Esjan fjóra daga í röð
21.02.2010
FÍ fjör í Esjunni - vertu til er vorið kallar á þig er hafið en það felst í því að ganga á Esjuna fjóra daga í röð. Í gær, mánudag fór fyrsti hópurinn upp í köldu veðri en ágætlega björtu. Flestir létu nægja að fara upp að Steini en nokkrir fóru alla leið upp á brún.
Í dag og næstu daga verður haldið áfram og ástæða til að hvetja fólk til að mæta í þetta hressilega verkefni. Veðurspáin fyrir daginn er ágæt, spáð er norðan vindi og 2 stiga frosti. Frostið eykst eftir því sem ofar dregur og nokkur vindur var í fjallinu í gær og má gera ráð fyrir svipuðu veðri í dag. En gott skap og hlýr fatnaður er rétta veganestið í fjallgöngur að vetri.
Fararstjóri er Þórður Marelsson. Lagt er af stað frá Esjustofu kl. 18 alla daga. Takið með ykkur höfuðljós og góðan búnað.