Fréttir

Eldgos á Fimmvörðuhálsi

Eldgos á Fimmvörðuhálsi Mynd tekin úr TF SIF í nótt. Eldgos sem hófst rétt fyrir miðnætti, hefur færst í aukana eftir því sem liðið hefur á nóttina. Eldgosið er í Eyjafjallajökli en kvikan kemur upp í Fimmvörðuhálsi. Hættuástandi hefur ekki verið aflýst. English | Deutsch | Svenska Gossprungan er milli 0,5-1 km á lengd og liggur frá suðvestri til norðausturs. Tólf kvikustrókar eru á sprungunni og var kvikustrókavirkni mjög jöfn milli kl. 4-7 í morgun. Hraun rennur frá sprungunni stutta leið til austurs en meginhraunstraumurinn rennur til vesturs. Þetta kemur fram í skýrslu úr flugi Landhelgisgæslunnar á TF-SIF í nótt.  Lítilsháttar gosmökkur er frá gosinu en hann nær ekki meira en um 1 km í loft upp. Gosmökkinn leggur beint til vesturs. Áhrif af gosinu eru mjög staðbundin enn sem komið er. Ekki var hægt að meta nákvæmlega umfang vestara hraunstraumsins sökum aðstæðna við gosstöðvarnar, samkvæmt skýrslunni. Hér má sjá myndskeið sem Karl Sigtryggsson, kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins tók úr úr flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, rétt fyrir klukkan átta í morgun. Horfa Hér má sjá annað myndskeið sem tekið var úr  TF-SIF, yfir gossvæðinu í nótt.  Horfa Sendur var út aukafréttatími í Sjónvarpinu klukkan átta í morgun. Horfa Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík hefur verið virkjuð. Fólki er bent á að fylgjast með fréttum í útvarpi en forðast að valda óþarfa álagi á símkerfi á Suðurlandi.  Boðað hefur verið til blaðamannafundar kl. 11. 00 í Félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli.   Fylgst er náið með framvindu gossins og unnið samkvæmt neyðarstigi viðbragðsáætlunar almannavarna.  Útsending í Ríkisútvarpinu verður send út á samtengdum rásum til klukkan ellefu. TF-Líf, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir jökulinn og samkvæmt mælingum hennar er gossprungan um kílómeter að lengd og norðarlega í Fimmvörðuhálsi.

Almannavarnir meta stöðuna

Almannavarnir meta stöðuna Almannavarnanefnd situr nú á fundi á Hvolsvelli með sveitarstjórnarmönnum og sýslumanni þar sem staðan er metin og afstaða tekin til þess hvort rýmingu verði viðhaldið og hvort þjóðvegurinn um svæðið verði lokaðir áfram. Magnús Tumi Guðmundsson og Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingar sitja einnig fundinn.  Bændum hefur verið hleypt inn á svæðið til að sinna skepnum sínum. Þeir fyrstu fóru um klukkan hálf sjö í morgun og fengu nokkra klukkutíma til að sinna helstu verkum og þurftu þá að yfirgefa svæðið. frettir@ruv.is

Húsfyllir á myndakvöldi

Christopher Lund og Haukur Snorrason troðfylltu sal Ferðafélags Íslands á myndakvöldi í gærkvöldi. Myndir þeirra félaga vöktu mikla athygli og aðdáun, sérstaklega myndir Lunds frá Langasjó og nágrenni. Loftmyndir Hauks fengu einnig sterk viðbrögð og líflegar frásagnir þeirra félaga kölluðu á fjölda spurninga úr sal. Firnagóð stemmning og fróðleikur að ógleymdum kaffiveitingum í hléi. Talnaglöggir töldu að rúmlega 200 manns hefðu verið á staðnum.

Útivera kemur út á ný

Tímaritið Útivera kemur út á ný nú á vormánuðum. Það er fyrirtækið Athygli sem gefur blaðið út og ritstjóri þess verður Valþór Hlöðversson en í þriggja manna ritnefnd sitja Gunnar Hólm Hjálmarsson, Ragnheiður Davíðsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson. Útivera mun eins og áður fjalla um útiveru, ferðalög, fjallgöngur og íslenska náttúru í sem víðustum skilningi.

