Fréttir

Húsfyllir á myndakvöldi

Um 150 manns mættu á myndakvöld Ferðafélags Íslands á miðvikudagskvöld. Þar voru sýndar myndir úr skíðaferðum um fjöll og jökla að vetrarlagi. Einar Ragnar Sigurðsson sýndi myndir úr ferðum um Laugaveginn á skíðum og ferð þvert yfir Vatnajökul sumarið 1997. Páll Ásgeir Ásgeirsson sýndi myndir úr skíðaferðum um Síðuafrétt og inn í Öskju veturna 2008 og 2009. Fjöldi gesta endurspeglar mikinn áhuga á ferðum af þessu tagi og nokkrar umræður urðu um búnað og skipulag í ferðum af þessu tagi.

Myndakvöld - Í heimi frosts og fanna

Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað vetrarferðum á skíðum og er haldið undir yfirskriftinni: Í heimi frosts og fanna Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 20 jan. n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð. Aðgangseyrir er á sannkölluðu kreppuverði eða aðeins 600 krónur á mann. Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Einars Ragnars Sigurðssonar. Einar er reyndur fjallamaður sem hefur stundað skíðaferðir um hálendi Íslands í áratugi. Hann er verðlaunaður ljósmyndari en myndir hans hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum og íslenskum samkeppnum. Einar sýnir myndir úr gönguskíðaferðum yfir Vatnajökul, í Landmannalaugar og um Fjallabak, Torfajökul og Laugaveginn. Seinnihluti myndasýningarinnar er í umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem sýnir myndir úr gönguskíðaferðum í Öskju og um Síðuaafrétt veturna 2008 og 2009. Páll Ásgeir hefur ferðast um íslensk fjöll í áratugi, skrifað leiðsögubækur og er einn af fararstjórum FÍ auk þess að sitja í stjórn félagsins.

Eitt fjall á viku - Úlfarsfell - myndir

Tæplega 150 göngugarpar tóku þátt í gönguferð FÍ í morgun á Úlfarsfell í verkefninu ,, Eitt fjall á viku."  Myndir úr gönguferðinni eru komnar á myndabanka FÍ hér á heimasíðunni, sjá hér 

Borgaraganga Hornstrandafara FÍ

Árleg BORGARGANGA Hornstrandafara Ferðafélags Íslands verður sunnudaginn 17. janúar 2010. Mæting kl 10:30 við innganginn í sal F. Í., Mörkinni 6. Að lokinni kynningu aka þátttakendur á eigin bílum að upphafsstað göngu, sem er miðsvæðis í Reykjavík.

Fjölmenni í fyrstu göngunni: ,,Eitt fjall á viku,"

Alls tóku 147 þátttakendur þátt í fyrstu göngu Ferðafélags Íslands í verkefninu Eitt fjall á viku sem hófst í morgun með gönguferð á Helgafell. Að auki voru þó nokkrir sem höfðu lagt af stað á undan hópnum og nokkrir komu of seint en alls voru því um 180 manns á ,,tindi" Helgafells.  Aðstæður voru góðar og veður millt og fallegt.  Páll Guðmundsson fararstjóri segir ánægjulegt að sjá hvað aldurshópurinn var breiður;  ,, yngsti þátttakandinn Viktor Aron var sjö en elsti 70 árum eldri eða 77 ára. Næsta ganga er sunnudaginn 17. janúar en skráningu lýkur 20. janúar. ,, Á Helgaf"elli hrópuðum við fimmfallt húrra fyrir fjallinu og töldum upp í 52 og niður aftur en í verkefninu ætlum við að ganga á 52 fjöll og nú eru bara 51 eftir,"   Sjá myndir

Borgaraganga Hornstrandafara FÍ

Árleg nýársganga Hornstrandaafara Ferðafélags Íslands veður farin 17. jánúar nk.

Ólafur Örn verður framkvæmdastjóri Þingvallanefndar

Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Þingvallanefndar og þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Þetta var samþykkt einróma á fundi Þingvallanefndar í gær samkvæmt tilkynningu frá nefndinni. 78 manns sóttu um starfið. Ólafur lauk um síðastliðin áramót störfum sem verkefnisstjóri þjónustumiðstöðvar vegna jarðskjálfta á Suðurlandi og jarðskjálftasjóðs.

Eitt fjall á viku - Helgafell fyrsta ganga

Á morgun sunnudaginn 10. janúar verður gengið á Helgafell ofan Hafnarfjarðar í verkefinu ,,Eitt fjall á viku." Lagt er af stað frá bílastæðinu við Kaldársel kl. 11.00.  Þegar ekið er á leið út úr Hafnarfjarðarbæ til Keflavíkur er skilti merkt Kaldársel sem vísar veginn og er ekið framhjá hesthúsahverfi Hafnarfjarðar áleiðis að Helgafelli en annað skilti merkt Kaldárseli vísar veginn.  Gera má ráð fyrir 20 - 30 mínútum í akstur úr Reykjavík að Kaldárseli.   Lagt er af stað í gönguna stundvíslega kl. 11.  Áætlaður göngutími á fjallið og til baka að bílastæði eru tæpir tveir tímar.  Mætið vel búin, í góðum gönguskóm og útivistarfatnaði, með húfu og vettlinga.  Gott er að hafa bakpoka með nestisbita og drykk.  Ferðafélagið gefur kost á tveimur prufugöngum í verkefninu en staðfesta þarf þátttöku með greiðslu fyrir 20. janúar.  Þeir sem vilja sameinast í bíla geta hist í Mörkinni 6 kl. 10.30 eða við bensínstöð N - 1 í Hafnarfirði  við ´Reykjanesbraut kl. 10.45

Eitt fjall á viku - Skráning í gangi

Eitt fjall á viku verkefnið hefur fengið frábærar viðtökur og nú er tekið við skráningum í gegnum vefinn. Smellið á hnappinn hér að neðan til að fá frekari upplýsingar um verkefnið og hvernig hægt er að skrá sig.

Eitt fjall á viku - upplýsingar

Hér má finna upplýsingar um verkefnið ,,Eitt fjall á viku".  Föstudaginn 8. janúar opnar linkur á heimasíðu FÍ með öllum upplýsingum verkefnið, fjöllin 52, dagssetningar og tíma, brottfararstaði, búnað ofl.  Linkurinn verður www.fi.is/eittfjall og opnar kl. 14 9. janúar.