Ótrúlega fjölbreyttar ferðir í nýrri áætlun

Í Kverkfjöllum
Í Kverkfjöllum

Tómas Guðbjartsson um nýja ferðaáætlun FÍ

 

Ferðafélag Íslands verður 99 ára á næsta ári og ferðirnar í boði þessa rótgróna félags eldast býsna vel eins og félagið sjálft. Það er óvenjumikil gróska í starfi FÍ þessa dagana og fáir sjá breytingarnar jafnskýrt og Tómas Guðbjartsson — landsfrægur hjartaskurðlæknir, prófessor, náttúrverndarsinni og margreyndur fararstjóri félagsins. Ástæðan er sú að hann er formaður ferðanefndar FÍ sem stendur að framboði hvers ferðaárs og það er ekki lítið sem hún hefur úr að moða.

Tómas segir að glæný Ferðaáætlun FÍ hafi sjaldan vakið jafn mikla eftirvæntingu og nú, enda sé áhuginn á göngum og skipulögðum ferðum um íslenska náttúru að aukast og breytast samhliða því. Yngra fólk sýni æ meiri áhuga á landinu og því að ganga um framandi slóðir undir öruggri leiðsögn.

„Já, það sem gleður mig einna mest er einmitt hversu margt ungt fólk mætir til leiks,“ segir Tómas. „Fólk vill hreyfa sig, kynnast náttúrunni og hitta annað fólk. Gangan verður því bæði ferðalag, en líka lítið og skemmtilegt samfélag.“

Að Tómasar sögn er ekki létt verk að setja saman svona Ferðaáætlun og að verkinu komi fjölmargir aðilar, ekki síst starfsfólk á skrifstofu FÍ en líka aðilar í ferðanefnd félagsins og svo auðvitað fararstjórar líka.

„Margir fararstjórar senda inn tillögur að nýjum ferðum og síðan er það ferðanefndar að velja út bestu tillögurnar og þannig að þær passi inn í prógramið en séu jafnfram sem víðast á landinu, og erfiðleikastigið mismunandi.“

 

Ferðaáætlun 2026

Sagan og nýjar sögulegar göngur

Ásókn ungs fólks í ferðir er aðeins hluti sögunnar. Jafnstór þáttur er vaxandi áhugi á fróðleik, menningu og sögum sem bundnar eru landslaginu og stöðunum sem gengið er um. Fararstjórar sem búa yfir þekkingu á sögu og landi, og hafa frásagnargáfu að auki, hafa fengið aukið pláss í Ferðaáætluninni, enda njóta göngur með menningarlegu ívafi sífellt meiri vinsælda.

„Við erum mjög stolt af breiðum hópi fararstjóra sem koma úr ólíkum áttum; þeir eru fræðimenn úr háskólasamfélaginu, heimamenn og eða ferðafélagar sem öðlast hafa mikla reynsu af ferðum sínum um landið, en öll eiga þau það sameiginlegt að elska náttúru landsins og njóta þess að miðla að þekkingu sinni og reynslu. Breiður hópur fararstjóra félagsins, bæði konur og karlar, gera félaginu það kleift að bjóða svona fjölbreytta áætlun með miklu úrvali ferða.“

Tómas bætir því við að reynsla fararstjóra sé einn helsti styrkur félagsins. „Fararstjórar FÍ þekkja sín svæði eins og lófann á sér. Öryggið kemur til af ást á landinu, ástríðu fyrir að fræða samerðafólk sitt og áratuga reynslu þar sem þekking á staðháttum, kortum og GPS-ferlum kemur sér vel.“

 

 

Bókmenntaferðir og örgöngur

Þegar Tómas er beðinn um að nefna dæmi um ferðir vandast málið því úrvalið er svo mikið. Hann nefnir þó sívinsælar ferðir Sigrúnar Valbergsdóttur sem er mörgum að góðu kunn fyrir starf í þágu félagsins en hún var um hríð forseti þess.

„Sigrún er enn á fullu og er með virkustu og vinsælustu fararstjórum FÍ frá upphafi,“ segir Tómas. „Það er eitthvað við það að ganga með manneskju sem þekkir fortíðina svo vel að hún getur nánast teiknað upp atburðarás í huganum á þér þannig að það er eins og maður hefði sjálfur verið á staðnum.“

Bókmenntirnar hafa einnig fengið sinn verðskuldaða sess í nýju áætlunninni. Tómas og Gísli Már Gíslason, prófessor við HÍ, leiða í ár einstaka ferð að Sjöundá á Rauðasandi, þar sem tveir hæstaréttardómarar rekja réttarhöldin frægu sem urðu undirstaða Svartfugls, skáldsögu Gunnars Gunnarssonar.

