Ferð: Ylur og birta í Hornbjargsvita

Hornstrandir
Ylur og birta í Hornbjargsvita
Göngu- og vinnuferð
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Þátttakendur koma á eigin bílum fyrir fimmtudagskvöld 18. júní í Norðurfjörð þar sem gist er í húsi FÍ að Valgeirsstöðum fyrstu nóttina. Kl. 9 daginn eftir er siglt frá Norðurfirði til Látravíkur, ef aðstæður leyfa, annars í Hornvík þaðan sem gengið er í Hornbjargsvita. 

Skemmtileg ferð þar sem blandað er saman vinnu og útivist. Þátttakendur taka til hendinni og ganga í ýmis vorverk; mála, þrífa, smíða og undirbúa opnun Hornbjargsvita fyrir sumarið. Aðalvinnan felst í því að koma upp stiga og rennu ofan í fjöru til að flytja fólk, farangur og vistir til og frá. 

Halldór Hafdal, staðarhaldari í Hornbjargsvita, er öflugur veiðimaður og mokar upp aflanum á sjóstöng. Þátttakendur njóta góðs af því og fá án efa að smakka hinar rómuðu fiskibollur Halldórs. 

Á milli þess sem hlúð er að húsinu og umhverfi þess er farið í stuttar gönguferðir, gjarnan á sjálft Hornbjarg og Kálfatinda. 

Brottför/Mæting
18. júní í Norðurfjörð
Fararstjórn

Halldór Hafdal Halldórsson , Ketill Hugi Halldórsson og Pétur Ásgeirsson.

Innifalið
Sigling, gisting, allur matur í Hornbjargsvita og fararstjórn.

Hægt er að skipta greiðslum með kortaláni frá Valitor. Vinsamlega hafið samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533.

Fiskibollurnar hans Dóra

Ferð félagsmanna Ferðafélags Íslands í Hornbjargsvita við Látravík í lok júní er sambland af skemmtun og vinnu. Halldór Hafdal Halldórsson, staðarhaldari á Hornbjargsvita, leiðir ferðina og starf sjálfboðaliða ásamt Katli Huga Halldórssyni og Pétri Ásgeirssyni.  

Gert er klárt fyrir ferðamannavertíðina. Aðalvinnan felst í því að koma upp stiga og rennu í fjörunni til koma farangri ferðalanga til og frá. Þá þarf að þrífa húsið, mála og snurfusa eftir veturinn. Vitinn er með sína eigin orkuframleiðslu. 100 ára gömul túrbína annast framleiðsluna og tryggir birtu og yl. Lesa má á túrbínunni að hún er framleidd í Kristianiu í Noregi. Sú borg fékk seinna nafnið Osló.  

Síðasti vitavörður með fasta búsetu var Ólafur Þ. Jónsson, Óli kommi. Halldór er arftaki hans þá tæpu tvo mánuði sem vitinn er opinn yfir sumarið. Pólitískar skoðanir eru þó ekki eins eldrauðar og var í tíð Óla. Verkefnið er að taka á móti ferðafólki. Halldór hefur ágæta reynslu sem slíkur eftir að hafa gegnt stöðu skálavarðar að Fjallabaki. 

Auk þess að vera með eigin orkuframleiðslu er Halldór öflugur fiskimaður. Örstutt undan landi er þorskur í miklum mæli. Staðarhaldarinn veiðir á sjóstöng og mokar gjarnan upp afla. Gestir og gangandi fá gjarnan fisk sem veiddur er við fjöruborðið. Fiskibollurnar hans Halldórs, eða Dóra eins og hann er kallaður, eru rómaðar þykja afbragðsgóðar. 

Milli þess sem sjálfboðaliðar Ferðafélagsins hlúa að húsum og umhverfi er farið í gönguferðir í grenndinni. Viðbúið er að ferðamaðurinn rekist á refi sem eru svo gæfir að menn þurfa að gæta vandlega að nesti sínu. Það er ekki ólíklegt að þetta rándýr, sem alla jafna er styggt, borði úr lófa mannsins. Gjarnan er gengið á sjálft Hornbjarg og Kálfstindar skoðaðir. 

Víst er að margir munu leggja leið sína á Hornstrandir í sumar. Reglubundnar áætlunarferðir verða frá Norðurfirði með Strandferðum og gefst ferðafólki kostur á að fara í helgarferð á þessar slóðir við ystu byggð. Siglt er frá Norðurfirði föstudegi og aftur á sunnudegi. Siglingin tekur tvær og hálfa klukkustund til fjórar, eftir veðri og sjólagi.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur