Ferðafélag Austur-Skaftfellinga 30 ára
08.03.2010
Ferðafélag Austur-Skaftfellinga var stofnað 9. mars 1980 og er því 30 ára um þessar mundir. Rannveig Einarsdóttir, formaður félagsins sagði í samtali við heimasíðu FÍ að félagsmenn horfðu glaðir til framtíðar á þessum tímamótum og rífandi gangur væri í starfinu.
Félagið rekur einn skála, Múlaskála í Lónsöræfum og hefur gistináttum þar fjölgað verulega milli ára og mikið bókað í sumar.
Sunnudaginn 14. mars kl. 14.00 verður afmæliskaffi í Nýheimum á Höfn þar sem félagsmenn og velunnarar fagna saman og deila minningum og myndum. Dregið verður í lukkuleik Strandgöngu sem staðið hefur yfir og ferðadagskrá komandi sumars kynnt.




