Fljótaleiðir

Fjallabyggð og Fljót

25 GÖNGULEIÐIR UM FJALLSTINDA OG FJALLASKÖRÐ

 

 

Almenningshnakki

Upphaf göngu: Við afleggjarann að Lambanes-Reykjum
Hækkun: 880 m (929m yfir sjávarmáli)
Vað: Já/Nei (háð rennsli í Nautadalsá)
Vegalengd: 16 km
Stikuð leið: Já, að hluta, 2 skór
Göngutími: 5-6 klst.

Almenningshnakki er hæsta fjall í fjallahring Siglufjarðar, þaðan er víðsýnt, Héðinsfjörður, Siglufjörður og öll Fljótin blasa vel við. Að hefja þessa göngu Fljótamegin er mun auðveldari leið á fjallið en að ganga Siglufjarðarmegin, hækkun að mestu jöfn og hvergi bratt á fótinn. Gangan hefst við afleggjarann að Lambanes-Reykjum, á sama stað og Botnaleiðin til Siglufjarðar.

GPS: Almenningshnakki.gpx


Uxaskarð

FLJÓT TIL HÉÐINSFJARÐAR

Upphaf göngu: Við Brúnastaði í Fljótum
Lok göngu: Við vestan- eða austanverðan gangamunna
Héðinsfjarðarganga Stikuð leið: Nei, 3 skór Hækkun: 700m
Vað: Nei
Vegalengd: 15 km
Göngutími: 6-8 klst.

Hægt er að hefja göngu við vegaslóða sem liggur frá þjóðveginum, rétt við brúna yfir Brúnastaðaá, til austurs upp Brúnastaðaás eða aka eftir slóðanum yfir ásinn. Slóðinn er aðeins fær jeppum en gangan hefst þegar komið er yfir ásinn og slóðinn beygir inn í Holtsdal. Tekin er stefna til norðausturs í átt að Héðinsfjarðardal en fyrir botni dalsins er Uxaskarð (700m).

GPS: Uxaskard.gpx


Botnaleið

FLJÓT TIL SIGLUFJARÐAR

Upphaf göngu: Við afleggjarann að Lambanes-Reykjum
Stikuð leið: Já, 2 skór
Hækkun: 700m
Vað: Nei
Vegalengd: 8 km
Göngutími: 3-4 klst.

Gangan hefst við afleggjarann að Lambanes- Reykjum og síðan gengið spölkorn inn á gamla þjóðveginn til Siglufjarðar. Fyrsta stikan er rétt við veginn. Er þá haldið rakleiðis í átt að Torfdalsánni eftir stikum er leiða göngumenn að brú yfir ána. Stikurnar liggja upp í Stóruskál og áleiðis upp á Botnaleiðarfjallið. Einnig er hægt að sveigja af leið og stefna á hrygg er nefnist Bolahryggur, en hann er mjög greinilegur í landslaginu.

GPS: Botnaleid-fljot.gpx


Botnaleið

SIGLUFJÖRÐUR TIL ÓLAFSFJARÐAR

Upphaf göngu: Við stífluna í botni Hólsdals í Siglufirði
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Hækkun: 630 m
Vað: Já/Nei (háð rennsli í Hólsá)
Vegalengd: 19 km
Göngutími: 8-10 klst.

Gangan hefst við bílastæðið við stífluna í botni Hólsdals í Siglufirði. Best er að halda sér vestan við Hólsána (Fjarðará) og fylgja kindagötu upp með ánni. Ef áin er vatnslítil er oft hægt að stikla yfir hana þegar komið er spölkorn inn fyrir foss er nefnist Gálgafoss. Þegar yfir ána er komið liggur beinast við að fylgja leifum af hestagötu er liggur upp í Hólsskarð (630m). Brekkan undir skarðinu er nokkuð brött en annars er gönguleiðin upp eftir dalnum þægileg með jafnri hækkun, enda fjölfarin hestaleið fyrr á öldum.

GPS: botnaleid-sigl-olafsfj.gpx
holsskard.gpx


Ólafsfjarðarskarð

ÓLAFSFJÖRÐUR TIL FLJÓTA

Upphaf göngu: Við bæinn Þverá í Ólafsfirði
Hækkun: 650 m (730 m yfir sjávarmáli)
Vað: Já/nei
Vegalengd: 15 km
Stikuð leið: Já, að hluta. 3 skór
Göngutími: 6-7 klst.

