Gönguleiðir: Kjalvegur hinn forni

Hálendið

Kjalvegur hinn forni

Lýsing

Gönguleiðin um Kjalveg hinn forna liggur á milli Hveravalla og Hvítárnes á Kili. Svæðið á milli Langjökuls í vestri og Hofsjökuls í austri kallast Kjölur og geymir fjölmarga möguleika fyrir útivistarfólk.

Akstur yfir Kjalveg gefur langt í frá rétta mynd af svæðinu þar sem akvegurinn liggur að mestu um berangurslegt og gróðurvana land. Fyrir tíma bílaaldar, meðan allir fóru um á hestum, lá leiðin hins vegar mun vestar, nær Langjökli, enda er sú leið mun betur gróin. Það er sú leið sem í daglegu tali kallast Kjalvegur hinn forni og þar má finna margar faldar perlur sem aðeins er hægt að sjá og skoða með því að ganga þessa leið.

Almennt er leiðin auðveld yfirferðar, stikur og vörður marka leiðina að mestu og stígar eru greinilegir. Þetta er góð gönguleið fyrir byrjendur. 

Frá Þjófadölum í Þverbrekknamúla er lítið um vatn og því mælt með því að bera það með sér, þann hluta leiðarinnar.

Skálar á leiðinni

Á leiðinni má finna fjóra skála. Á Hveravöllum er rekin ferðaþjónusta þar sem boðið er upp á gistingu. Í Þjófadölum stendur lítið sæluhús í eigu Ferðafélags Íslands en þar geta 11 manns gist. Í Þverbrekknamúla geta 20 manns gist í þægilegum skála FÍ og í Hvítárnesi stendur elsta sæluhús FÍ sem hýsir 30 manns.

Í hvora áttina?

Hægt er að ganga Kjalveg hinn forna í báðar áttir og litlu skiptir hvor leiðin er farin, þar sem hækkanir og lækkanir eru litlar sem engar. Mörgum finnst þó sjónarmun fallegra að ganga í suður og hafa skriðjöklana á norðurhlið Hrútfellsins fyrir augunum á degi tvö og Hvítárvatnið síðasta daginn.

Leiðsagðar ferðir

Hægt er að hafa samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533 ef óskað er eftir aðstoð við skipulagningu og leiðsögn í ferð um eða við Kjalveg hinn forna.

Hveravellir - Hvítárnes

Hveravellir - Þjófadalir
12 km. 4-5 klst.

Gangan hefst á Hveravöllum og sjálfsagt er að gefa sér tíma til að bregða sér í heitu laugina og ganga um hverasvæðið áður en lagt er af stað. Óvíða á Íslandi er að finna jafn margbreytilega hveri. 

Frá Hveravöllum er hægt að velja um tvær leiðir í Þjófadali. Annars vegar er hægt að fylgja stikum og vörðum og ganga beint í suður að Strýtum sem er afar fallegur gígur og hæsti punktur Kjalhrauns. Þaðan er svo gengið beint í vestur í Þjófadali. Hin leiðin fylgir vegaslóða að nokkru og liggur í fyrstu í suðvestur þar til komið er suður fyrir Stélbratt og svo suður í Sóleyjardali, stundum nefndir Jökulvellir. Eftir það liggur leiðin næstum beint í suður á Þröskuld austan Þjófadala. Þar sést niður í skálann sem var reistur árið 1939. Allt er svæðið ákaflega vinalegt, vaxið gras- og lynggróðri.

Enginn ætti að láta hjá líða að ganga upp á Rauðkoll sem er hæstur fjalla bak við skálann og rís í 1075 m hæð. Af honum er feykilega fallegt útsýni yfir Kjöl og Langjökul.

Þjófadalir - Þverbrekknamúli
14 km. 5-6 klst.

Nú er gengið í suðvestur á milli Þverfells og Þjófafells og út úr Þjófadölum. Síðan er gengið í suðurjaðri Kjalhrauns, á milli fagurlegra hlaðinna varða með Fúlukvísl á hægri hönd. Mikilúðlegt Hrútfellið er sunnan kvíslarinnar en niður hlíðar fjallsins renna litlir skriðjöklar frá hinum ört dvínandi Regnbúðajökli. Á þessum slóðum rennur Fúlakvísl í mjög þröngu gljúfri, sem hún hefur grafið í Kjalhraun.

Lítil göngubrú er á Fúlukvísl á móts við Múlana, þar sem gljúfrið er hvað þrengst. Gengið er yfir brúna og síðan upp á Múlana og suður í skálann sunnan við Þverbrekknamúla. Annar möguleiki er að ganga áfram meðfram Fúlukvísl og suður að annarri göngubrú sem er beint austan skálans.

Margir kjósa að dvelja tvær nætur í Þverbrekknamúla og nýta tímann til að skoða umhverfið. Af nógu er að taka og til dæmis er gaman á góðum degi að reyna sig við Hrútfellið.

Þverbrekknamúli - Hvítárnes
15 km. 5-6 klst.

Fyrst er gengið í austur, yfir göngubrúna á Fúlukvísl og síðan í suðvestur meðfram ánni og henni fylgt allt suður fyrir Hrefnubúðir. Hérna er gengið um gróið land og oft á tíðum djúpar hestagötur. Sunnan Baldheiðar koma víða upp kristaltærar lindir.

Önnur leið og lengri er að ganga vestan Fúlukvíslar um Innri og Fremri Fróðárdali og jafnvel alla leið suður í Karlsdrátt sem er einstakt gróðursvæði sem kúrir undir Langjökli. Gengið er suður fyrir Hrútfellið og haldið yfir lítið fjallaskarð niður í Fremri Fróðárdal. Mikilvægt er að hafa Fróðá á hægri hönd þegar farið er yfir skarðið, þ.e. undir Rauðafelli. Í Fremri Fróðárdal sprettur lindarvatnið beint út úr hömrunum sem er ógleymanleg sjón.

Þaðan þarf svo að vaða Fúlukvísl í mörgum kvíslum og miklu mýrlendi undan Hrefnubúðum til að komast í skálann í Hvítárnesi.

Suðurland

Hvítárnes

Ferðafélag Íslands
Skoða skálann
Suðurland

Þjófadalir

Ferðafélag Íslands
Skoða skálann
Suðurland

Þverbrekknamúli

Ferðafélag Íslands
Skoða skálann