Ferðafélag Íslands býður fjölbreytta gönguhópa og ævintýri í náttúrunni
Ferðafélag Íslands býður upp á fjölmarga gönguhópa sem leggja áherslu á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og einstakan félagsskap. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar í góðum hópi, efla líkamlega og andlega vellíðan og kynnast nýju fólki.
Gönguhópar með áherslu á náttúruupplifun og öryggi
Markmið gönguhópanna er að bjóða upp á fjölbreytta útivist og náttúruupplifun þar sem gleði og góður félagsskapur eru í fyrirrúmi. Auk þess er lögð sérstök áhersla á fræðslu um náttúru landsins og öryggi á fjöllum, sem er eitt af lykilatriðum í ferðum Ferðafélagsins.
FÍ Alla leið – Undirbúningur fyrir krefjandi jöklagöngur með stígandi þjálfun, fræðslu og leiðsögn. Fyrir göngufólk sem sækist eftir áskorunum, þjálfun og kennslu í fjallamennsku. Kynningarfundur verður haldinn 7.janúar 2026. ATH: Hægt er að kaupa sig inn í báða gönguhópana FÍ vor og FÍ haust á sérstöku tilboðsverði til 31.janúar
FÍ Þrautseigur – Fyrir þá sem vilja ganga reglulega 2x í mánuði. Dagskráin samanstendur af léttum til erfiðum göngum úr FÍ Léttfeta og Fótfráum, alls 20 dagsferðum og tveimur helgarferðum. Kynningarfundur verður haldinn 8.janúar 2026.
FÍ Léttfeti – Léttar til miðlungs erfiðar göngur allt árið. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð. Göngurnar henta fólki í þokkalegu gönguformi. Kynningarfundur verður haldinn 8.janúar 2026.
FÍ Fótfrár – Miðlungs og erfiðar göngur, 10 dagsferðir og ein helgarferð. Hentar fólki í góðu gönguformi sem sækist eftir meiri áskorunum.
FÍ Kvennakraftur – Hópur fyrir konur sem vilja ganga í skemmtilegum félagsskap. Léttar göngur á höfuðborgarsvæðinu, helgarferðir og heilsurækt í bland við náttúruupplifun. Kynningarfundur verður haldinn 13.janúar 2026.
FÍ Tifað á tinda – Rólegar og auðveldar göngur fyrir byrjendur eða þá sem vilja byrja aftur eftir hlé. Göngur eru 3–5 klst. og lögð áhersla á hæggöngu og hópefli. Kynningarfundur verður haldinn 5.janúar 2026.
FÍ Byrjum saman - Gönguhópurinn er ætlaður öllum sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivist eða vilja hefja leik að nýju eftir hlé. Lögð er áhersla á vellíðan þátttakenda, að njóta náttúrunnar og finna þá tengingu við hana sem er grunnur að útivist sem lífsstíl. Kynningarfundur verður haldinn 6.janúar 2026.
FÍ Þjóðleiðir – Göngur eftir þjóðleiðum landsins, þar sem saga og náttúra fléttast saman. Gengið er mánaðarlega, með helgarferð á Kjalveg 14. ágúst. Kynningarfundur verður haldinn 12. janúar 2026.