Áttavitinn

Áttaviti Ferðafélags Íslands er hlaðvarp Ferðafélagsins.  í þessum þáttum förum við um víðan völl, og ræðum við sérfræðinga um allt sem tengist ferðamennsku og öryggi á fjöllum.  Hægt er að nálgast þættina hér að neðan, og einnig í snjalltækjum í gegnum hin ýmsu podcast eða hlaðvarpsforrit.  Þú getur til dæmis hlaðið niður þáttum í símann þinn og hlustað hvar og hvenær sem er.

Þáttur 11

Ólafur Örn Haraldsson - Forseti Ferðafélags Íslands

Gestur þáttarins í dag er Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands.  Ólafur er með masterpróf frá Englandi í skipulagi byggða og bæja og BA-próf í sögu- og jarðfræði frá Háskóla Íslands. Ólafur er fyrrverandi alþingismaður en hann sat á þingi frá árinu 1995-2003. Og Ólafur var einnig Þjóðgarðsvörður Þingvalla frá árinu   2010-2017.

Ólafur hefur ferðast víða og stundað fjallamennsku vítt og breitt um heiminn og klifið mörg háfjöll m.a. Mont Blanc, Kilimanjaro og Aconcagua hæsta fjall Suður Ameríku.

Ólafur er brautryðjandi í íslenskri fjallamennsku, hann var m.a. í fyrstu skíðaleiðangrum Íslendinga yfir Grænlandsjökul og á Suðurpólinn.

 

Þáttur 10

Næring á fjöllum - Anna Sigríður Ólafsdóttir, Auður Elva Kjartansdóttir og John Snorri Sigurjónsson

Í þættinum reynum við að svara algengum spurningum eins og hverju þurfi að huga að þegar kemur að næringu á fjöllum, samsetningu máltíða, vökvastjórnun, hvað við eigum ekki að taka með okkur sem og algeng mistök sem fólk gerir varðandi næringu og máltíðir á fjöllum.

Gestir okkar eru þau Anna Sigríður Ólafsdóttir, kölluð Anna Sigga, Prófessor í næringafræði við Háskóla Íslands. Auður Elva Kjartansdóttir, sérfræðingur í ofanflóðum með mikla reynslu leiðsögumaður og af störfum í björgunarsveit. Auður hefur einnig gengið oftast kvenna á Hvannadalshnúk eða um 80 sinnum. John Snorri Sigurjónsson er einnig gestur okkar en hann er fyrsti og eini íslendingurinn sem hefur gengið á K2, en K2 er eitt hættulegasta fjall í heimi. John náði þeim stórkostlega árangri að fara á þrjú fjöll sem eru yfir 8.000 há á aðeins 80 dögum.

 

Þáttur 9

Jóhann Kári Ívarsson - Gekk reglulega 22km til að komast í sturtu

Gestur þáttarins er Jóhann Kári Ívarsson skálavörður í einum afskekktasta skála ferðafélagsins, Hrafntinnuskeri sem er í um 1.100m hæð. Jóhann hefur starfað sem skálavörður síðan 2012 þar af lengstum í Hrafntinnuskeri.

Í viðtalinu er farið yfir lífið á hálendi Íslands með þeim ævintýrum og áskorunum sem því fylgir og þróun mála í Hrafntinnuskeri, til dæmis segir Jóhann frá því hvernig hann gekk reglulega um 22 kílómetra leið til að komast í sturtu.

Jóhann er einnig einn af umsjónarmönnum Ferðafélags Unga fólksins og ferðast vítt og breitt um landið með unga fólkinu í FÍ.

 

Þáttur 8

Dóri vitavörður - Vitavörður FÍ og lífið á fjöllum

Dóri er einn af þúsundþjalasmiðum Ferðafélags Íslands. Hann segir hér m.a. söguna um hvernig hann var hætt kominn þegar hann féll útbyrðis á sjó um hávetur og hvernig reiðhjólakaup á netinu opnuðu leið fyrir hann í vitavörslu í Hornbjargsvita.  Dóri stýrir einnig fóstra og vinnuhópum ferðafélagsins sem sjá um viðhald skála félagsins.

 

Þáttur 7

Ferðanefnd og úrval ferða FÍ - Sigrún Valbergsdóttir varaforseti FÍ og formaður ferðanefndar

Gestur okkar að þessu sinni er Sigrún Valbergsdóttir sem er einn af þeim fjölmörgu öflugu og hæfileikaríku félagsmönnum sem mynda Ferðafélag Íslands.  Sigrún er er fararstjóri, kennari í leiðsöguskólanum, leikstjóri og ekki síst varaforseti Ferðafélags Íslands og formaður ferðanefndar ferðafélagsins.

