Gönguleiðir: Fimmvörðuháls

Suðurland

Fimmvörðuháls

Lýsing

Leiðin um Fimmvörðuháls liggur á milli tveggja jökla, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, og tengir Skóga við Þórsmörk.

Þetta er ein allra vinsælasta gönguleið á Íslandi en mögulega líka ein sú viðsjárverðasta, sakir snöggra breytinga sem geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Það getur hæglega verið blítt og stillt veður á láglendi en þegar komið er upp á háhálsinn getur skollið á blindbylur og svarta þoka svo að ekki sér handa skil.

Leiðin er stikuð og stígar að mestu greinilegir nema efst uppi á hálsinum þar sem gengið er yfir snjó. Þar getur leiðin verið óljós og villugjörn. Allir sem ganga Fimmvörðuháls þurfa að taka með sér tæki til rötunar, kort, áttavita og GPS tæki.

Lítið er um vatn meirihluta leiðarinnar eða frá Skógá, yfir hálsinn og yfir í Þórsmörk.

Skálar á leiðinni

Á leiðinni eru tveir skálar. Annar þeirra er Baldvinsskáli sem stendur við fjölförnustu gönguleiðina. Skálinn er í eigu FÍ og þar geta 20 manns gist.

Hinn skálinn er Fimmvörðuhálsskáli sem stendur nokkru ofar og er í eigu Útivistar.

Í hvora áttina?

Flestir velja að ganga frá Skógum og enda í Þórsmörk en auðvitað er hægt að ganga yfir hálsinn í báðar áttir og upplifunin er nokkuð ólík eftir því hvor leiðin er valin.

Almennt er talið að leiðin upp frá Skógum sé auðveldari, þar sem hækkunin er ekki eins stíf. Að auki kjósa margir að ganga upp með Skógaánni því þá blasa allir fallegu fossar árinnar við göngumönnum og jafnframt er afar fallegt að horfa yfir Þórsmörk á niðurleiðinni. Fjallvegahlauparar vilja hins vegar oftast fara Fimmvörðuhálsinn í öfuga átt og byrja í Þórsmörk. Þá er hækkunin tekin hratt og auðveldara er að ná góðu skriði á hlaupum niður meðfram Skógaánni.

Leiðsagðar ferðir

Hægt er að hafa samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533 ef óskað er eftir aðstoð við skipulagningu og leiðsögn í ferð yfir Fimmvörðuháls.

Skógar-Þórsmörk

Gangan hefst við Skógarfoss með því að gengið er upp tröppurnar austan við fossinn. Mælt er eindregið með því að fólk fari rólega af stað upp tröppurnar, sem eru margar og taka í. Við tekur augljós göngustígur sem liggur upp Skógaheiði, austan Skógaár. Fossarnir sem við blasa eru hverjum öðrum fallegri og gaman er að gefa sér tíma til að skoða þá. Þegar komið er að göngubrú yfir Skógaána eru um 8 km að baki og hér er gott að fylla á vatnsbrúsana því framundan er ekki hægt að ganga að neinu vatni vísu. 

Frá göngubrúnni er hægt að velja um tvær leiðir. Sú austari og fjölfarnari liggur að mestu meðfram akveginum upp í Baldvinsskála. Þetta er stysta leiðin en frá göngubrú og í Baldvinsskála eru rúmlega 4 km. Hins vegar er stikuð gönguleið sem liggur vestar (vinstra megin), meðfram Skógaá vestari og upp í Fimmvörðuskála sem liggur hærra en Baldvinsskáli. Frá göngubrú og upp í Fimmvörðuskála er tæp 7 km ganga um vestari leiðina.

Í Baldvinsskála er kamar og aðstaða til að borða nesti en ekkert rennandi vatn. Frá skálanum liggur leiðin að mestu yfir fannir yfir Fimmvörðuhálsinn sjálfan. Leiðin er stikuð og oftast greinileg þegar líða tekur á sumar og margir hafa markað slóð í snjóinn. Eftir um það bil 3 km göngu frá Baldvinsskála er komið að Goðahrauni sem rann í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 úr tveimur gígum, Magna og Móða og er gaman að ganga upp á þá báða eða annan. Upplýsingaskilti er við gosstöðvarnar.

Skammt frá liggur leiðin framhjá vörðu og minnismerki um þrjú ungmenni sem urðu úti á hálsinum árið 1970. Þá er stutt í að leiðin liggi niður í móti og fyrst verður fyrir Brattafönn sem síðsumars stendur illa undir nafni enda hafa loftslagsbreytingar gert það að verkum að fönnin getur þá verið horfin. Fólk þarf að fara hægt niður Bröttufönn hvort sem farið er á snjó eða á móberginu sem undir leynist. Fyrir neðan Bröttufönn er Heljarkambur sem er nokkurs konar hryggur sem tengir Fimmvörðuháls við Morinsheiði. Settar hafa verið keðjur til stuðnings yfir þennan hluta leiðarinnar sem er stuttur og vel fær, líka fyrir lofthrædda, þrátt fyrir illúðlega nafngiftina.

Marflöt Morinsheiðin er næst. Hægt er að sveigja af leið til vinstri og fara þá niður Hvanngil eða jafnvel yfir Útigönguhöfða en hefðbundna leiðin liggur beint áfram og niður bratta brekku undir Heiðarhorni. Stígurinn er mjög greinilegur hér og fallegt útsýni yfir Goðland. Ekki líður á löngu þar til komið er á Kattahryggi sem margir lofthræddir óttast mjög. Búið er að laga stíginn um hryggina svo að þeir eru ekki ýkja ógnvænlegir en þó er ástæða til að fara þar varlega.

Síðasti spölurinn er stuttur en brattur um fallega göngustíga í ilmandi kjarri meðfram Strákagili. Sums staðar hafa verið settar upp stuðningslínur. Þegar niður er komið er best að beygja til vinstri og yfir göngubrú yfir Strákagilslækinn. Þaðan er hægt að fylgja göngustíg í Bása að skála Útivistar eða áfram um göngubrú yfir Krossá og í skála Ferðafélagsins í Langadal. Á milli Bása og Langadals eru um 2 kílómetrar.

Suðurland

Fimmvörðuháls / Baldvinsskáli

Ferðafélag Íslands
Skoða skálann
Suðurland

Þórsmörk / Langidalur

Ferðafélag Íslands
Skoða skálann