Í gær, 25. mars. gekk hópur undir fararstjórn Þórðar Marelssonar á Esjuna. Strax upp við stein og síðar á Þverfellhorni sá hópurinn vel gosmökk og gufur sem stíga upp frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Ætla má að á meðan veður helst gott verði hægt að sjá gosmökkinn stíga frá eldstöðinni úr töluverði fjarlægð. Þetta er skemmtileg viðbót við annars frábært útsýni af Esjunni.
Vegna hættu á aurbleytu og utanvegaakstri hefur veginum inn í Landmannalaugar verið lokað og allur akstur um hann bannaður. Ferðamenn sem áhuga hafa á því að ferðast um hálendisvegi er bent á að hafa samband við Vegagerðina í síma 1777 vegna lokanna á fleiri hálendisvegum.
Fólki er heimilt að fara gangandi upp á Fimmvörðuháls en gerir það á eigin ábyrgð. Ferðafélag Íslands tekur undir með deildarstjóra almannavarna hjá ríkislögreglustjóra að gönguferð á Fimmvörðuháls á þessum árstíma sé aðeins fyrir vana og vel útbúna göngumenn. Vegalengd frá Skógum upp á Fimmvörðuháls er um 11 km og hæðarhækkun um 1000 metrar. Þá er göngufæri mjög þungt á köflum um þessar mundir. Fimmvörðuháls er að auki vel þekktur sem mikið veðravíti ef svo ber undir og veður á hálsinum getur verið mun verra en í byggð. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að félagið muni á næstunni bjóða upp á gönguferðir að gosstöðvum með fararstjórum til að tryggja öryggi göngumanna.
Ferðafélag Islands stendur fyrir fræðslukvöldi um eldgosið á Fimmvörðuhalsi nk miðvikudagskvöld kl. 20 í sal felagsins Mörkinni 6. Þá mæta vísindamenn og kynna gosið í máli og myndum fyrir ferðafólki.
Skíðaferðum aflýst
Skíðaferðum
FÍ, frá Þingvöllum yfir í Hvalfjörð, skíðadögum á Hesteyri og
gönguskíðaferð í Landmannalaugar hefur verið aflýst vegna snjóleysis,
krapa ofl.