Ferð: Hinar einu sönnu Hornstrandir I

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Hornstrandir

Hinar einu sönnu Hornstrandir I

Sumarleyfisferð
Lýsing

Hinar einu sönnu Hornstrandir
Á Hornströndum renna haf og himinn saman í stórbrotinni fegurð og dulúð. Í þessari ferð byrjar ævintýrið með siglingu inn í Jökulfirði og heldur áfram þegar gengið er yfir í Hornbjargsvita, um hið mikla Hornbjarg og
blómskrúðið í Hornvík. Stórbrotin fegurð blasir alls staðar við. Ekki spillir hin litríka og sérstæða mannlífssaga sem gefur gönguferðum um friðlandið enn meira gildi. Gist er í þrjár nætur í Hornbjargsvita og dvalið við náttúruskoðun og gönguferðir. Sameiginlegur matur, fyrir utan dagsnesti fyrsta daginn. Þátttakendur hafa með sér svefnpoka og fatnað til ferðarinnar sem þeir bera frá Lónafirði yfir í Hornbjargsvita í upphafi ferðar, og frá Hornbjargsvita yfir í Veiðileysufjörð í lok ferðar.

Fremur erfið þriggja skóa ferð, langar dagleiðir, talsverð hækkun og víða grýttar slóðir. Nauðsynlegt að vera í góðu formi til þess að njóta ferðarinnar og gott að miða við að geta farið upp að Steini í Esju á um klukkutíma.

Brottför/Mæting
Kl. 8.30 á bryggjuna í Bolungarvík. Brottför kl. 9.
Fararstjórn

Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Innifalið
Sigling, gisting, fullt fæði og fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

  • Bakpoki, ekki of stór
  • Svefnpoki, léttur og hlýr
  • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
  • Tjald og tjalddýna
  • Göngustafir
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Höfuðljós
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu / skíðagleraugu
  • Broddar, ef þurfa þykir
  • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

  • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
  • Verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði / þvottapoki
  • Sólvarnarkrem og varasalvi
  • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

  • Prímus, eldsneyti og pottur
  • Eldspýtur
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

  • Góðir gönguskór
  • Vaðskór / skálaskór
  • Tvö pör mjúkir göngusokkar
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Nærbuxur til skiptana
  • Nærföt, ull eða flís
  • Flís- eða ullarpeysa
  • Millilag úr ull eða flís
  • Göngubuxur
  • Stuttbuxur
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar

Matur

  • Frostþurrkaður matur
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Haframjöl
  • Smurt brauð og flatkökur
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Fróðleikur

Heimur Hornstranda

Hornstrandir hafa í gegnum tíðina heillað marga. Dæmi eru um að fólk fari áratugum saman á þessar harðbýlu slóðir og uppgötvi stöðugt eitthvað nýtt. Sú var tíð að þéttbýlt var á Hornströndum. Nú er staðan sú að enginn er þar yfir harðasta veturinn en þegar vorar birtist sumarfólkið.

Eftirfarandi árbók fjallar um svæðið og hana er hægt að kaupa í vefverslun okkar.

Leiðarlýsing

1.d., fimmtud. Siglt í Lónafjörð í Jökulfjörðum þaðan sem þátttakendur ganga með allan farangur, fyrir utan mat, yfir Snókaheiði og í Hornbjargsvita. Ganga: 14 km. Hækkun 500 m.

2.d. Gengið á Hornbjarg og ef til vill Kálfatind. Til baka um Almenningaskarð. Ganga: 20 km. Hækkun 1100 m.

3.d. Gengið um Hrollaugsvík og Bjarnarnes, með áherslu á lífríki Hornstranda. Ganga: 13 km. Hækkun 400 m.

4.d. Gengið um Kýrskarð yfir í Hornvík þar sem vaða þarf Hafnarósinn. Farið um Hafnarskarð yfir í Veiðileysufjörð þar sem báturinn bíður. Ganga: 17 km. Hækkun 800 m.

Fleiri ferðir á Hornstrandir sumarið 2024