Hvanngil
Skálinn í Hvanngili stendur við Laugaveginn, eina vinsælustu gönguleið landsins. Þetta er rúmgóður skáli á tveimur hæðum þar sem 60 manns geta sofið.
Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.
AÐSTAÐA
Á neðri hæð skálans er stórt anddyri, lítið eldhús og tveir svefnsalir með kojum, borðum og stólum. Á efri hæðinni eru tveir svefnsalir til viðbótar þar sem sofið er á dýnum á gólfinu. Eldunaraðstaða er góð, hægt er að elda á gasi og öll mataráhöld og borðbúnaður til staðar. Kalt rennandi vatn er í eldhúsinu og stórt kolagrill er úti á palli.
Skálavarðahús stendur skammt frá skálanum sem og salernishús með sturtum. Vetrarkamar er í salernishúsinu sjálfu. Nokkurn spöl frá skálaþyrpingunni er hesthús með eldunaraðstöðu og svefnlofti sem hýsir 20 manns. Við hesthúsið eru vatnssalerni og tjaldstæði.
Tjaldstæðið er inni í Hvanngilshrauninu rétt hjá skálanum. Þar er mikið skjól og gott að tjalda ef veður eru válynd.
Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 600 fyrir einstakling eða kr. 1.000 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.
OPNUN OG AÐGENGI
Að sumri til er hægt að aka á jeppum að skálunum eftir Fjallabaksleið syðri (F210) sem liggur frá Keldum á Rangárvöllum, norður fyrir Mýrdalsjökul og til byggða í Skaftártungu. Athugið að sérstaka aðgát þarf að viðhafa þegar ekið er yfir Kaldaklofskvísl sem er óbrúuð og grýtt.
Opnun skálans yfir sumartímann helst í hendur við opnun Vegagerðarinnar á Fjallabaksleið og fer eftir snjóalögum og ástandi vegarins. Í meðalári má ganga út frá því að Hvanngil sé opið frá 25. júní til 17. september.
Skálinn er læstur yfir vetrartímann en hægt er að leigja hann og nálgast lykla með því að senda fyrirspurn á skrifstofu FÍ. Athugið að það er aðeins á færi reynslumikils ferðafólks að ferðast um þessar slóðir að vetri til og ef ætlunin er að ganga þá þarf til þess 5 árstíða útbúnað.
Upplýsingar
- GPS staðsetning: N 63°49.913 – W 019°12.287
- Símanúmer: 499 0675
- Hæð yfir sjávarmáli: 550m
- Næsti skáli: Álftavatn og Botnaskálar í Emstrum
- Aðgengi: Á jeppum
- Skálavörður: Á sumrin