Gangan hefst við bæinn Þverá í Ólafsfirði og liggur þaðan vegslóði áleiðis upp í Kvíabekkjardal, sem gott er að fylgja. Stikur og slóði vísa veginn áleiðis upp í Ólafsfjarðarskarð og er skarðið fljótlega sýnilegt þegar komið er inn í dalinn. Kvíabekkjardalur skiptist í Skarðsdal sem gönguleiðin fylgir og til suðurs gengur Húngilsdalur umlukinn háum fjöllum í 900 til 1000 m hæð.

GPS: olafsfjardarskard.gpx


Siglufjarðarskarð til Fljóta

Upphaf göngu: Við Skógræktina í Siglufirði eða við skíðaskálann í Skarðsdal
Stikuð leið: Vegarslóði, 1 skór
Hækkun: 400-500m
Vað: Nei
Vegalengd: 12 km
Göngutími: 3-4 klst.

Siglufjarðarskarð var um aldir aðalleiðin milli Siglufjarðar og Fljóta, þótt erfið væri yfirferðar og snjóþung með afbrigðum. Árið 1905 var lokið við lagningu hestaslóða yfir skarðið og var það mikið framfaraskref á sínum tíma. Árið 1947 lauk lagningu akvegar um skarðið, þá fyrst komst Siglufjörður í vegasamband, að minnsta kosti að sumri til. Akvegurinn lagðist af 20 árum síðar við tilkomu Strákaganga árið 1967.

GPS: siglufjardarskard.gpx


Illviðrishnjúkur

Upphaf göngu: Skíðaskálinn í Skarðsdal
Hækkun: 700 m (895m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 3 km
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Göngutími: 2-3 klst. (fram og til baka)

Illviðrishnjúkur er næst hæsta fjallið í fjallahring Siglufjarðar, yst frá Strákum, inn fyrir botn fjarðarins og norður á Nesnúp. Almenningshnakki (929m) er hæstur. Tilvalið er aða hefja gönguna frá bílastæðinu við skíðaskálann í Skarðsdal og fylgja fyrst gamla þjóðveginum er liggur um Siglufjarðarskarð. Ágætt er að sveigja af veginum þegar komið er að skíðalyftunum er liggja til vesturs í átt að hnjúknum og fylgja brekkunni þar til efri lyftan endar. Þaðan sést vel á hnjúkinn og Siglufjarðarskarð til suðurs.

GPS: illvidrishnjukur.gpx


Hlöðnuvík - Hraunakrókur

Upphaf göngu: Ofan við bæinn Hraun
Stikuð leið: Nei, 1 skór
Hækkun: 100 m
Vað: Nei
Vegalengd: 7-8 km
Göngutími: 2-3 klst.

Gangan hefst rétt ofan við afleggjarann heim að Hraunum í Fljótum, við skilti er vísar á gönguleiðina til Siglufjarðar um Siglufjarðarskarð. Hér er upphaf hestagötunnar sem lögð var um 1905 og er gengið spölkorn upp brekkuna og meðfram ánni Sauðá er rennur ofan úr samnefndum dal. Gatan liggur yfir ána og er oftast hægt að stikla hana á vaðinu. Þegar komið er yfir ána tekur við djúp hvilft og löng er nefnist Ranghali. Liggur hún á milli Eggjanna, til vinstri handar og Grjótskálanna, en svo heitir stórgrýtt urð ofan götunnar. Í hvilftinni er víða fallegt, ilmbjörk ber við himin og fundist hefur þúsundblaðarós við götuna.

GPS: hlodnuvik.gpx


Dalaleið

ÚLFSDALIR - ALMENNINGAR

Upphaf göngu: Við fjárréttina í Siglufirði ofan hesthúsabyggðarinnar
Hækkun: 500m
Vað: Nei
Vegalengd: 6/10 km
Sikuð leið: Já, 2 skór
Göngutími: 4-5/5-6 klst.

áðurFrá réttinni er gengið rakleiðis upp hlíðina á greinilegan hrygg er liggur milli tveggja gilja. Þegar ofar dregur eftir hryggnum, með Snók í suðri og Hafnarfjall til norðurs, má greina gróinn hestaslóða áður en komið er að Dalaskarði (520 m). Af skarðinu er gott útsýni á Illviðrishnjúk (895 m.) og Siglufjarðarskarð. Frá Dalaskarði er og greið leið norður eftir Hafnarfjalli, áfram fyrir botn Hvanneyrarskálar og allt norður á Strákafjall.

GPS: dalaleid.gpx


Hestskarð til Héðinsfjarðar

Upphaf göngu: Skútudalur
Hækkun: 550 m (603m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 7 km
Stikuð leið: Nei, 2 skór
Göngutími: 2-3 klst.

