiði. Þaðan hjólum við eftir línuvegum vestur Hellisheiði með viðkomu við gamla hellukofann. Svo upp að Skarðsmýrarfjalli og eftir línuvegum til austurs allt í Fremstadal og höldum suður dalinn til baka. Hengladalaá rennur um dalinn og þarf að þvera hana hvað eftir annað og þess vegna er þessi leið oft kölluð Þúsundavatnaleiðin meðal jeppamanna. Gerum ráð fyrir að blotna svolítið. Vegalengd á hjóli 15 km.

 

Umhverfis Mosfell

26 apríl kl. 18.00

Leiðangurinn hefst á Esjumelum. Þaðan er hjólað fram dalinn norðan Mosfells og fram að Hrafnhólum. Þaðan verður farið um fáfarnar slóðir að Mosfelli en þar skiljum við hjól eftir og göngum á fjallið. Svo verður hjólað áfram niður Mosfellsdal og eftir gömlum vegum yfir að Esjumelum á ný. Þvera þarf marga læki og ár á leiðinni. Vegalengd á hjóli 16 km og 3 km ganga með 200 metra hækkun.

 

Þingvellir -saga byggð og búseta

02 maí kl. 10.00

Hjólreiðin hefst að morgni við þjónustmiðstöð á Leirunum. Fyrsti áfangastaður er Skógarkot þar sem gengið verður heim í hlað og fræðst um sögu staðarins. Þaðan er svo haldið að Hrauntúni sem er ekki langt frá Ármannsfelli og þar verður gengið um hlöðin og fjallað um síðustu ábúendur. Þaðan er hjólað upp undir Ármannsfell en þar beygt til suðurs og hjólað þvert yfir hraunið yfir að Gjábakka eftir misgömlum götum. Þegar komið er að Þingvallavatni á ný verður tekinn stuttur útúrdúr að Arnarfelli og gengið á fellið. Síðan hjólað meðfram vatninu aftur að þjónustumiðstöð með viðkomu við Vellankötlu. Vegalengd á hjóli 30 km. Stutt ganga með 100 metra hækkun.

 

Umhverfis Eldborg á Mýrum að Litla-Hrauni

09 maí kl. 10.00

Hjólreiðin hefst við Snorrastaði á Mýrum. Hjólað verður þvert gegnum Eldborgarhraun yfir að eyðibýlum handan hrauns og að Stóra-Hrauni sem eru æskuslóðir Ástu Sigurðardóttur skáldkonu. Þaðan verður hjólað upp með Haffjarðará að Landbrotalaug og svo áfram meðfram þjóðvegi eða á honum um Mýrar aftur að Snorrastöðum. Þegar komið er þangað lýkur leiðangrinum með því að gengið verður að Eldborg og upp á gíginn sem er einstök náttúrusmíð og fágæt.
Vegalengd á hjóli 25 km. Ganga 5 km með ca. 100 metra hækkun.

 

Skarfanessskógur og Skarðsfjall

16. maí kl. 10.00

Hjólreiðin hefst rétt sunnan við Þjófafoss undir Búrfelli. Þaðan verður hjólað um Skarfanesskóg sem er lítt þekkt skóglendi norðan Skarðs á Landi en sunnan Heklu og Búrfells. Ef aðstæður leyfa verður gengið á Skarðsfjall og skyggnst yfir umhverfið. Þetta er fróðlegur leiðangur um eyðibyggðir því í skóginum leynast minjar um byggð sem Heklugos fyrri alda hafa eytt.

Vegalengd á hjóli 35 km. 4 km ganga með 300 metra hækkun.

 

Vífilsstaðahlíð að Hvaleyrarvatni

25 maí kl. 18.00

Hittumst við Heiðmerkurhlið undir Vífilsstaðahlíð. Hjólum saman austur undir hlíðinni og svo þaðan suður undir Kaldársel og svo yfir að Hvaleyrarvatni og til baka að upphafsstað um Urriðaholt.Vegalengd á hjóli 16 km.

 

Hafursey og söguslóðir á Mýrdalssandi – helgarferð. Þátttakendur gista á tjaldstæðum eða hótelum eftir eigin smekk.

29 -30 maí kl. 10.00

Dagur eitt: Hjólreiðin hefst rétt við brúna yfir Múlakvísl. Hjólað inn að Hafursey og fornir hellar sem notaðir voru af ferðamönnum skoðaðir. Hjólað norður fyrir eyna og íshellar í Kötlujökli skoðaðir. Vegalengd á hjóli ca. 40 km. Stutt ganga.

Dagur tvö: Hefjum daginn með viðkomu í Hjörleifshöfða og verður gengið á höfðann að haug Hjörleifs landsnámsmanns. Ekið saman að upphafsstað hjólaferðar rétt við Keldnatáakvísl. Þaðan er hjólað að rústum bæjarins Skálmabæjarhrauns en þar slapp heimilisfólk naumlega undan Kötluhlaupi 1918 ásamt smalamönnum af Mýrdalssandi.

Síðan er hjólað til baka aftur út að þjóðvegi og hjólað um Hrúthálsamýri að Hrúthálsafossum sem er sjaldséð náttúruperla spottakorn frá þjóðvegi. Vegalengd á hjóli 25 km – stutt ganga.

 

Hólmsheiðartvist

7 júní kl. 18.00

Hólmsheiðin er víðáttumikil heiðaland sem borgin er smátt og smátt að leggja undir sig. Þar leynast undarlegir staðir bæði manngerðir og náttúrulegir. Hittumst við Olís á Norðlingaholti og förum vænan hring um heiðina með viðkomu í Fjárborg og fleiri stöðum. Vegalengd á hjóli 15 km.