Síðar á árinu mun svo röð svokallaðra örganga líta dagsins ljós, þar sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson, Alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri og rithöfundarnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Andri Snær Magnússon leiða dagsgöngur þar sem náttúra, saga og bókmenntir fléttast saman.

„Ég er viss um að þessar öröngur eiga eftir að slá í gegn, líkt og síðasliðið haust,“ segir Tómas.

 

Útsýni yfir Arnarfjörð af Kaldabak

 

Aukið framboð — en FÍ stendur með reynslunni

Þótt fleiri aðilar bjóði upp á ferðir en áður, lítur Tómas á það sem jákvæða þróun fremur en samkeppni. Ferðafélag Íslands er ekki rekið með hagnað í huga heldur vill það fyrst og síðast hvetja fólk til að kynnast Íslandi á skipulagðan, öruggan og vistvænan hátt. Ennfremur vill það styðja við útivist og náttúruupplifun, auka þekkingu og stuðla að góðri umgengni í náttúru landsins — og þannig gera ferðalög að jákvæðri reynslu fyrir alla.

„Við bara fögnum því að sem flestir kynni fólki leyndardóma íslenskar náttúru. Markmiðið með ferðum okkar að höfða til sem flestra. Um leið og við setjum öryggið á oddinn viljum við geta stillt verði ferðanna í hóf og þannig gert fjölskyldum og námsfólki kleift að koma saman í ferðir.“

 

 

Hefðir, nýjungar og ferðir framtíðarinnar

Ferðaáætlun FÍ er flókin samsetning af rótgróinni hefð og nýju landslagi, kannski einhverju sem fáir hafa séð. Sum svæði eru óhreyfanleg og verða alltaf í áætluninni, eins og Hornstrandir, Hvannadalshnjúkur, Eyjafjallajökull, Laugavegurinn, Græni hryggur og Víknaslóðir.

„Þessar ferðir eru eins og klassísk tónverk,“ segir Tómas. „Þær virka alltaf og ef þær hyrfu úr áætlunni yrði það eins og tónlist FÍ hefði þagnað.“

Tommi beinir talinu að Hornströndum þar sem sögumaðurinn Jón Örn Guðbjartsson verður með skemmtilegar ferðir þar sem fróðleikurinn verður í háskerpu, bæði í Aðalvík og á Hesteyri. Hann verður líka með sögulega ferð í Grunnavík. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er sömuleiðis fróðari en flestir á Vestfjörðum og mun leiða göngu við rætur Drangajökuls. Svo er það auðvitað Hornsbjargsviti með öllu sínum undrum – en Reynir Traustason, fararstjóri og skálavörður að

Valgeirsstöðum í Norðurfirði, verður þar með ferðir en hann gaf nýlega út fróðlega bók um Fólkið í vitanum. Hún er ómissandi lestur áður en lagt í ferð um Hornstrandir, en mun örugglega dúkka líka upp á kvöldvökum í vitanum.

Síðan eru ný svæði sífellt að koma sterkar inn, segir Tommi. Þar má t.d. nefna Demantaferðina hans og Salome Hallfreðsdóttur að Fjallabaki, þar sem Efri- og Neðri-Ljósafossar verða sem fyrr í öndvegi, en þótt aðkoma að þeim sé ekki einföld þá eru þeir tvímælalaust á meðal helstu náttúrudjásna Íslands að Tómasar sögn, og þótt víðar væri leitað.

Hann bætir við með mikilli ástríðu í röddinni: „Ég held að ferðir að Efri-Ljósárfossum verði innan örfárra ára næsti Grænihryggur. Svæðið er stórkostlegt — og enn afskekktara.“

Þau sem ekki eru sannfærð – ættu bara að skrá sig til leiks og upplifa þetta undur.

Tómas nefnir ennig ferðina Konfektmola Arnarfjarðar, lítt þekkt svæði sem hann talar um með einstakri auðmýkt, enda á hann þar sitt annað heimili. Arnarfjörðurinn er jú einhver fallegasti fjörður Vestfjarðakjálkans, en þar fæddist Jón Sigurðsson forseti að Hrafnseyri árið 1844 og við hann stenda Dynjandi, Bíldudalur og loks hæsti tindur Vestfjarða, Kalbakur sem er 999 metra hár. „En ef staðið er á vörðu hans á efstu má teygja sig yfir kílómetrann,” segir Tómas og brosir.

Þess má geta að Dýrfirðingar vilja meina að Kaldbakur tilheyri reyndar þeirra firði enda óvenju fallegur séður úr Haukadal, en auðvitað deila Arnfirðingar og Dýrfirðingar þessu rómaða fjalli.

Tommi segir að líka sé boðið upp á krefjandi fjallaskíðaferðir á Hvannadalshnjúk og á Rótarfjallshnjúk en líka í fyrsta sinn á Tindfjöll.