Gangan hefst í Skútudal um 0,5 km innan gangamunna Héðinsfjarðarganga. Fært er fólksbílum inn í Skútudal eftir vegslóða sem liggur inn að borholum hitaveitunnar í botni dalsins. Það liggur ekki sjáanlegur slóði upp hlíðina en þó má greina slóðann ofarlega í henni. Hann var ruddur af starfsmönnum Síldarverksmiðja Ríkisins, í atvinnubótavinnu eitt síldarleysissumarið á fimmta áratugnum.

GPS: hestskard.gpx


Siglunes

NESSKRIÐUR - KÁLFSSKARÐ

Upphaf göngu: Við Ráeyri í botni Siglufjarðar
Hækkun: 450 m
Vað: Nei
Vegalengd: 20 km
Stikuð leið: Um Nesskriður, 4 skór
Göngutími: 7-8 klst.

Gangan hefst við enda gömlu flugbrautarinnar við Ráeyri í botni Siglufjarðar. Í fyrstu er gengið meðfram sjávarbakkanum og fljótega komið að rústum Evangerverksmiðjunnar er gjöreyðilagðist í miklu snjóflóði 12. apríl 1919 (sjá frásögn á næstu opnu). Áhugaverður fróðleikur, sem vert er að líta á, er um verksmiðjuna á skilti á einum vegg rústanna. Næst er haldið að hólum er nefnast Staðarhólar en þar er undir var samnefndur bær er fór í eyði árið 1940.

GPS: siglunes.gpx


Hestskarðshnjúkur

Upphaf göngu: Rétt innan við munna Héðinsfjarðarganga
Hækkun: 800 m (855 m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 3 km
Stikuð leið: Nei, 2-3 skór
Göngutími: 3-5 klst. (fram og til baka)

Hestskarðshnjúkur er hátt og tignarlegt fjall í fjallahring Siglufjarðar með fagurt útsýni yfir nærliggjandi fjallstinda og til sjávar. Það liggur vegarslóði frá gangamunna inn í Skútudal og ágætt að leggja bifreið spölkorn fyrir innan munnann. Fyrst er gengið upp nokkuð bratta en vel gróna hlíð allt þar til komið er upp á svokallaðar Skútustaðabrúnir.

GPS: hestskardshnjukur.gpx


Hvanndalir

VÍKURBYRÐA

Upphaf göngu: Afleggjari við þjóðveginn í Héðinsfirði
Stikuð leið: Nei, 4 skór
Vað: Nei
Vegalengd: 11 km
Göngutími: 5-7 klst.
Hækkun: 800 m

Tilvalið er að hefja gönguferðina á útsýnissvæðinu við þjóðveginn milli gangamunna Héðinsfjarðarganga og kynna sér í leiðinni helstu kennileiti í firðinum á ágætis skiltum sem þar hefur verið komið fyrir. Þegar gengið er til Hvanndala er auðveldast að ganga út Héðinsfjörð að austanverðu. Með því losna göngumenn undan því að vaða ósinn, sem rennur til sjávar úr Héðinsfjarðarvatni, en hann er stundum vatnsmikill og illvæður.

GPS: hvanndalir.gpx


Hvanndalir

FJÖRULEIÐ

Upphaf göngu: Vík í Héðinsfirði
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Vað: Já
Vegalengd: 7 km
Göngutími: 3-4 klst.
Hækkun: 100 m

Aðra áhugaverða leið frá Héðinsfirði til Hvanndala er vert að skoða ef aðstæður leyfa. Þetta er svokölluð „fjöruleið“, sama leið og Guðrún Þórarinsdóttir gekk frá Hvanndölum til Héðinsfjarðar að sækja eldinn1. Svo að að þessi leið sé fær þarf bæði að vera ládautt og háfjara og er leiðin heldur ekki auðveld fyrir lofthrædda. Er þá gengið eftir sjávarbökkum frá slysavarnarskýlinu í Vík að Hvanndalaskriðum við Músardal. Hvanndalaskriður eru illfærar og ekki ráðlagðar til gönguferða.

