Útivist eldri og heldri borgara
03.03.2010
4. mars hófust gönguferðir fyrir eldri og heldri borgara á vegum Ferðafélags Íslands. Gönguferðirnar eru á þriðjudögum og fimmtudögum og hefjast ávallt kl. 14.00. Á þriðjudögum hittast þátttakendur við Árbæjarlaug en þaðan er auðvelt að komast inn á kerfi gangstíga sem teygir sig um allan Elliðaárdal og upp að Elliðavatni.
Á fimmtudögum hittast menn og konur svo við Nauthól í Nauthólsvík kl. 14.00 og þaðan liggja stígar meðfram sjónum í báðar áttir og hlykkjast ennfremur um alla Öskjuhlíðina.
Ferðafélagið leggur til fararstjóra í þessar gönguferðir og hefur Alfreð Hilmarsson tekið þetta verkefni að sér fyrir félagið en Alfreð er vaskur göngugarpur sem er enn léttur á fæti þótt árunum fjölgi. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Valitor sem hefur átt náið og gott samstarf við Ferðafélag Íslands í nokkur ár.
Allar rannsóknir sýna að fátt er betri heilsubót til sálar og líkama en að taka sér hressandi gönguferð með skemmtilegu fólki. Í þessum ferðum er vegalengd og gönguhraði stilltur í samræmi við virðuleika þátttakenda og meðalaldur hópsins hverju sinni.