 

Á Kverkjökli

 

Skálar FÍ undirstaða margra vinsælustu gönguleiðanna

Það skiptir miklu máli að hafa skála, og þeir eru mjög mikilvægir fyrir uppbyggingu gönguleiða og forsenda þess að svo margir ná að stunda fjallamennsku í óbyggðum. Langflestar gönguleðir sem njóta hylli eru þar sem fjallakálar hafa verið byggðir upp. Þeir eru þannig lykilinnviðir á hálendinu í óbyggðum. Eins skipta þeir mikla máli fyrir þau sem eru að byrja í fjallamennsku og ekki vön að sofa í tjaldi í óbyggðum. Einnig eru þeir ómetanlegir í vetrarferðum

Tómas segir að kröfur ferðamannsins séu stöðugt að aukast. Þannig hafi FÍ brugðist við með því að auka þjónustu og bæta aðstöðu í skálum félagsins, t.d. með nýjum salernishúsum og sölu á nauðsynjavarningi en um leið eru áherslur félagsins að halda í fjallarómantíkina með lágstemmdri uppbyggingu fjallaskála.

„Nýr Skagfjörðsskáli verður t.d. með stærri og betri matsal, stærra anddyri, betra eldhúsi og kæligeymsu sem og salernum innanhúss.”

 

Kjarninn óbreyttur í ferðum þrátt fyrir öra tækniþróun

Þrátt fyrir tækni, betri búnað og stafræn kort, segir Tómas kjarna ferðanna óbreyttan í nýju Ferðaáætluninni. „Gönguferðir FÍ eru í grunninn þær sömu og fyrir hálfri öld. Það segir allt um gildi þeirra. Þær eldast ótrúlega vel.“

Hann hefur þó náð að krydda sínar ferðir með nýjum áherslum með gítarleik aðstoðarfarstjóra og söng í lok dags og á kvöldvökum með órjúfanlegri stemmningu, en einnig jóga á einstökum stöðum eins og í Hvannalindum og Efri-Hveradal.

„Fólk er ekki bara að leita að göngu — það er einnig að leita að upplifun.“

 

Alltaf hlýtt andrúmsloft, líka þegar það er kalt úti

Tómas hefur nú starfað með FÍ í rúman áratug og segir félagið með sínum stærstu gleðigjöfum.

„Ég sé enga ástæðu til að hætta, mér finnst ég bara vera að byrja. Þetta er með því skemmtilegasta sem ég geri. Og stjórn félagsins — hún er frábær. Það er alltaf hlýtt andrúmsloft, líka þegar það er kalt úti.“

Í ár leiðir Tómas fjölda ólíkra ferða: krefjandi fjallaskíðaferð á Hnjúkinn, Rótarfjallshnjúk og Tindfjöll; rómaðar ferðir um konfektmola Arnarfjarðar; og sín sérstöku leiksvæði eins og hann kallar þau Herðubreið og Kverkfjöll. Þetta eru staðir sem Tómas hefur heimsótt óteljandi sinnum, þar af tind Herðubreiðar þrjátíu sinnum.

„Ég ætlaði að hætta þarna í fyrra,“ segir hann. „En komst allt í einu að því að það var bara tímabundið.“ Fólk hafði samband og vildi komast á Herðubreið og í Kverkfjöll. Við hlustuðum á það. Í beinu framhaldi verðum við Salóme Hallfreðsdóttir síðan aðstoðarfararstjórar hjá einum af nýju fararstjórum félagins, Eggerti Guðmundssyni; í Sönghofsdal við ármót Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Þetta er einn afskekktasti staður landsins og um leið stórkostlegt að upplifa hann á miðju hálendinu.“

Tommi gengur með Salóme Hallfreðsdóttur í flestum sínum ferðum, sem er með öryggið að leiðarljósi eins og hann sjálfur. Svo ætlar hann að taka þátt í örgöngum næsta haust og fer með Gísla Má Gíslasyni í áðurenefnda ferð að Sjöundá og tekur þá hörðustu göngumennina upp og niður hið magnaða Stálfjall.

Þegar talið berst að Arnarfirði og Ketildölum ljómar Tómas eins og lampinn á skurðstofunni sem hann þekkir reyndar betur en flestir.

„Þarna á ég ættir mínar allar. Ég þekki alla — og allir þekkja mig. Ég kalla þau frændur og frænkur, hvort sem þau eru það eða ekki.“

Tómas brosir þegar hann bætir við:

„Ég segi stundum að annað hvort séu öll þarna ættingjar mínir… eða að ég hafi gert á þeim aðgerð — nema hvort tveggja sé. Þarna er ég ekki lengur SAS — sérfræðingur að sunnan. Þarna er ég bara heimamaður.“

 

Á tindi Herðubreiðar í 1682m hæð