Börn og búnaður

Það getur stundum verið erfitt að átta sig á því hvort börnum er kalt, of heitt eða eru vot. Börn þola minni kulda en fullorðnir en verður aftur á móti fljótt heitt þegar þau hreyfa sig. Því er mikilvægt að fylgjast vel með líðan þeirra og taka ekki einungis mið af því hvernig manni sjálfum líður.

Það þarf líka að fylgja því eftir að þau klæði sig úr og í eftir því sem veðrið breytist á meðan á ferðinni stendur. Athugið að vatn leiðir kulda þrisvar sinnum meira en loft og því er nauðsynlegt að halda sér þurrum til þess að koma í veg fyrir að manni verði kalt.

Undirföt

Best er að hafa ull innst við líkamann, t.d. þunnan ullarbol og þunna ullarsokka. Það er líka gott að láta börnin nota síðar ullarbuxur þegar þau eru á ferðalagi og slíkar buxur eru t.d. fínar göngubuxur. Hægt er að fá ullarföt sem ekki klæjar undan og má þvo í þvottavél.

Millilag

Auka flís- eða ullarpeysa í bakpokanum er nauðsynleg ef maður situr kyrr lengi. Að öðru leyti er betra að klæða sig í fleiri þunn lög heldur en eitt þykkt. Loft milli fatalaganna heldur hita og það er miklu auðveldara að stjórna líkamshitanum með því að geta farið úr og í mismunandi flíkur.

Ytri föt

Vind- og vatnsþétt föt, regngalli eða kuldagalli, gjarnan með hettu, eiga alltaf að vera með í för. Þetta gildir bæði vetur sem sumar. Mjög þykkir og hlýir gallar henta hins vegar oft illa, bæði til göngu og skíðaiðkunar. Vindþéttur regnfatnaður eins og jakki og buxur eru betri og barnið getur þá stjórnað hitanum með því að bæta við eða fjarlægja þynnri lög undir jakkanum. Hlýir sokkar og hanskar eru nauðsynlegir ef vera á lengi úti í snjó. Fötin eiga að vera þægileg þó að þau verði blaut.

Skór

Hægt er að kaupa vandaða og góða gönguskó á börn. Það er þó ekki alltaf nauðsynlegt að fjárfesta í dýrum skóm. Góðir íþróttaskór, uppháir kuldaskór eða jafnvel stígvél geta vel dugað í styttri göngum, allt eftir veðri. Gott er að hafa skó til skiptanna í náttstað og inniskó ef dvalið er í skála.