Vefmiðillinn Guardian telur að Laugavegurinn sé einn af bestu áfangastöðum í Evrópu fyrir þá sem þrá ævintýri og upplifun í stórbrotinni náttúru landsins.
Laugavegurinn er 55 kílómetra löng gönguleið og gist í fjallaskálum á leiðinni á milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Í umfjöllun Guardian segir að; ,,Laugavegurinn er eins konar örmynd af landslagi þessa ótrúlega lands. Jarðhitalindir, snjóbreiður í mikilli hæð, marglit líparítfjöll, svartar sandeyðimerkur og framandi tunglsmyndir. Að lokum, töfrandi dalurinn Þórsmörk, Þórsdalur, umkringdur birkiskógi umkringdur þremur jöklum. Að gista í fjallaskálum þýðir að þú munt finna fyrir því að vera hluti af fjölmenningarlegu, alþjóðlegu samfélagi ferðalanga, með þeirri hlýju og félagsskap sem því fylgir, með sögum sem skipst er á og minningum sem skapast.“
Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu Laugavegarins upp úr 1970 og var fyrsta ferðin farin 1978. Uppbygging leiðarinnar fólst meðal annars í því að byggðir voru fjallaskálar, leiðin stikuð og merkt, gefnar út leiðarlýsingar, kort og bækur, byggðar brýr og unnið að viðhaldi leiðarinnar.
Ferðafélag Íslands hefur lagt til að tekin verði upp einstefna á leiðinni á háannatíma í júlí og ágúst, frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk, líkt og yfir 80% göngufólks gerir nú þegar og einnig hefur FÍ lagt til við Umhverfisstofnun ( nú Náttúruverndarstofnun ) að tekin verði upp ítala, þeas hármarksfjöldi göngufólks á hverjum degi og hefur sú tillaga verið til skoðunar. FÍ hefur hafið vinnu við innleiðingu sjálfbærnistefnu á leiðinni og verður sú vinna kynnt fyrir öllum sem málið varðar á næstu misserum. FÍ leggur mikla áherslu á að halda í fjallarómantíkina og aðstaða og þjónusta sé með einföldum hætti út frá fjallaskálastemmingu. Mikilvægast af öllu sé að náttúran njóti vafans í öllum samskiptum manns og náttúru.
Laugavegurinn hefur í gengum tíðina hlotið margvíslegar viðurkenningar og er á m.a. á lista National Geographic sem ein af fallegustu og bestu gönguleiðum í heimi.