Fréttir

Skyggnst í iður jarðar - Eyjafjallajökull nk. laugardag

Ekið inn á Þórsmerkurleið og gengið upp vestan við Grýtutind. Litlaheiði gengin inn undir Skerin og þeim fylgt upp á jökul. Svo er stefnt á Goðastein en þaðan er góð yfirsýn um jökulfyllta gígskálina og eldstöðina sem rýkur úr. Ef aðstæður leyfa er gengið fram á Vestari Skolt og litið niður hrikalegan Gígjökulinn. Jöklabúnaður nauðsynlegur. 17 km. Hækkun 1500 m. 10-11 klst. á göngu.

Aprílgabb - Íslendingum meinaður aðgangur að helstu náttúruperlum landsins

Íslendingum verður bannað að skoða margar helstu náttúruperlur landsins í sumar til að vernda þær fyrir ágangi. Bannið gildir ekki um erlenda ferðamenn þar sem talið er að það hefði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Meðal vinsælla ferðamannastaða, sem eingöngu verða opnir erlendum ferðamönnum í júní, júlí og ágúst, eru Gullfoss og Geysir, Almannagjá, Seljalandsfoss og Landmannalaugar. Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, segir lokunina neyðarúrræði. „Eftir síðasta sumar varð okkur ljóst að íslensk náttúra þolir ekki allan þennan ágang ferðamanna þannig að við sjáum ekki önnur úrræði í dag heldur en að takmarka umferð ferðamanna verulega næsta sumar um helstu náttúruperlur landsins,“ segir Kristín. Hún segir ástæðuna fyrir því að þessar lokanir taki eingöngu til Íslendinga en ekki útlendinga vera að erlendir ferðamenn hafi nú þegar keypt sér ferðir til landsins. „Og við verðum auðvitað að taka tillit til þeirra, á meðan flestir Íslendingar hafa séð þessar náttúruperlur eða hafa hina níu mánuði ársins til að fara þangað.“ Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir að þeim lítist mjög illa á þessar aðgerðir og þau séu auðvitað ekki hrifin af því að það þurfi að takmarka aðgang Íslendinga að íslenskri náttúru. „En í ljósi aðstæðna tökum við undir með Umhverfisstofnun að þetta eru nauðsynlegar aðgerðir.“ Forsvarsmenn Ferðafélags Íslands eru afar ósáttir og hafa boðað til mótmæla fyrir utan Alþingishúsið klukkan átta í kvöld. Þar ætla þeir að reisa tjaldbúðir og nú seinnipartinn var fólk þegar farið að tjalda. „Við hvetja alla okkar félagsmenn og alla innlenda ferðamenn, alla Íslendinga sem hafa áhuga á að ferðast og sækja þessi svæði heim að fjölmenna niður á Austurvöll í kvöld,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

120 manns á kynningarfundi á Bakskóla FÍ

Kynningarfundur Bakskóla Ferðafélag Íslands var haldinn í sal félagsins Mörkinni 6 í kvöld. Yfir 120 manns mættu á fundinn. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sem er umsjónarmaður með Bakskólanum kynnti verkefnið.  Bakskólinn hefst með gönguferð 4. apríl og verður boðið upp á þrjár gönguferðir í viku með liðkandi og styrkjandi æfingum.

Heimildarmynd um göngu 52 fjalla á Heiðarhorn

Starf 52 fjalla hóps Ferðafélags Íslands gengur vel. Þátttakendur hafa stundað fjallgöngur af miklum krafti og hafa oft á tíðum verið nokkuð heppnir með veður þótt auðvitað sé það ekki einhlítt. Um síðustu helgi gekk hópurinn á Heiðarhorn í Skarðsheiðinni sem er 1050 metra hátt og er hæsta fjall sem hópurinn hefur tekist á við fram að þessu. Gangan gekk sérlega vel og veður var hagstætt og mikið stuð á hópnum. Hér er örstutt myndband sem fararstjórar gerðu um þennan leiðangur.

Ný umhverfisstefna FÍ samþykkt á aðalfundi félagsins

Á aðalfundi FÍ 21. mars sl. var samþykkt ný umhverfisstefna félagsins. Ferðafélags Íslands hefur í starfi sínu í 85 ár tekið afstöðu með náttúru landsins eins og fram kemur í lögum og markmiðum félagsins en í lögum félagsins segir meðal annars:  Ferðafélag Íslands skal stuðla að góðri umgengni ferðamanna og vernd náttúru landsins, m.a. með samstarfi við umhverfis- og náttúruverndaraðila.

Málstefna um Þingvelli 3. apríl

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Suðurlands standa sameiginlega fyrir málstofu um Þingvelli miðvikudaginn 3. apríl 2013. Málstofan verður í fundarsal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6 í Reykjavík, hefst kl. 14:00 og lýkur kl. 17:00. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Bakskóli FÍ - gönguferðir fyrir bakveika

Ferðafélag Íslands stendur fyrir gönguferðum fyrir bakveika í apríl – júní. Léttar gönguferðir með styrkjandi stöðuæfingum 3 í viku auk heimaverkefna og þegar liður á verkefnið verður farið í léttar fjallgöngur. Sérstakur kynningarfundur fyrir bakskóla FÍ verður haldinn þriðjudaginn 26. mars kl. 20 í sal FÍ Mörkinni.

Skálavörður FÍ í Landmannalaugum

Ferðafélag Íslands er með skálavörð í Landmannalaugum nú yfir vetrarmánuðina og fram yfir páska. Frímann Ingvarsson hefur staðið vaktina í Laugum í vetur og er ánægður með dvöl sína á staðnum.

Þórsmörk með FÍ um páskana

Ferðafélag Íslands verður með skálavörð í Langadal í Þórsmörk um páskana og stendur fyrir fjölskylduferð í Langadal. Tilvalið fyrir alla ferðafélaga að njóta náttúrufegurðar í Þórsmörk yfir páskana og eiga góða stund með fjölskyldunni á þessum einstaka stað

Ritsamningar um nýjar árbækur

Á dögunum undirrituðu Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ  og Gísli Már Gíslason prófessor við HÍ undir ritsamning þess efnis að Gísli Már skrifar árbók Ferðafélags Íslands 2016 um Rauðasandshrepp hinn forna og Eyrar.  Einnig var undirritaður samningur milli FÍ og Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings þess efnis að Hjörleifur skrifi árbók FÍ 2018 um Upphérað og öræfin suður af.