Esjan í allri sinni dýrð

Morgunganga á Móskarðahnúk
Morgunganga á Móskarðahnúk

Esjan í allri sinni dýrð

Esjan er bæjarfjall Reykjavíkur og blasir við borgarbúum handan Kollafjarðar. Á undanförnum árum hefur Esjan orðið einn vinsælasti útivistarstaður borgarbúa og nú stunda tugþúsundir fjallgöngur og útivist i fjallinu á hverju ári. Með fjölbreytileika sínum, litbrigðum og síbreytilegri fegurð fangar hún augu og aðdáun borgarbúans. Þrátt fyrir vinsældir fjallsins til útivistar og fagurt yfirbragð er Esjan krefjandi fjall. Í raun voldugur fjallgarður með fjölmörgum krefjandi gönguleiðum. Víða eru uppgönguleiðar hennar varðar með klettabelti. Hæst er Esjan 914 metrar og er því hæsta fjall í nágrenni Reykjavíkur. Vinsældir Esjunar sem útivistarssvæðis hafa farið stöðugt vaxandi undanfarin ár. Það sést meðal annars vel í gestabókum Ferðafélagsins Íslands á Þverfellshorni og við Stein. Um leið hefur slysum í fjallinu fjölgað og Esjan er það fjall á landinu þar sem flest útivistarslys hafa orðið sl. ár. Því er rétt að hafa góðan búnað þegar gengið er á fjallið, ekki síst að vetrarlagi og þarf þá allan búnað til vetrarfjallamennsku. Byrjendur í fjallamennsku ættu frekar að ganga á lægri fjöll en Esjuna, t.d. Úlfarsfell eða Mosfell.

Útsýnisskífa Ferðafélags Íslands á Þverfellshorni. 

Nafn Esjunnar hefur aldrei verið útskýrt svo með góðu móti sé. Fyrstu landnemarnir hafa líklega gefið fjallinu nafn. Esja er þekkt nafn í norsku máli. Samkvæmt landnámu var Örlygur gamli landnámsmaður á Kjalarnesi sá er fyrstur bjó á Esjubergi. Ekki er ólíklegt að hann hafi gefið fjallinu nafn eða þá Helgi Bjóla sem var fyrsti landnámsmaður á Kjalarnesi. Á landsnámstíð kom Esja kerling frá Írlandi og tók við búi af Örlygi landnámsmanni á Esjubergi , líkt og fram kemur í Kjalnesingarsögu. Esja kerling var rík og afgerandi og lét til sín taka og ekki óeðlilegt að ætla að fjallið væri nefnt eftir henni Nafnið Esja er skylt orðinu ysja og haft þá merkingu lausamjallar eða snjófjúks sem oft má sjá í fjallinu að vetri. Tengt þeirri skýringu er til önnur sú að í vissum fannalögum megi lesa nafnið úr snjólínum á einum stað efst í fjallnu en það verður að teljast nokkuð langsótt skýring.

Esjan virðist frá Reykjavík vera langur fjallgarður sem nær frá Hvalfirði að vestanverðu, austur að Skálafelli og drögum Mosfellsheiðar, um 17 km í beinni loftlínu. Hún er þó frekar fjallbálkur, margklofinn af djúpum dölum og myndar í raun mörg fjöll og marga hálsa sem liggja í allar áttir frá Há Esjunni. Há Esjan rís í vestri með Kerhólakambi og endar í austri við Móskarðahnúk þar sem Svínaskarð klýfur fjalllendið frá Skálafelli. Há Esjan er að ofan óreglulegt flatlendi, víðast hvar á bilinu 850 – 900 metrar yfir sjó. Áður var lengi talið að Hátindur sem er 908 metra hár væri hæsti tindur Esjunar eins og nafn hans gefur óbeint til kynna en svo er ekki. Í mælingum hefur komið í ljós að hábungan er hæsti tindur Esjunnar 914 metrar. Fjalllendi Há Esjunnar er að mestu óreglulegt sléttlendi og jarðvegur afar grófur og grýttur. Landslag Há Esjunnar er þó fjölbreytilegt og heillandi á sinn hátt og frá fjallsbrúnum er víða gott útsýni. Eftir að snjóa leysir og töluvert fram á sumar er Há Esjan illfær vegna bleytu og drullu.

Gönguleiðir á Esju

 

Göngufólk velur sér gönguleiðir og fjöll við hæfi. Gaman er að ferðast um landið og þekkja það betur og betur bæði út frá örnefnum, gróðurfari og dýralífi og ekki síður sögu landsins og menningu. Esjan hefur það fram yfir mörg fjöll að hún hefur að geyma margar gönguleiðir. Margir þekkja reyndar kannski aðeins þær vinsælustu. Og sumir þekkja Esjuna Kjósarmegin nánast ekki neitt þrátt fyrir að þar liggi margar góðar gönguleiðir og rísi áhugaverðir tindar.

Aðgengilegasta og mest skipulagða göngusvæðið í Esjunni eru undirhlíðar hennar upp frá Mógilsá og á svæðinu milli Mógilsár og Kollafjarðarár þar sem liggja margir greiðfærir göngustígar. Þar hafa einnig nýlega verið byggðir upp hjólreiðastígar að frumkvæði Skógræktarfélagsins í samstarfi við hjólreiðafélög

Frá bílastæðinu á Mógilsá er gengið á Þverfellshorn, vinsælustu gönguleið Esjunnar sem líklega gæti einnig borið titilinn vinsælasta gönguleið landsins. Þverfellshorn er vesturhluti Þverfells og endar það í hvössu horni vestast, upp af fjallsrana eða hálsi sem sem liggur milli giljadraga Mógilsár og Gljúfurdals. Að austanverðu nær Þverfellið að Gunnlaugsskarði sem er lægð í fjallinu á milli Kistufells og Þverfells.

Aðrar gönguleiðir á Esjuna eru á Kerhólakamb, upp Gunnlaugsskarð, á Kistufell, Hábungu og Hátind, um Laufskörð og á Móskarðahnúka. Þá eru ótaldir Dýjadalstindur og Þórnýjartindur, Trana og Skálatindur. Um Svínaskarð liggur gömul þjóðleið yfir í Kjósina. Kjósarmegin eru nokkrir misstórir dalir sem kljúfa fjallgarðinn; Elífsdalur, Blikdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og Grjótdalur. Þannig skiptist Esjan í ótal mörg göngusvæði þar sem finna má áhugaverðar gönguleiðir og fjölmarga tinda.