Eldfjallaganga í Búrfellsgjá 30. mars

„Búrfellsgjá er líklegast ein aðgengilegasta eldstöð í nágrenni höfuðborgarinnar,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og vísindamiðlari við Háskóla Íslands. Hann mun leiða göngu með Háskóla Íslands og Ferðafélagi barnanna um Búrfellsgjá að gígnum Búrfelli í lok mars. „Við ætlum að fræðast um eldgos og ýmis  jarðfræðileg fyrirbrigði og velta fyrir okkur hvernig ýmis fyrirbæri myndast í náttúrunni.“

Að ganga eftir Búrfellsgjá býður svo sannarlega uppá stórveislu fyrir öll skynfæri auk þess að vera afar fræðandi. Á göngu um gjána áttar maður sig á smæð sinni gagnvart náttúruöflunum, sem minna sífellt á sig. Snæbjörn vill ekkert tjá sig um hvort aftur kunni að gjósa á þessum slóðum en jarðvísindamennirnir okkar vakta stöðugt eldfjöllin og það er svo sannarlega mikil eldvirkni á Íslandi.

Að sjálfsögðu mun Snæbjörn tala mannamál í ferðinni sem allir skilja, jafnvel smæstu krakkarnir. Hann hefur leitt þessa göngu áður og er mjög reyndur vísindamiðlari, ekki síst þegar börn eru annars vegar. Snæbjörn hefur kennt í Háskóla unga fólksins sem helgaður er grunnskólabörnum og sömuleiðis í Vísindasmiðju HÍ þar sem krakkar á grunnskólaaldri mæta í stórum fróðleiksþyrstum hópum allan veturinn. Snæbjörn hefur auk þess farið í margar reisur með Háskólalest Háskóla Íslands og kennt jarðvísindi á grunnskólastigi víða um land en lestin farið hefur þrætt þjóðvegina umhverfis landið frá árinu 2011.

Ferðalög eru frábær

Snæbjörn er mikill náttúruunnandi þótt hann sé alinn upp eins og mörg okkar á malbikinu í Reykjavík.  Hann á hins vegar ættir að rekja í Eyjafjörðinn sem leiddi til þess að hann ferðaðist þangað mörg sumur og heillaðist strax af undrum Íslands í gegnum bílrúðuna.

„Það var ótrúlega gefandi reynsla og ég mæli eindregið með ferðalögum um landið til að kynnast því,“ segir Snæbjörn og bætir því við að íslensk náttúra sé einstök á heimsmælikvarða. „Þótt hægt sé að sjá flest sem finnst hér á landi annars staðar í heiminum er samsetning íslenskrar náttúru og fjölbreytileiki alveg einstakur. Aðgengið að náttúrunni er svo einstakt og landið og náttúran hér því eins og tilraunastofa í jarðfræði og öðrum náttúrufræðifögum.“

Búrfell var uppspretta mikils hraunflæðis

En aftur að eldstöðinni og göngunni góðu sem verður 30. mars. Snæbjörn segir að frá Búrfelli  hafi runnið mikið hraunflæmi fyrir um átta þúsund árum, bæði niður á Vellina í Hafnarfirði,  sem er reyndar núna hulið yngri hraunum, og svo um mikla hrauntröð vestur í Garðabæ og út á Álftanes og niður í Hafnarfjörð.

„Á göngu um Búrfellsgjá sjást margs konar hraunmyndanir, litlir hellisskútar, stórar sprungur og svokölluð misgengi, og svo auðvitað sjálf eldstöðin sem fæddi hraunið af sér. Þarna kemst maður í beint samband við innri öflin í jörðinni undir fótum okkar, sjálfa uppsprettu landsins sem eldvirknin á Íslandi er.“

Snæbjörn segir að fáir staðir bjóði upp á jafnmagnaða upplifun og Búrfellsgjáin. Fjölbreytnin er mikil og einfalt að átta sig á því hvernig eldgos eiga sér stað og hvernig framvinda þeirra er frá upphafi til gossloka. „Þarna sjást líka mjög augljós merki um hvernig landið rifnar í sundur vegna flekareksins á milli Norður-Ameríku og Evrópu.“

Ísland er einstakt land fyrir alla – líka jarðfræðinga

„Ísland er einstakt að því leyti að landið er stærsta þurrlendi á úthafshrygg á jörðinni,“ segir Snæbjörn þegar hann er spurður út í sérstöðu landsins okkar út frá jarðfræðilegu sjónarhorni.

„Úthafshryggir myndast þar sem jarðskorpufleka jarðarinnar rekur í sundur og myndast sífellt ný skorpa á skilunum milli þeirra. Ísland er þó ekki bara tengt þessum úthafshrygg, sem heitir Atlantshafshryggurinn, heldur er líka stór möttulstrókur undir landinu þar sem heitt möttulberg flæðir upp undir landið, og veldur samspil möttulstróksins og flekaskilanna því að eldvirkni á Íslandi er með því allra mesta sem gerist á jörðinni.“

Snæbjörn segir að hér séu því gríðarlega fjölbreytt merki um eldvirkni, stórar eldstöðvar, fjallgarða sem hafi myndast í sprungugosum og mikinn jarðhita sem tengist eldvirkninni.

