Skáli: Þórsmörk / Langidalur

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Suðurland

Þórsmörk / Langidalur

Þórsmörk er sannkölluð útivistarparadís og þar eru ófáar náttúruperlurnar sem hægt er að heimsækja í lengri eða styttri gönguferðum. Langidalur, þar sem skáli Ferðafélags Íslands stendur, liggur í miðju svæðisins og þar endar meðal annars Laugavegurinn, ein vinsælasta gönguleið landsins. Að auki er vinsælt að ganga yfir  Fimmvörðuháls og enda eða byrja í Þórsmörk.

Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.

AÐSTAÐA

Skagfjörðsskáli í Langadal í Þórsmörk er stór og rúmgóður fjallaskáli á tveimur hæðum. Alls geta 73 manns sofið í skálanum öllum.

Á neðri hæðinni er gengið inn í opið anddyri og inn af því er stórt opið eldhús með gashellum og kamínu, öllum mataráhöldum og köldu, rennandi vatni. Stór matsalur með borðum, stólum og sófahorni liggur til hægri handar en til vinstri handar inn af anddyrinu er lokaður gangur með tveimur svefnherbergjum með kojum. Á efri hæð hússins eru þrjú svefnloft með rúmbálkum og kojum. Skálinn var reistur árið 1954.

Myndir frá byggingu Skagfjörðsskála.

Góður pallur liggur við húsið þar sem hægt er að grilla og borða úti við. Skálinn er tengdur salernishúsi með hellulögðum stíg og þar eru auk salerna, tvær sturtur. Bak við húsið ofan í laut er góð grillaðstaða fyrir stærri hópa en þar er stórt hlaðið útigrill, langborð og bekkir. 

Margvísleg aðstaða er í Þórsmörk og meðal annars er þar svokallað dagsferðahús þar sem bæði tjaldgestir og dagsferðalangar geta eldað og borðað nestið sitt. Í dagsferðahúsinu er einnig rekin lítil verslun með vínveitingaleyfi.

Myndir úr Langadal.

Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 600 fyrir einstakling eða kr. 1.000 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.

OPNUN OG AÐGENGI

Skálinn í Langadal er að öllu jöfnu opinn og mannaður frá byrjun maí og fram í byrjun október. Opnun og aðgengi að skálanum helst í hendur við opnun Vegagerðarinnar á vegi F249 inn í Þórsmörk. Vegna gróðurverndarsjónarmiða er ekki selt í tjaldstæði í Langadal nema frá 20. maí.

Hafa þarf í huga að til þess að komast akandi að skálanum í Langadal þarf að fara yfir margar stórar sem smáar ár og læki. Síðasta áin er hin alræmda og oft hættulega Krossá. Aðeins vanir bílstjórar á stórum jeppum ættu að leggja í Krossá og þá eingöngu að vel athuguðu máli. Hægt er að hringja í skálaverði til að kanna með færð og vöðin yfir árnar.

Skálinn er lokaður og læstur yfir vetrartímann og að öllu jöfnu er ekki hægt að komast þar inn að vetrarlagi. Í undantekningartilvikum er skálinn leigður út að vetri og þá aðeins að skálavörður sé með í för. Hægt er að senda fyrirspurn á skrifstofu FÍ.

Athugið að lengri vetrargönguferðir, hvort sem er norður Laugaveginn eða suður Fimmvörðuháls, eru aðeins á færi reynslumikils ferðafólks með 5 árstíða útbúnað.

NÆSTA NÁGRENNI

Margar skemmtilegar útivistarperlur eru á leiðinni inn í Þórsmörk. Gaman er að skoða Nauthúsagil, Merkurker, það sem eftir er af Gígjökli og Stakkholtsgjá.

Yfir skálanum rís svo Valahnúkur sem er skylduganga fyrir alla Þórsmerkurfara og enn má nefna Stórenda, Stangarháls, Hamraskóga, Húsadal, Bása, Rjúpnafell og hinn skemmtilega Tindfjallahring.

Skálaverðir veita upplýsingar um skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu.

Upplýsingar

  • GPS staðsetning: N 63°40 960 - W 19°30.890
  • Símanúmer: 893 1191
  • Hæð yfir sjávarmáli: 200m
  • Næsti skáli: Botnaskálar í Emstrum
  • Aðgengi: Á jeppum
  • Skálavörður: Á sumrin

Aðrar upplýsingar

Hér er hægt að sjá 3D skanna af Langadal:

Skoða

Aðstaða í/við skála

Laugavegur

Hálendið Vegalengd: 54 km Göngutími 4-5 dagar
Skoða

Tindfjallahringur í Þórsmörk

Suðurland Vegalengd: 7.6 km Göngutími 3-4 klst
Skoða

Fimmvörðuháls

Suðurland Vegalengd: 24 km Göngutími : 9 klst
Skoða