Húsfyllir á myndakvöldi

Christopher Lund og Haukur Snorrason troðfylltu sal Ferðafélags Íslands á myndakvöldi í gærkvöldi. Myndir þeirra félaga vöktu mikla athygli og aðdáun, sérstaklega myndir Lunds frá Langasjó og nágrenni. Loftmyndir Hauks fengu einnig sterk viðbrögð og líflegar frásagnir þeirra félaga kölluðu á fjölda spurninga úr sal. Firnagóð stemmning og fróðleikur að ógleymdum kaffiveitingum í hléi. Talnaglöggir töldu að rúmlega 200 manns hefðu verið á staðnum.

Fyrirlestur um ferð á Everest

Fimmtudaginn 18. mars, verður sérstakur fyrirlestur á Hótel Hilton Nordica sem er haldinn á vegum Félags Íslenskra Fjallalækna Þar mun Michael P. Grocott,  halda fyrirlestur um ferð sína og félaga sinna á Mt. Everest vorið 2007, The Xtreme Everest Expedition.

Gengið með Góu

Næstkomandi sunnudag, 21. mars efna Ferðafélag Ísland og sælgætisgerðin Góa til sérstakrar páskaeggjagöngu á Móskarðshnúka. Gangan hefst kl. 10.00 á sunnudagsmorgun og allir þátttakendur fá að lokinni göngu páskaegg eða ámóta gómsætan glaðning frá Góu. Gangan hefst við Skarðsá undir Móskarðshnúkum. Til að komast þangað er best að beygja til vinstri rétt ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal og aka afleggjara merktan Hrafnhólar. Við túngarðinn á Hrafnhólum er beygt niður með ánni og stefnt inn í dalinn að sumarbústöðum og þarf að opna hlið á leiðinni. Vegurinn endar á bílastæði við göngubrú yfir Skarðsá. Þórður Marelsson verður fararstjóri og leiðir hópinn upp á Móskarðshnúka en sá hæsti er 820 metra hár. Gangan ætti því að taka 3-4 tíma og verður gott að fá sér súkkulaði að launum eftir frískandi fjallgöngu.

Landslag gegnum linsu og úr lofti

 Á næsta myndakvöldi Ferðafélags Íslands 17. mars n.k. verður landslag skoðað með augum ljósmyndara. Tveir atvinnuljósmyndarar sem jafnframt eru áhugasamir ferðalangar sýna ljósmyndir sínar af íslensku landslagi og útskýra fyrir áhorfendum ýmis tæknileg atriði varðandi ljósmyndatöku af landslagi og myndbyggingu. Fyrst sýnir Christopher Lund myndir sem hann hefur tekið víðsvegar um Ísland. Christopher tilheyrir yngri kynslóð ljósmyndara en hefur víða ferðast og virt fyrir sér fósturjörðina gegnum linsur af ýmsu tagi. Sýning hans ber yfirskriftina: Landið gegnum linsu. Eftir kaffi sýnir Haukur Snorrason ljósmyndari og flugkappi myndasýningu sem kallast:  Ísland úr lofti. Haukur er einnig meðal yngri ljósmyndara en hefur ferðast mjög mikið um Ísland og má segja að ljósmyndir hans af Íslandi úr lofti hafi vakið verðskuldaða athygli á honum um langa hríð en Haukur hefur gert nokkrar ljósmyndabækur. Myndakvöldið fer fram í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00 að vanda. Aðgangseyrir er kr. 600 sem verið hefur og í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi.

Esjuátak vel heppnað

Esjuátakinu sem stóð alla vikuna með daglegum göngum á fjallið lauk á föstudagsmorgun. Þá gengu 27 manns á fjallið undir stjórn Þórðar Marelssonar og skörtuðu Cintamani húfum sem þeir höfðu fengið í verðlaun fyrir þátttöku alla dagana.

Ferðafélag Austur-Skaftfellinga 30 ára

Ferðafélag Austur-Skaftfellinga var stofnað 9. mars 1980 og er því 30 ára um þessar mundir. Rannveig Einarsdóttir, formaður félagsins sagði í samtali við heimasíðu FÍ að félagsmenn horfðu glaðir til framtíðar á þessum tímamótum og rífandi gangur væri í starfinu. Félagið rekur einn skála, Múlaskála í Lónsöræfum og hefur gistináttum þar fjölgað verulega milli ára og mikið bókað í sumar. Sunnudaginn 14. mars kl. 14.00  verður afmæliskaffi í Nýheimum á Höfn þar sem félagsmenn og velunnarar fagna saman og deila minningum og myndum. Dregið verður í lukkuleik Strandgöngu sem staðið hefur yfir og  ferðadagskrá komandi sumars kynnt.