Fjöldi verkefna að fara af stað

Nú þegar haustið er framundan fer lífið aftur í fastari skorður eftir sumarið. Við erum reglulega minnt á mikilvægi þess að hlúa að bæði líkamlegu og andlegu heilbrigði og því er ekki úr vegi að koma útivist og hreyfingu inn í rútínuna enda fátt sem jafnast á við heimsókn í náttúruna. Það reynist oft auðveldara ef það er gert með skipulegum hætti, eins og með hópum FÍ. 

Ferðafélagið býður upp á margskonar verkefni þetta haustið og ættu því flest að finna eitthvað við sitt hæfi. Bæði er um að ræða verkefni sem hafa verið áður eins og Alla leið haustgöngur og Næsta skrefið ásamt nýlegu verkefnunum eins og Jóga og göngur og Göngur og gaman. Þá eru ný verkefni að bætast í hópinn sem auka enn á fjölbreytnina eins og verkefnin Hjól og fjall og Núvitund og útivist

Ferðafélagið áréttar að ekkert sé því til fyrirstöðu að fólk taki þátt í verkefnum félagsins enda eru þátttakendur hvattir til að mæta á einkabílum og viðhalda tveggja metra bilinu sem auðvelt er að ná úti við. Að auki sinnir svo hver og einn þeim persónulegu sóttvörnum sem felast í hreinlæti og því að halda sig heima ef einhver einkenni eru til staðar sem gætu verið vísbending um veikindi.

FÍ Núvitund og útivist

Fyrsta verkefnið sem fer af stað þetta haustið er Núvitund og útivist í umsjón Hjalta Björnssonar og Ásdísar Ólsen. Það hefst næstkomandi mánudag og stendur í fjórar vikur. Á þessu námskeiði sláum við tvær flugur í einu höggi og nærum bæði líkama og sál með því að gera núvitundaræfingar í tengslum við náttúru og hreyfingu.

Nánari upplýsingar um Núvitund og útivist

Kynningarfundur verður miðvikudaginn 19. ágúst kl. 18 á Facebook

FÍ Alla leið haustgöngur

Haustgöngur Alla leið hefjast laugardaginn 29. ágúst. Sem fyrr er það í umsjón Hjalta Björnssonar. Alla leið hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og er ætlað göngufólki með reynslu af fjallgöngum. Í þessu haustverkefni verður sjónum að auki sérstaklega beint að norðurljósunum í kvöldgöngunum og í dagsgöngunum verður haustlitunum gerð skil.

Nánari upplýsingar um Alla leið

Kynningarfundur verður þriðjudaginn 25. ágúst kl. 20 á Facebook

FÍ Hjól og fjall

Hjól og fjall hefst laugardaginn 29. ágúst og er í umsjón Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Hjól er afbragðs gott tæki til þess að stunda útivist með nýjum hætti en á hjóli kemst fólk yfir lengri vegalengdir en gangandi og sjá land og náttúru með öðrum augum. Hjól og fjall snýst um að hjóla saman um forvitnilegar slóðir og stíga svo af hjólinu og taka stutta fjallgöngu eða langa eftir atvikum.

Nánari upplýsingar Hjól og fjall

Kynningarfundur verður fimmtudaginn 20. ágúst kl. 20 á Facebook

FÍ Jóga og göngur

Jóga og göngur, í umsjón Edithar Gunnarsdóttur, hefst mánudaginn 31. ágúst. Þetta er hópur fyrir þau sem vilja njóta en ekki þjóta og vilja gera útivist og jóga að lífstíl og læra aðferðir til að draga úr streituviðbrögðum og ná slökun. Engin krafa er gerð um kunnáttu í jóga og núvitund til þess að vera með. Verkefnið er í samstarfi við Hugarsetrið.

Nánari upplýsingar um Jóga og göngur

Kynningarfundur verður mánudaginn 24. ágúst kl. 19 á Facebook

FÍ Göngur og gaman

Göngur og gaman hefur göngu sína á ný miðvikudaginn 2. september. Að þessu sinni beinum við sjónum okkar að Hengilssvæðinu og Hellisheiðinni en þar er er að finna ótal skemmtilegar gönguleiðir. Verkefnið er í umsjón Edithar Gunnarsdóttur og Örlygs Sigurjónssonar og er fyrir fólk sem hefur einhverja reynslu af fjallgöngum og er í meðalgóðu gönguformi. 

Nánari upplýsingar um Göngur og gaman

Kynningarfundur verður mánudaginn 24. ágúst kl. 20:30 á Facebook

FÍ Næsta skrefið

Næsta skrefið, sem er heilsuátaksverkefni líkt og Fyrsta skrefið, hefst fimmtudaginn 10. september. Það er í umsjón Reynis Traustasonar, Ólafs Sveinssonar og Guðrúnar Gunnsteinsdóttur. Verkefnið er ætlað þeim sem vilja koma sér af stað aftur eftir hlé eða hefja heilsurækt á fjöllum. Göngurnar eru sambland af heilsurækt og fræðslu og er gengið á þægilegum hraða við allra hæfi. 

Nánari upplýsingar um Næsta skrefið

Kynningarfundur verður fimmtudaginn 27. ágúst kl. 20 á Facebook