Það finna allir eitthvað fyrir sig í ferðaáætlun FÍ
Sigrún segir úrval ferða vera gífurlega mikið, allt frá léttum ferðum yfir í mjög krefjandi ferðir auk talsverðra nýjunga. Má þar meðal nefna fjallaskíðaferðir sem hafa verið kærkomin og vinsæl viðbót við úrval ferða FÍ.

 

 

Þáttur 6

Njótum ferðalagsins - Sigríður Lóa, fararstjóri og sálfræðingur

Gestur þáttarins að þessu sinni er fararstjórinn og sálfræðingurinn Sigríður Lóa.  Hún hvetur okkur að njóta ferðlagsins og gleyma ekki að gefa okkur tíma til að njóta augnabliksins.  Sigríður Lóa minnir okkur einnig á mikilvægi hreyfingar í baráttunni gegn algengra lýðheilsusjúkdóma á borð við þunglyndi og kvíða.

 

 

Þáttur 5

Ferðafélag Íslands - Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri

Gestur okkar í fimmta þætti Áttavitans, hlaðvarps ferðafélagsins, er Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Í þættinum ræða þeir Páll og Bent um ferðafélagið vítt og breytt. Allt frá stofnun félagsins til dagsins í dag. Ferðafélag Íslands var stofnað 27. nóvember 1927 og fagnaði því 90 ára afmæli sl. haust, félagðið er nú með um 8.000 félagsmenn. Félagið er með veglega ferðaáætlun á hverju ári og nú í ár eru um 200 ferðir í boði, það er óhætt að segja að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Ferðafélagið og deildir þess reka saman um 40 skála á hálendi Íslands og í óbyggðum Ferðafélag Íslands sjálft rekur um 15 skála. Eins og Páll segir í þættinum þá er eitt aðalmarkmið Ferðafélagsins að hvertja landsmenn og félagsmenn til að fara út í náttúruna. Með allar þær ferðir í boði, fjallaverkefni, fræðslufundi, uppbyggingu gönguleiða, árbók, skála félagsins á hálendi Íslands og ekki síst frábært starf sjálfboðaliða innan félagsins má segja að Ferðafélag Íslands styrkist með hverju ári.

 

 

Þáttur 4

Fjallaskíðamennska - Tómas Guðbjartsson & Helgi Jóhannesson

Gestir okkar að þessu sinni eru þeir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands og Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og einnig stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands. Þeir eru miklir áhugamenn um fjallaskíðamennsku og settust niður með okkur og fræddu um þessa frábæru útivist sem fjallaskíðamennskan er.

 

 

Þáttur 3

Öryggi á fjöllum & umhverfismál - Hjalti Björnsson

Gestur okkar í að þessu sinni er Hjalti Björnsson fararstjóri hjá FÍ og sjálfstætt starfandi áfengis- og vímefnaráðgjafi. Hann býr yfir mikilli reynslu sem fjalla- og leiðsögumaður, hann er einnig starfandi formaður Flugbjörgunarsveitarinnar. Hjalti eyðir öllum sínum frítíma á fjöllum eða í annars konar útivist.

Í þættinum er farið yfir þau mikilvægu grunnatriði sem fólk þarf að hafa í huga við útivist, hvað varðar eigið öryggi og annara. Einnig ræða þeir hvernig gott sé að bera sig að við að koma sér af stað í göngu- og fjallamennsku, annað hvort alveg frá grunni eða fyrir þá sem hafa stundað göngur og fjöll áður fyrr en vilja koma sér aftur af stað.  Hjalti er sérlegur áhugamaður um umhverfismál og hefur hann verið í fararbroddi hjá FÍ hvað varðar PLOKK-viðburði félagsins, hann ræðir hér m.a. þessa hugsjón sína og minnir okkur á að ganga vel um landið okkar.

 Þáttur 2

Ferðafélag barnanna - Dalla Ólafsdóttir & Matthías Sigurðarson umsjónarmenn Ferðafélags barnanna

Það sem gerir ferðir með Ferðafélagi barnanna sérstakar eru að þær eru farnar á forsendum barnanna og sniðnar að þörfum þeirra. Í þættinum ræða þau meðal annars um upplifanir barna á ferðalögum, hvernig börnin sjá náttúruna öðruvísi hinir fullorðnu og ævintýri barnanna á ferðalögum með Ferðafélagi barnanna.

Þáttur 1

John Snorri Sigurjónsson - Ferðin á K2

John Snorri er sex barna faðir og heimsklassa fjallgöngumaður. Hann hefur, fyrstur Íslendinga, klifið K2 sem er annað hæsta fjall heims og jafnframt eitt það alhættulegasta. Aðeins um 2/3 þeirra sem reyna við fjallið komast lífs af. John er gæddur mörgum hæfileikum, hann er vélfræðingur og viðskiptafræðingur en eins og hann segir sjálfur, að upplagi sveitastrákur úr Flóanum.