Landmannalaugar
Landmannalaugar marka upphaf eða lok margra skemmtilegra gönguleiða um Friðland að Fjallabaki, meðal annars um Laugaveginn, eina vinsælustu gönguleið landsins.
Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.
AÐSTAÐA
Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum er stór og rúmgóður og þar geta 78 manns sofið. Skálinn er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er anddyri, stórt eldhús þar sem hægt er að setjast niður og borða og stór svefnskáli með kojum. Á efri hæðinni eru þrjú svefnloft með samliggjandi rúmbálkum og eitt lítið herbergi með kojum. Í skálanum er góð eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu og heitu rennandi vatni. Stórt kolagrill er úti á palli.
Skálinn tengist salernishúsi með góðum trépalli. Salernishúsið er stórt og þjónar ekki bara skála- og tjaldgestum svæðisins, heldur líka þeim fjölmörgu daggestum sem heimsækja Landmannalaugar. Sturtur eru í salernishúsinu. Rúmgott skálavarðahús stendur skammt frá.
Myndir úr Landmannalaugum.
Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 600 fyrir einstakling eða kr. 1.000 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.
Í Landmannalaugum hefur um nokkurt skeið verið rekið lítið kaffihús og verslun þar sem hægt er að kaupa helstu nauðsynjar.
Fyrsta sæluhús FÍ í Laugum var reist árið 1951.
OPNUN OG AÐGENGI
Skálinn í Landmannalaugum er opinn flesta mánuði ársins. Vinsamlega hafið samband við skrifstofu til að nálgast frekari upplýsingar.
Að sumri til er hægt að aka á jeppum að skálanum eftir Fjallabaksleið nyrðri (F208) eða Dómadalsleið (F225). Opnun veganna að vori er ákvörðuð af Vegagerðinni og fer eftir snjóalögum og ástandi vega eftir veturinn. Í meðalári má ganga út frá því að hægt sé að komast inn í Landmannalaugar frá 20. júní til 15. september.
Frá 20. júní til 15. september 2024 þurfa gestir sem koma akandi á eigin vegum á milli kl. 8 og 15 að bóka bílastæði fyrirfram og greiða þjónustugjald áður en komið er í Landmannalaugar.
Nánari upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.
Að vetri til þarf sérútbúna bíla eða vélsleða til að heimsækja Landmannalaugar. Mikilvægt er að kanna færið og snjóalög áður en lagt er af stað. Oft liggur krapi í hluta leiðarinnar og eins þarf að gæta að því að aka aðeins þar sem snjór hylur jörðina til að skemma hvorki gróður né mynda för í landslagið.
Það er líka vinsælt að ganga á gönguskíðum inn í Landmannalaugar að vetri til. Athugið að það er aðeins á færi reynslumikils ferðafólks með 5 árstíða útbúnað. Frá Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum er tæplega 30 km gangur inn í Laugar.
Að nokkru leyti er hægt að fylgjast með snjóalögum í Landmannalaugum í gegnum vefmyndavél Landssambands vélsleðamanna. Einnig er hægt að skoða facebook síðu Landmannalauga þar sem skálavörður hverju sinni setur reglulega inn upplýsingar um veður og færð.
NÆSTA NÁGRENNI
Skálinn í Landmannalaugum er staðsettur við brún Laugahrauns, skammt frá heitum uppsprettum sem halda hita á læknum og lauginni sem staðurinn dregur nafn sitt af. Hitinn í læknum getur verið nokkuð ójafn og vert er að gæta allrar varúðar. Leiðin frá skála og í laugina liggur yfir mýri og gestir eru hvattir til að nota trébrýrnar og forðast að ganga í mýrinni. Athugið að það er stranglega bannað að fara með glerflöskur í laugina, nota sápu og skilja eftir rusl.
Landmannalaugar eru hluti af Friðlandi að Fjallabaki og allt umhverfið er rómað fyrir náttúrufegurð og litadýrð. Hægt er að fara í fjöldamargar lengri og skemmri gönguferðir um svæðið og nokkrar þeirra er að finna á þessu gönguleiðakorti af Landmannalaugum og nágrenni.
Ítarlega er fjallað um svæðið, jarðfræði þess og gönguleiðir í Landmannalaugum og í Friðlandinu að Fjallabaki í árbók FÍ 2010.
Upplýsingar
- GPS staðsetning: N 63°59.600 - W 19°03.660
- Símanúmer: 860 3335
- Hæð yfir sjávarmáli: 550m
- Næsti skáli: Hrafntinnusker
- Aðgengi: Á jeppum
- Skálavörður: Á sumrin