„Ísland er því eins og suðupottur þegar kemur að eldfjöllum og eldvirkninni,“  segir Snæbjörn sem áttaði sig reyndar ekki á því strax eftir framhaldsskóla á jarðfræðin væri hans fag. Hann fór fyrst í málvísindanámi úti í Danmörku en fann sig ekki og sneri heim. „Svo fór ég í bakpoaferðalag um Suður-Ameríku, og þegar ég kom að rótum Andesfjalla áttaði ég mig á því að jarðfræði væri einmitt námið fyrir mig. Næsta haust eftir var ég svo búinn að skrá mig í jarðfræði og þá varð ekki aftur snúið.“

Þess vegna er Snæbjörn eins og alfræðiorðabók, eða sín eigin Wikipedía um jarðfræði. Ekki hika við að spyrja hann í ferðinni, svörin standa ekki á ser. Það gerum við líka og fáum hann til að segja okkur meira um eldvirknina á Íslandi.

„Það sem bætist ofan á eldvirknina hér er sú staðreynd að Ísland er líka jöklaland. Þar til fyrir tíu til ellefu þúsund árum var landið nánast alhulið ísaldarjökli sem bráðnaði svo á örfáum árþúsndum. Síðustu árþúsundin hafa hins vegar jöklar svo aftur verið að vaxa svo við höfum nokkur stór jökulhvel uppi á hálendinu. Jöklar eru auðvitað víða um heim en það eru ekki margir staðir þar sem samspil jökla og eldvirkni er jafnmikið og fjölbreytt og hér á Íslandi. Þess vegna er jarðfræði hér einstök og við höfum meira að segja nokkur jarðfræðifyrirbæri sem finnast varla nokkurs staðar á jörðinni nema hér.  Þetta eru til dæmis gervigígar og móbergshryggir, sem myndast við sprungugos undir jökli,“ segir Snæbjörn. Hægt er að bera slíkan móbergshrygg augum í göngunni en Helgafell við Hafnarfjörð er einmitt slíkur.

Meðfædd löngun til að leita í náttúruna

Snæbjörn er óskaplega montinn af því að fá að leiða ferðir með Ferðafélagi unga fólksins og í röðinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

„Þetta er frábært framtak, bæði fyrir þau sem mæta í ferðirnar en ekki síður fyrir okkur sem komum og fræðum gangandi gesti um þau undur sem sjást í göngunum,“ segir Snæbjörn.  

„Ég mæli hiklaust með öllum þessum ferðum, þekki til allra sem mæta frá Háskólanum og veit að það er bæði toppfólk í sínum fræðum og mjög fært um að gera náttúruna áhugaverða og spennandi. Ég held raunar að það sé fátt mikilvægara en að kynnast náttúrunni á okkar tímum, og það þarf auðvitað ekkert að fara í sérstakt nám til þess eins og jarðfræði. Aðalatriðið er að fara út og horfa í kringum sig, uppgötva og velta öllu fyrir sér sem ber fyrir augu.“

Snæbjörn segir að náttúran sé mögnuð og því betur sem maður þekkir hana, þeim mun vænna þyki honum um hana. „Við mennirnir virðumst hafa meðfædda löngun til að leita í náttúruna eftir kyrrð og fegurð, og það er mikilvægt að rækta þá löngun með sér. Ferðafélag barananna og „Með fróðleik í fararnesti“ eru frábærar leiðir til þess!

Með fróðleik í fararnesti

Gangan um Búrfellsgjá tekur um þrjár klukkustundir og eins og áður sagði er gangan hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands: Með fróðleik í fararnesti.
Þúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa notið þess að halda í göngur með Háskóla Íslands og Ferðafélaginu undanfarin ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum og sérfræðingum Háskólans við nánast hvert fótmál. Göngurnar hafa löngu unnið sér fastan sess en með þeim er aukið við þekkingu fólks, ekki síst ungmenna, á sama tíma og boðið er upp á holla og skemmtilega hreyfingu á vegum Ferðafélagsins.

Eldfjallaganga um Búrfellsgjá, laugardaginn 30. mars. Muna að klæða sig vel, vera í góðum skóm og með gott nesti. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Mæting kl. 10 við bílastæðið við Vífilstaði, Garðabæ. Ekkert að panta, bara mæta með góða skapið.

Hvernig varð Búfellsgjáin til?


Búrfellsgjá varð til í býsna miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sem nefnist Búrfell. Elgosið hefur verið tiltölulega rólegt flæðigos, þar sem upp úr eldgígnum flæddi hraun niður á láglendið alla leið út í sjó. Aðalhraunstraumurinn var um mikla hrauntröð, en það er heiti á stórum hraunfarvegum þar sem hraun flæðir eins og risastór fljót frá eldgíg niður á láglendi þar sem það svo storknar og myndar hraun. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, í Garðabæ og Gálgahraun úti á Álftanesi eiga öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá. Búrfellsgjá sjálf er því afar gott dæmi um svona hrauntröð.

Sjá nánar um ferðina