„Þvílíkt útýni. Að standa hérna á Geirólfsgnúpi minnir okkur hreinlega á hvers vegna Ferðafélag Íslands varð til. FÍ var alltaf ætlað að leiða okkur að mögnuðum stöðum eins og þessum og samtímis því að varða leiðina að okkur sjálfum.”
Svona talaði Ólöf Kristín Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands, á efstu brún Geirólfsgnúps á Ströndum í sumar. Og það er auðvelt að vera innblásinn af landinu þegar maður hefur allan heiminn fyrir augunum eins og á Geirólfgnúpi eða því sem næst.
Frá efstu brún hans blasa Strandirnar við til suðurs með Drangaskörð sem einskonar perlur í langri festi og svo til norðurs eru Hornstrandir með Kálfatinda sem hæst rísa og kalla yfir sig örlítinn þokuhnoðra, svona bara rétt til að kæla efstu eggina í sumarsólinni.
„Hugsaðu þér,” segir Ólöf við þann sem þetta skrifar, “…hér stöndum við á tindi eins magnaðasta fjalls á Ströndum með þeim sem er elstur í göngunni, á nítugasta aldursári, og þeim yngsta sem er tíu ára. Á milli þeirra eru átta áratugir – en í hjartanu eru þeir nákvæmlega eins. Þeir elska landið og njóta þess að upplifa það saman.“
Svo settist hópurinn niður undir vörðunni á toppnum til að gæða sér á nesti með útsýni sem fá fjöll ef nokkur geta jafnað.
„Að brúa kynslóðabilið er hlutverk Ferðafélagsins enda er það eitt af því dýrmætasta sem gerist þegar við göngum saman í óbyggðum eins og núna — náttúran og fjöllin sameina fólk á öllum aldri.“

Félag sem hefur mótað land og líf í hartnær hundrað ár
Þetta var í sumar þegar Ólöf og fjölskylda hennar héldu sig nær alfarið á Ströndum: í Norðurfirði, í óðali FÍ á Valgeirstöðum, og í Reykjarfirði þar sem kríurnar vita vel að þær eru rétthærri manninum og gefa honum langt nef — og stundum hvassan gogg.
Núna, þegar jólin nálgast, setjumst við Ólöf niður í Mörkinni í Reykjavík við allt aðrar aðstæður. Þótt jörðin sé snjólaus er ljóst að veturinn hefur náð tangarhaldi á okkur sem byggjum þetta land.
Það er eitthvað yfirvegað í fasi forsetans þegar hún talar um Ferðafélag Íslands í myrkasta skammdeginu. Hún sér félagið ekki aðeins út frá brýnum verkefnum dagsins, heldur líka í ljósi sögunnar — alls þess sem hefur áunnist á hartnær hundrað árum. Félagið verður 99 ára á næsta ári.
„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að félag sem hóf starfsemi á grunni framtíðarsýnar hjá smáum hópi hugsjónafólks skuli brátt verða hundrað ára — og samt hefur þetta rótgróna félag taktfastan hjartslátt upprunans, sem einkennist af ástríðu fyrir landinu, náttúrunni og lýðheilsunni.“
Hún virðist sjá fyrir sér fyrstu fundina, fyrstu göngurnar, fyrstu skálana — reista af fólki sem byggði ekki bara fyrir sig, heldur fyrir okkur sem nú lifum og þau sem á eftir koma.
„Það má segja að saga félagsins sé í raun saga þess hvernig þjóð byggir upp og þróar samband sitt við landið,“ bætir hún við.
„FÍ hefur í tæp hundrað ár verið brú milli okkar og náttúrunnar — félagið hefur, í orðsins fyllstu merkingu, brúað ár og varðað leiðir sem við hefðum líklega annars ekki átt kost á að fara.“
Ólöf segir að það sem hafi áunnist á þessum áratugum sé ekki mælt í peningum, tölum eða tilkynningum. Það sé mælt í öryggi, samstöðu og þeim tækifærum sem starfið hafi skapað.
„Gönguleiðirnar, merkingarnar, allar óteljandi stikurnar og skálarnir — þetta hefur oft orðið til í kyrrþey, því félagið er ekki alltaf að flagga því sem er gert, og það er gjarnan unnið í þrotlausri sjálfboðavinnu. En þetta er svo miklu meira en framkvæmdirnar sjálfar,“ segir hún.
„Þetta hefur opnað okkur öllum tækifæri til að sjá landið okkar þar sem hjarta þess slær.“

