Skáli: Hrafntinnusker

Suðurland

Hrafntinnusker

Skáli Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri stendur við Laugaveginn, eina vinsælustu gönguleið landsins.

Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.

AÐSTAÐA

Höskuldsskáli í Hrafntinnuskeri er einn afskektasi fjallaskáli landsins og stendur i um 1100 m hæð, innan um hraun, jökla og sanda.  Skálinn tekur 52 manns í gistingu. Skálinn stendur á tveimur hæðum. Á neðri hæð hússins er anddyri, tveir svefnsalir með kojum, langborðum og stólum og eldhús með rennandi köldu vatni, gashellum og öllum eldhúsáhöldum. Á efri hæðinni er eitt herbergi og tveir svefnsalir þar sem sofið er á dýnum á gólfinu. Kolagrill er úti á palli.  Í Hrafntinnuskeri er nýtt skálavarðahús, ný geymsla og nýtt skjóhús á tjaldstæði. 

 Í Hrafntinnuskeri er kamaraðstaða með vöskum sem er sambygggt með útihúsi við skálann.  Þó er ekki innangengt úr skálanum á kamarinn. Stór og rúmgóður trépallur liggur allt í kringum húsið og tengir skálann og kamarinn. Vatnsbúskapur á svæðinu dugar ekki til að setja upp vatnssalerni.  Því miður er vond lykt sem fylgir kömrum en reynt er að halda henni niðri með ýmsum ráðum.   Enginn sturta er á svæðinu.  Annar lítill kamar er staðsettur á tjaldsvæðinu skammt fyrir neðan skálann. Tjaldað er á grjótmel.

Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 700 fyrir einstakling eða kr. 1.100 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.

Fyrsti skálinn í Hrafntinnuskeri var reistur árið 1977 í því sjónarmiði að þjónusta göngufólk á Laugaveginum.

OPNUN OG AÐGENGI

Skálinn er opinn og mannaður  með tveimur skálavörðum yfir sumartímann og aðeins ætlaður gangandi fólki.  Enginn vegur liggur  að skálanum en illfær slóði um hraun og jökla og  er aðeins notaður til að flytja vistir til og frá skálans yfir hásumarið.

Opnun skálans helst í hendur við opnun Vegagerðarinnar á vegunum um Fjallabak og fer eftir snjóalögum og ástandi veganna. Í meðalári má ganga út frá því að opið sé í Hrafntinnuskeri frá 25. júní til 16. september.

Skálinn er lokaður og læstur yfir vetrartímann og að öllu jöfnu er ekki hægt að komast þar inn að vetrarlagi.  

Athugið að það er aðeins á færi reynslumikils ferðafólks að ferðast um þessar slóðir að vetri til og til þess þarf 5 árstíða útbúnað.

Upplýsingar

  • GPS staðsetning: N 63°56.014 - W 19°10.109
  • Símanúmer: 7846608
  • Hæð yfir sjávarmáli: 1100m
  • Næsti skáli: Landmannalaugar og Álftavatn
  • Aðgengi: Aðeins gangandi
  • Skálavörður: Á sumrin

Aðstaða í/við skála

Laugavegur

Hálendið Vegalengd: 54 km Göngutími 4-5 dagar
Skoða