Ferðafélag Íslands innleiddi gæðaviðmið Vakans í sitt starf árið 2017 og varð þá þátttakandi í Vakanum. Í úttekt Vakans á starfi FÍ var niðurstaðan sú að 94,2% af almennu gæðaviðmiðunum eru uppfyllt. Ennfremur 100% af þeim sértæku viðmiðum sem við eiga og bronsmerki í umhverfishluta. Síðan þá hefur félagið farið í reglubundna úttekt á starfinu og gæðaviðmiðum og nýlega lauk einni slíkri úttekt og gekk mjög vel. FÍ stefnir að gullvottun í umhverfishlutanum.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að það sé mikilvægur áfangi að félagið uppfylli gæðaviðmið Vakans. ,,Vakinn er frábært tæki til að hjálpa okkur til að auka gæðin í starfi félagsins. Þetta hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt ferli að aðlaga það sem var fyrir hendi í 90 ára starfi félagsins að Vakanum. Í fyrstu árbók félagsins 1928 voru forystumenn félagsins þegar farnir að leggja línurnar um að bera virðingu fyrir náttúrunni, góðri umgengni ferðamanna, réttan búnað, öryggismál, fyrstu hjálp ofl. þannig að má segja þessar áherslur allt frá stofnun félagsins falli vel að markmiðum og áherslum Vakans. "
Ferðafélag Íslands fagnar 100 ára afmæli félagsins árið 2027 og er afmælisnefnd að störfum og mun leita til félagsmanna um hugmyndir að viðburðum og verkefnum á afmælisári. Á þeim 98 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins hafa verið farnar meira en 5.000 ferðir með yfir 350.000 þátttakendum, byggðir 40 fjallaskálar, reistar yfir 60 göngubrýr, lagðir hundruðir km af gönguleiðum og gefnar út 97 árbækur. Félagsmenn nú eru um 9.000 en stofnfélagarnir fyrir réttum 90 árum voru 63 talsins.
Í fararstjórahópi félagsins eru félagsmenn úr öllum áttum, m.a. úr röðum fræðimanna innan háskólasamfélagsins, heimamanna sem gjörþekkja hvern stein á sínu svæði og úr hópi áhugamanna sem hafa aflað sér mikillar reynslu og þekkingar. Ferðafélagið er áhugamannafélag og hefur óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf félagsmanna um áratugaskeið gert starfsemi þess mögulega.
Ferðafélagið var stofnað 27. nóvember 1927 í Kaupþingssalnum á efstu hæð Eimskipafélagshússins við Pósthússtræti. Í ávarpi til almennings vegna stofnfundarins sagði m.a.: „Á síðari árum hefur mjög aukist áhugi manna um að ferðast hér um og kynnast óbyggðum landsins og öðrum lítt kunnum landshlutum. Áhugi hefur einnig vaknað fyrir því að kynna landið erlendum þjóðum, náttúru þess, sögu og þjóðhætti. Hefur mönnum fyrir löngu ljóst orðið að fáfræði erlendra þjóða um hagi vora er oss til hinnar mestu óþurftar á ýmsan hátt, og mundi oss á ýmsan veg reynast stórhagur að aukinni þekkingu á landi voru erlendis.“
Allar götur frá stofnfundinum hefur félagið sinnt þeim tilgangi sínum að greiða götu ferðamanna á Íslandi og hvetja landsmenn til að ferðast um Ísland, Þetta gerir félagið meðal annars með skipulagningu fjölbreyttra ferða ásamt uppbyggingu og rekstri fjallaskála víða um land. Jafnframt með viðamiklu útgáfustarfi, merkingu gönguleiða og upplýsingagjöf. Auk fjölbreyttra ferða er margs konar félagslíf innan vébanda FÍ, svo sem myndakvöld, námskeið og þemaferðir af ýmsu tagi. Á síðustu árum hafa gönguhópar , lýðheilsu- og hreyfiverkefni, Ferðafélag barnanna og FÍ Eldri og heldri notið mikilla vinsælda.