Skálarnir – heimilin í óbyggðum
Allir skálar Ferðafélagsins — og líka húsið góða á Valgeirsstöðum og reisulega steinhúsið á Hornbjargsvita — berast fljótt í tal.
„Skálarnir eru eins konar útverðir félagsins,“ segir forsetinn. „Þeir veita ekki bara skjól, heldur eru líka samverustaðir og tákn um hvernig hægt er að opna svæði í óbyggðum sem áður voru flestum lokuð. En þótt við eigum kost á að ferðast á slíka staði vegna skálanna og allra stikanna sem FÍ hefur lagt, þá ber okkur alltaf að umgangast landið af ábyrgð og virðingu.“
Ólöf segir að fátt hafi mótað ferðavenjur Íslendinga jafn mikið og skálar FÍ: „Þeir hafa kennt heilu kynslóðunum að ganga um landið með virðingu fyrir öllu sem fyrir augu ber. Hugsið ykkur til dæmis hversu miklu Laugavegurinn hefur breytt með stikunum og skálunum. Hann er svolítið eins og þjóðvegur íslenskra göngumanna, leið sem hefur fylgt fólki í áratugi og leitt suma fyrstu skrefin yfir á aðrar leiðir okkar hjá FÍ. Á Laugaveginum mætist erlent göngufólk og íslenskt, og einhvern veginn tala allir sama tungumálið á fjöllum, sama hvaðan þeir koma.“
Nýtt gönguár komið á kortið – tími til að reima á sig skóna
Í dag er loksins stóri dagurinn hjá Ferðafélaginu — glæný ferðaáætlun Ferðafélags Íslands hefur litið dagsins ljós og er nú öllum opin á heimasíðu félagsins. Eins og alltaf fylgir útgáfunni ákveðinn hátíðarbragur; við höfum fundið eftirvæntinguna í loftinu og heimsóknir á vefinn hafa snaraukist síðustu daga, eins og fólk sé að kanna hvort við höfum óvart þjófstartað. En nei — við vildum fínpússa allt áður en það yrði frumsýnt.
„Árið í ár er engin undantekning frá fyrri árum og er ferðaáætlunin troðfull af alls kyns ævintýrum,“ segir forsetinn. „Hér eru allt frá þægilegum kvöldgöngum yfir í krefjandi háfjallaferðir. Það ættu því allir að finna eitthvað sem kallar á þá — hvort sem fólk er að taka sín fyrstu skref eða er með tvær Laugavegsgöngur og eitt lítið Hornbjarg í bakpokanum,“ segir Ólöf og hlær.
Áætlunin er áfram alfarið stafræn, sem gerir öllum allt bæði einfalt og aðgengilegt. Allt sem þarf er að skrá sig inn — og drífa sig út.
„Það er alltaf ánægjulegt að kynna nýjar ferðir,“ bætir forsetinn við, „en ekki síður að sjá hvernig klassísku leiðirnar halda velli — og meira en það. Laugavegurinn, Hornstrandir og aðrir gamlir dýrgripir eru þarna á sínum stað og halda áfram að laða til sín nýjar kynslóðir og heilla þær eldri. Þannig brúar Ferðafélagið bil milli þess sem hefur sannað sig og þess sem við erum enn að uppgötva.“
Nú er því tilvalið að lesa vel, leita að gullkornum og perlum, reima á sig gönguskóna og fara að huga að næstu skrefum — því eins og allir sem þekkja til Ferðafélagsins vita, þá er líka nóg um að vera yfir veturinn þar sem m.a. fjölmargir gönguhópar eru starfandi.

Ábyrgðin er okkar
Kaffifantarnir okkar Ólafar eru bráðum tæmdir þegar hún þagnar og horfir út um gluggann — ekki endilega til að líta fram á veginn, heldur á jólaljósin sem lyfta okkur upp í skammdeginu.
„Við erum á tímamótum á margan hátt,“ segir hún. „Jól og áramót eru handan við hornið og svo nýtt ferðasumar, bygging nýs Skagfjörðsskála og svo aldarafmæli Ferðafélagsins. Okkar verkefni er að tryggja að landið verði áfram óspillt, aðgengilegt og öruggt til ferðalaga — ekki síst um óbyggðir og víðerni. Það er helgasta skylda okkar að fara vel með landið og tryggja öryggi.“
Hún brosir lítið eitt, eins og hún rifji upp eitthvað frá liðnu sumri. „Ég fann þetta sérstaklega í sumar þegar við maðurinn minn vorum með drengjunum okkar norður á Ströndum. Það var eins og þeir lærðu annað tungumál þarna fyrir vestan — eða segir maður fyrir norðan? Það var svo frábært að hjóla og ganga, tala saman í fjörunni fyrir neðan húsið okkar í Ferðafélaginu að Valgeirsstöðum í Norðurfirði — en svo var líka bara ótrúlegt að þegja saman og hlusta á fuglana.“
Ólöf þagnar andartak, eins og senurnar úr fjörunni á Ströndum og fjöllunum allt í kring séu áfram á breiðtjaldinu í huganum. En svo er það samt framtíðin sem er fremst á tungunni.
„Næstu ár snúast um ábyrgð,“ segir Ólöf. „FÍ hefur lengi hjálpað fólki að ferðast um landið. Við þurfum líka að halda áfram að hjálpa hvert öðru að vernda það — land sem við eigum í raun ekki, heldur höfum tekið að láni frá þeim sem eru enn ófæddir.“