Stofnfundur Konrad Maurer félagsins á Íslandi

Ferðafélag Íslands hefur skipulagt undanfarin fimm ár svokallaðar Konrad Maurer ferðir. Undirbúning og fararstjórn hafa annast Jóhann J. Ólafsson og Sigurjón Pétursson. Uppselt  hefur verið í allar þessar ferðir. Í ferðunum er fetað í fótspor Konrads Maurer en hann ferðaðist um Ísland árið 1858 og dvaldi hér á landi í sex mánuði og fór m.a. norður Sprengisand sem var nánast óþekkt á þeim tíma. Maurer skráði mjög nákvæma ferðabók sem gefin var út af FÍ á 70 ára afmæli þess 1997.

Þann 21. febrúar sl. var stofnfundur Konrad Maurer félagsins á Íslandi haldinn að Mörkinni 6, Reykjavík. Fundinn sóttu rúmlega 40 manns sem skráðu sig sem stofnendur félagsins. Aðild að félaginu er öllum opin, félagsgjald er ekkert og enn er tækifæri til að skrá sig sem stofnfélaga með því að senda tölvuskeyti á sigurjonp@gmail.com

Félagið verður vistað hjá FÍ sem skipuleggur ferðirnar í fótspot Maurers. Næsta ferð verður farin 8. september og verður þá ekið í Stykkishólm. Skoðuð gamla kirkjan, Eldfjallasafnið, Norska húsið ofl. Eftir hádegisverð verður haldið að Helgfelli. Síðan ekið um Berserkjahraun til kirkjunnar í Bjarnarhöfn. Að lokum ekið inn Skógarströnd með viðkomu á Narfeyri í Álftafirði og á Breiðabólstað á Skógarströnd.