Eldgos á Fimmvörðuhálsi
21.03.2010
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Mynd tekin úr TF SIF í nótt.
Eldgos sem hófst rétt fyrir miðnætti, hefur færst í aukana eftir því sem liðið hefur á nóttina. Eldgosið er í Eyjafjallajökli en kvikan kemur upp í Fimmvörðuhálsi. Hættuástandi hefur ekki verið aflýst.
English | Deutsch | Svenska
Gossprungan er milli 0,5-1 km á lengd og liggur frá suðvestri til norðausturs. Tólf kvikustrókar eru á sprungunni og var kvikustrókavirkni mjög jöfn milli kl. 4-7 í morgun. Hraun rennur frá sprungunni stutta leið til austurs en meginhraunstraumurinn rennur til vesturs. Þetta kemur fram í skýrslu úr flugi Landhelgisgæslunnar á TF-SIF í nótt. Lítilsháttar gosmökkur er frá gosinu en hann nær ekki meira en um 1 km í loft upp. Gosmökkinn leggur beint til vesturs. Áhrif af gosinu eru mjög staðbundin enn sem komið er. Ekki var hægt að meta nákvæmlega umfang vestara hraunstraumsins sökum aðstæðna við gosstöðvarnar, samkvæmt skýrslunni.
Hér má sjá myndskeið sem Karl Sigtryggsson, kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins tók úr úr flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, rétt fyrir klukkan átta í morgun. Horfa
Hér má sjá annað myndskeið sem tekið var úr TF-SIF, yfir gossvæðinu í nótt. Horfa
Sendur var út aukafréttatími í Sjónvarpinu klukkan átta í morgun. Horfa
Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík hefur verið virkjuð. Fólki er bent á að fylgjast með fréttum í útvarpi en forðast að valda óþarfa álagi á símkerfi á Suðurlandi.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar kl. 11. 00 í Félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Fylgst er náið með framvindu gossins og unnið samkvæmt neyðarstigi viðbragðsáætlunar almannavarna. Útsending í Ríkisútvarpinu verður send út á samtengdum rásum til klukkan ellefu.
TF-Líf, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir jökulinn og samkvæmt mælingum hennar er gossprungan um kílómeter að lengd og norðarlega í Fimmvörðuhálsi.