Ferðafélag barnanna fór í sína árlegu vetrarferð um síðustu helgi þar sem tekið var forskot á jólasæluna og rykinu dustað af jólalögunum og föndurdótinu.
Í þetta sinn var ferðinni heitið inn í Landmannalaugar og staðurinn tók á móti barnaskaranum með því að setja upp sitt fegursta vetrarskraut og toppaði svo herlegheitin með risatungli og norðurljósum.
Hópurinn taldi alls 11 fjölskyldur, 23 börn og 19 fullorðna og hafði í nógu að snúast. Gengin var 6 km hringur um Laugahraunið og Grænagil, farið var í bað í heitu lauginni, skálinn skreyttur með músastigum og föndri, sungið og sprellað á kvöldvöku, farið í ljósagöngu með blys, hlaupið um í útileikjum og hoppað í kjojunum.
Þessar ferðir hafa hefðbundið verið farnar inn í Langadal í Þórsmörk en nú brá svo við að þangað var ófært. Úrhelli síðustu vikna hefur leikið veginn inn í Þórsmörk grátt og Krossá hefur breitt svo vel úr sér að illfært er orðið nema fyrir sérútbúna bíla bæði inn í Langadal og Bása.
Til allrar lukku var hins vegar fært inn í Landmannalaugar sem er þó afar óvenjulegt á þessum árstíma. Ekki mátti tæpara standa því snjó hefur kyngt niður frá því um helgi og því er að öllum líkindum orðið ófært inn í Landmannalaugar núna.
Hér má skoða fleiri myndir úr þessari ferð.