GPS: hvanndalir-fjara.gpx


Hvanndalir til Ólafsfjarðar

STUTT LEIÐ

Upphaf göngu: Við Slysavaranarskýlið í Hvanndölum
Stikuð leið: Nei, 4 skór
Vað: Nei
Vegalengd: 10 km
Göngutími: 5-7 klst.
Hækkun: 650 m

Enn önnur áhugaverð leið frá Hvanndölum til byggða er sú sem nefnd hefur verið að fara gjána úr Sýrdal. Sú leið hefur oft verið kölluð Stuttleið. Frá Slysavarnarskýlinu er þá tekin stefna í suðaustur á Selskál og á brún Hádegisfjalls. Lítil skora er þar í brúninni og má þar greina leifar um grjóthleðslu er fyrr á öldum var hlaðin til þess að varna sauðfé uppgöngu úr Sýrdal, þegar fráfærur tíðkuðust þar.

GPS: hvanndalir-olafsf-stutt.gpx


Ólafsfjörður til Hvanndala

LANGALEIÐ UM FOSSDAL

Upphaf göngu: Við Kleifar í Ólafsfirði
Stikuð leið: Nei, 4 skór (Hvanndalir)
Vað: Nei
Vegalengd til Hvanndala: 11-12 km.
Göngutími: 6-8 klst.
Hækkun: 800 m
Vegalengd Fossdalur-Kleifar: 2x7 km.
Göngutími: 4-5 klst.

Gönguleið um Fossdal hentar bæði þeim sem ætla í krefjandi göngu til Hvanndala og þeim sem vilja léttari göngu um Fossdal og til baka að Kleifum. Gangan hefst við byggðakjarnann að Kleifum við vestanverðan Ólafsfjörð. Þar er falleg sumarhúsabyggð með nýjum og gömlum byggingum, sem vel er haldið við af afkomendum fyrri ábúenda. Gengið er út með firðinum í átt til Fossdals, nálægt sjávarbökkum, eftir ágætis slóða alla leið að vitanum við Brík. Þar blasir við austasti hluti hins tignarlega Hvanndalabjargs og útsýni til Ólafsfjarðarmúla og mynni Eyjafjarðar í átt til Látrastrandar.

GPS: olafsfjordur-hvanndalir.gpx


Héðinsfjörður til Ólafsfjarðar

RAUÐSKÖRÐ

Upphaf göngu: Afleggjari við þjóðveginn í Héðinsfirði
Stikuð leið: Já, að hluta, 3 skór
Vað: Já/nei (háð rennsli í Rauðskarðsá)
Vegalengd: 13,5 km
Göngutími: 4-5 klst.

Gangan hefst við við þjóðveginn milli gangamunna Héðinsfjarðarganga með sama hætti og greint er frá í kaflanum um gönguleiðina Hvanndalir-Víkurbyrða, með viðkomu að eyðibýlinu Vík. Þaðan er haldið beint upp hólana fyrir ofan bæinn nær ánni og má enn greina nokkrar stikur á leið inn Víkurdalinn. Leiðin inn eftir er greiðfær og þar er fagurt umhverfi í friðsælum dal.

GPS: hedinsfjordur-olafsfj.gpx


Héðinsfjörður um skörð

RAUÐSKÖRÐ - FOSSABREKKUR - MÖÐRUVALLASKÁL

Upphaf göngu: Afleggjari við þjóðveginn í Héðinsfirði
Stikuð leið: Já að hluta, 3 skór
Vað: Já/Nei (háð rennsli í Rauðskarðsá)
Vegalengd: 21,0 km
Göngutími: 7-9 klst.

Upphaf göngu er með sama hætti og leiðin um Rauðskörð til Ólafsfjarðar (sjá Héðinsfjörður til Ólafsfjarðar). Hér er um áhugaverða hringleið að ræða með upphaf og lok ferðar í Héðinsfirði. Leiðin er í lengra lagi sem dagleið, krefjandi en áhugaverð fyrir duglegt göngufólk. Þegar búið er að stikla yfir Rauðskarðsána, eins og lýst er í leiðinni Héðinsfjörður til Ólafsfjarðar, er ágætt að halda hæðinni utan í hlíðum Þverfjalls, ofan til þar sem heita Tungur, í átt til Syðri-Árdals. Greiðfært er inn dalinn og óþarfi að fara yfir ána.

GPS: hedinsfjordur-skord.gpx


Arnfinnsfjall

FINNURINN

Upphaf göngu: Kleifar Hækkun: 820 m (853 m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 3,0 km.x2
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Göngutími: 3-4 klst. (fram og til baka)

Best er að hefja gönguna norðan við Ytrí-Á. Gengið er inn dalinn um það bil 2 km í átt að Hrafnaskál en þar er talin vera auðveldasta leiðin á Arnfinnsfjall. Einnig er önnur leið farin á fjallið, upp með brúnum Bæjargils, sem liggur spölkorn austar á fjallinu. Sú leið er brattari á fótinn alla leið á fjallið og talin erfiðari en að fara Hrafnaskálina.

