Fréttir

Fjall mánaðarins í apríl er Trölladyngja 379 m. og Grænadyngja 402 m. á Reykjanesi.

Fjórða ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2013 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 27. apríl.

Bakskólinn á Mosfell

Bakskóli FÍ fer í gönguferð á morgun laugardag á Mosfell.  Í gærkvöldi var Einar Einarsson sjúkraþjálfari með fyrirlestur um bakvandamál. Bakskóli FÍ hefur farið vel af stað og um síðustu helgi var gengið á Helgafell. Bakskólinn er með gðnguferðir frá Árbæjarlaug kl. 18 mánudaga og fimmtudaga.

Fuglaskoðunarferð í Grafarvoginn á laugardag

Tómas Grétar Gunnarsson  forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiðir ferð í Grafarvog þar sem farfuglar safnast fyrir á leirunni. Þátttakendur taki með sér sjónauka. Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna. 2 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ og farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna.

Þverártindsegg - 11. maí - Nokkur laus pláss

Þverártindsegg 4 skór 11. maí, laugardagur Fararstjóri: Örlygur Steinn Sigurjónsson. Hámarksfjöldi: 12. Brottför: Snemma morguns á einkabílum frá Hala í Suðursveit. Þátttakendur sameinast í jeppa og aka inn Kálfafellsdal að upphafsstað göngunnar á Þverártindsegg, 1553 m. Af Þverártindsegg sér yfir hinn fagra Kálfafellsdal með jökulfossum og hamrastálum allt um kring. Einnig yfir Breiðamerkurjökul, Öræfajökul og Esjufjöll. Afar sérstætt landslag sem ekki á sér margar hliðstæður hér á landi. Jöklabúnaður nauðsynlegur sem og kunnátta í notkun hans því leiðin er brött og krefjandi. 8-10 klst. á göngu. Ganga verður frá skráningu og greiðslu þremur vikum fyrir brottför. Undirbúningsfundur: Þriðjudaginn 23. apríl kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6. Verð: 23.000/26.000  

Miðfellstindur 3. -4. maí - Nokkur laus pláss

Miðfellstindur 3.-4. maí. 2 dagar Fararstjóri: Guðmundur Jónsson. Hámarksfjöldi: 15. Brottför: Kl. 22 frá Skaftafelli. Gengið á föstudagskvöldi inn í Kjós og tjaldað þar áður en haldið er upp á Miðfellstind, 1420 m, næsta dag. Tjöldin tekin saman á bakaleiðinni og gengið til baka í Skaftafell. Ganga á Miðfellstind er ögrandi verkefni fyrir brattgengustu fjallgöngumenn. Tindurinn rís fyrir botni Morsárdals, sunnan í Vatnajökli, nærri Þumli. Jöklabúnaður nauðsynlegur. Ganga verður frá skráningu og greiðslu á ferð þremur vikum fyrir brottför. Undirbúningsfundur: Þriðjudaginn 16. apríl kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verð: 23.000/26.000.

Útivistarkvöld Intersport fyrir félagsmenn FÍ

Útivistarkvöld Intersport fyrir félagsmenn FÍ miðvikdaginn 10. apríl frá kl. 19.30 - 21.30.  Intersport býður 20% aflsátt af öllum vörum til félagsmanna FÍ.

Á fjallatindum á rafbókarformi

Bókin Á fjallatindum eftir Bjarna E. Guðleifsson sem Bókaútgáfan Hólar gaf út árið 2009 er nú komin út á rafbókarformi. Þar segir frá gönguferðum á hæstu tinda í hverri sýslu landsins. Alls er lýst þarna ferðum á 28 tinda. Rafbókin býður upp á að menn geti skoðað bókina í tölvu, spjaldtölvu og jafnvel í síma og með því séð kort af viðkomandi fjalli, auk ljósmynda og gönguleiðalýsingu og aukinheldur lesið um jarðfræði þess.  Þá er þarna að finna ýmsan annan fróðleik um hvert fjall. Þannig geta menn léttilega haft rafbókina með sér í gönguferðir þegar gengið er í fótspor höfundar og haft af henni bæði gagn og gaman.   Pappírsútgáfan af bókinni hefur verið uppseld um nokkurra ára skeið, en mikil eftirspurn hefur verið eftir henni og því ættu margir að kætast við þessi tíðindi.   Hægt er að kaupa rafbókina með því að fara inn á www.skinna.is  en hún kostar 3.980 krónur.

Undirbúningur fyrir Hvannadalshnúk um hvítasunnuhelgina

Ferðafélag Íslands stendur fyrir sinni árlegu ferð á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuhelgina.  Nú er boðið upp á undirbúningsferðir fyrir Hvannadalshnúk, alls 5 fjallgöngur í apríl og mai.

Bættar samgöngur í Þórsmörk

Reykjavík Excursions / Kynnisferðir í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk, hafa ákveðið að lengja áætlun rútuferða í Þórsmörk nú í ár. Þetta er gert til að mæta aukinni eftirspurn eftir ferðum í Þórsmörk á vorin og haustin og auðvelda ferðamönnum að komast í Mörkina með öruggum hætti.   Áætlunarferðir í Þórsmörk hefjast því 2. maí í vor og reglulegar ferðir verða farnar allt þar til í lok október í haust.  Með þessari breytingu er tímabil áætlunarferða í Þórsmörk lengt um einn og hálfan mánuð bæði í vor og haust frá því sem verið hefur.    Farnar verða ferðir einu sinni á dag í maí, fjóra daga vikunnar eða fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga samkvæmt áætlun RE14 sem leggur af stað frá BSÍ kl 9 að morgni dags. Daglegar ferðir hefjast svo 13. júní þar sem farnar verða ferðir tvisvar sinnum á dag milli Húsadals í Þórsmörk og Reykjavíkur og verður sú áætlun í gangi fram til 15. september. Frá 16. september til loka október verður ekið eins og í maí eða fjóra daga vikunnar. Ekið er á milli Húsadals, Langadals og Bása og geta ferðamenn farið úr eða stigið um borð í rúturnar á öllum þessum stöðum og haldið ferð sinni áfram með áætlunarferðinni. Bóka þarf í ferðirnar á vorin og haustin með minnst 12 tíma fyrirvara en hægt er að mæta beint í rúturnar á öðrum tímabilum.   Þessu til viðbótar verður boðið upp á kvöldferðir fjóra daga vikunnar eða þriðjudaga, fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga á tímabilinu 13. júní – 31. ágúst í sumar.   Hægt verður að taka rútuna alla leið úr Reykjavík eða stíga um borð á ýmsum stöðum á leiðinni s.s. á Hvolsvelli og við Seljalandsfoss. Nánari upplýsingar um tímaáætlun, verð og miðabókanir er að finna á vefsíðu á vefsíðu Reykjavík Excursions www.re.is.  

Elliðatindar 1. júní

Vegna aurbleytu hefur ferð FÍ á Elliðatinda verið frestað til 1. júní nk.