Fjallabyggð og Fjót - nýtt fræðslurit FÍ

Auk veglegra árbóka þá kemur Ferðafélag Íslands að útgáfu smærri rita og handbóka ár hvert og meðal þeirra eru svokölluð Fræðslurit FÍ.  

Þessi rit benda gjarnan á leiðir sem ekki eru á allra vitorði og leiða göngumenn þannig á nýjar slóðir. Einnig gera þau gönguferðirnar ánægjulegri og eftirminnilegri þar sem fróðleikurinn skapar skemmtilegar tengingar við atburði og sögur úr fortíðinni.

Upplýsingarnar eru settar fram í stuttum köflum svo auðvelt er að finna lýsingar og fróðleik sem við á hverju sinni. Þá eru ritin í þægilegu broti svo auðvelt er að hafa þau meðferðis í lengri og skemmri ferðir.


Fjallabyggð og Fljót er 20. titill í röð veglegra fræðslurita FÍ

Það er fátt sem jafnast á við mikilfengleika ysta hluta Tröllaskagans. Fjölbreytnin þar er mikil, há og tignarleg fjöll, hamraborgir, fjallaskörð, grösugir dalir, dalverpi og skálar með sjaldgæfum gróðri. Dýra- og fuglalíf er mikið þar sem margar leiðir liggja nálægt sjó.

Víða eru erfiðar gönguleiðir enda ekki hjá því komist á utanverðum Tröllaskaga en fjölbreytnin í vali gönguleiða er mikil. Þar er að sjálfsögðu að finna léttari og styttri leiðir sem einnig er lýst í þessu riti. Svæðið er snjóþungt og eru snjóskaflar oft fram eftir sumri í hæstu fjallaskörðum, ýmist göngumönnum til trafala eða léttir þeim gönguna allt eftir aðstæðum.

Höfundur ritsins er Björn Z. Ásgrímsson, en hann er verkfræðingur og hefur hlotið menntun sem leiðsögumaður. Hann hefur stundað leiðsögn á utanverðum Tröllaskaga um árabil, þekkir svæðið vel frá unga aldri í gönguferðum, við smalamennsku og á skíðum.

Víða eru brött og há fjöll sem sum hverganga í sjó fram með háum björgum

Í þessu riti er lýst 25 gönguleiðum milli Fjallabyggðar og Fljóta og fjarðanna þriggja, Siglufjarðar, Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar sem í dag nefnast einu nafni Fjallabyggð. Landfræðileg afmörkun er því ystu byggðir Tröllaskaga og afmarka Fljótin göngusvæðið til vesturs og suðurs en Ólafsfjörður til austurs. Í ritinu er að finna alls 25 vel þekktar gönguleiðir, af þeim eru 23 leiðir á tinda og skörð, en aðeins þrjár leiðir um láglendi. Rétt er að geta þess að ekki er fjallað um allar leiðir á svæðinu og því langt í frá að ekki séu til aðrar leiðir sem geta talist áhugaverðar. Það er einkennandi fyrir ysta hlut Tröllaskagans að þar eru víða brött og há fjöll sem sum hver ganga í sjó fram með háum björgum. Fjallaskörðin milli byggðarlaganna liggja einnig flest hver hátt yfir sjávarmáli. Sumar gönguleiðirnar eru erfiðar og henta best fótvissum og brattgengum en aðrar að sjálfsögðu léttari. Í leiðarlýsingum er fjallað um helstu staðhætti og hækkun yfir sjávarmáli ásamt erfiðleikastigi. Í flestum tilfellum henta þessar leiðir sem sjálfstæðar dagleiðir og auðvelt að tengja þær saman sem trússferðir ef göngumenn kjósa svo.

Þær leiðir sem liggja um fjallaskörð eru að sjálfsögðu fornar gönguleiðir og í sumum tilfellum hestaleiðir milli byggðarlaga. Úr Fljótum liggur fjölfarin og þægileg leið um Siglufjarðarskarð (630m) til Siglufjarðar eftir gamla þjóðveginum og hestagötu að hluta. Önnur gönguleið til Siglufjarðar úr Fljótum nefnist Botnaleið og liggur um Bolahrygg að botni Hólsdals í Siglufirði.

Aðrar gönguleiðir úr Fljótum eru um Uxaskarð til Héðinsfjarðar og yfir Ólafsfjarðarskarð til Ólafsfjarðar. Síðarnefnda leiðin var algeng hestaleið fyrr á öldum.

Fjölmörgum leiðum er lýst sem tengja saman Héðinsfjörð við byggðirnar til austurs og vestur, Ólafsfjörð og Siglufjörð ásamt Fljótum. Þegar utar dregur á Tröllaskaganum er víða mjög bratt og lausgrýtt og þarf því að fara að öllu með gát. Meðal áhugaverðra leiða þar má nefna nokkar leiðir til eyðibyggðanna í Hvanndölum og í Siglunesi um Nesskriður.

Það er einkennandi fyrir flestar leiðirnar í ritinu að þær eru ekki vel færar hestum enda landslagið mjög erfitt. Leiðirnar voru mikilvægar gönguleiðir fyrr á öldum og farnar af mönnum og konum jafnt að vetri sem sumri á skíðum eða fótgangandi. Slysfarir og hrakningar voru tíð á erfiðum leiðum þar sem veður gat breyst til hins verra á mjög skömmum tíma.

SJÁ NÁNAR Í NETVERSLUN FÍ