GPS: arnfinnsfjall.gpx


Gengið milli bæja í Héðinsfirði

Upphaf göngu: Útsýnissvæðið við þjóðveginn í Héðinsfirði
Hækkun: 0 m
Vað: Já
Vegalengd: 16-17 km
Stikuð leið: Nei, 1 skór
Göngutími: 5-6 klst.

Gengið skal beint af útsýnissvæðinu og stefnt inn dalinn vestanmegin ár. Ummerki sjást af stórum hyl, svonefndum Víðineshyl, þar sem þjóðvegurinn og brúin liggja yfir Héðinsfjarðarána. Á þessu svæði liðast áin í nokkrum bugðum með djúpum hyljum neðst. Þegar gengið er inn hlíðina er ágætt að finna fljótlega kindagötu, sem liggur ofan við grunnvatnsrennslið úr fjallinu. Þar fyrir neðan eru mýrar sem ágætt er að sleppa við, nema göngumenn vilji ganga meðfram árbakkanum upp með ánni.

GPS: gengid-milli-baeja.gpx


Múlakolla

Upphaf göngu: Við þjóðveginn utan við Brimnesána
Hækkun: 900 m (950m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 3,8x2 km
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Göngutími: 3-4 klst. (fram og til baka)

Ganga á Múlakollu er ekki eins krefjandi og Kerahnjúkurinn, bæði styttri vegalengd og um 120 metrum lægri. Múlakolla er fremsti hluti Ólafsfjarðarmúla og veitir frábært útsýni, ekki ósvipað og af Kerahnjúk. Heppilegt er að hefja gönguna við þjóðveginn rétt utan við Brimnesána. Gengið er fyrst upp með læk sem rennur í Brimnesána og stiklað fljótlega yfir og læknum fylgt.

GPS: mulakolla.gpx


Kerahnjúkur

Upphaf göngu: Við Hornbrekku Hækkun: 1060 m (1097m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 4,5 km
Stikuð leið: Nei, 4 skór
Göngutími: 4-6 klst. (fram og til baka)

Kerahnjúkur teygir sig í nærri 1100 metra hæð og er hæsta fjallið á fjallshryggnum austanmegin Ólafsfjarðar allt suður undir Lágheiði. Á hnjúknum er tilkomumikið útsýni með Eyjafjörð „innan seilingar“ til austurs og Ólafsfjörð til vesturs ásamt helstu toppum á utanverðum Tröllaskaga.

GPS: kerahnjukur.gpx


Hreppsendasúlur

Upphaf göngu: Efst á Lágheiði
Hækkun: 700 m (1052 m yfir sjávarmáli)
Vað: Nei
Vegalengd: 3 x 2 km (fram og til baka)
Stikuð leið: Nei, 2 skór
Göngutími: 3-4 klst. (fram og til baka)

Hreppsendasúlur (Hreppsendaársúlur) er hæsta fjall á fjallshryggnum er teygir sig til norðurs frá Lágheiði allt til Sigluness, nyrsta hluta Tröllaskagans. Fjallið er hátt og tignarlegt og ber nafn sitt af tveimur „súlum“ og sést víða að. Gengið er til vesturs af Lágheiðinni, fyrst gengið spölkorn um slétt mólendi áður en haldið er á brattann. Leiðin upp er tiltölulega greið og þegar komið er að fjallshryggnum sést til Fljóta og einnig sést vel á tindinn.

GPS: hreppsendasulur.gpx


Hamarshyrna - Miðhyrna

Upphaf göngu: Í mynni Tungudals
Hækkun: 880 m (1006 m Miðhyrna)
Vað: Nei (ef ekið er alla leið í Tungudal)
Vegalengd: 9-10 km
Stikuð leið: Nei, 3 skór
Göngutími: 7-8 klst.

Ekið er inn A-Fljót eftir þjóðvegi 82 og rétt inn fyrir Stífluvatn þar til komið er að afleggjara fyrir neðan bæinn Lund, æskuslóðir skáldkonunnar Guðrúnar frá Lundi. Þá skal beygt til vesturs á vegslóða sem liggur að sumarhúsabyggð í mynni Tungudals. Rétt er að taka fram að slóðinn er aðeins fær jeppum vegna vaðs á ánni, um 500 metra frá afleggjaranum. Frá vaðinu er um 2ja km akstur eftir vegslóðanum að sumarhúsabyggðinni þar sem gangan hefst.

GPS: hamarshyrna-midhyrna.gpx