Aðventuferð á jeppum í Þórsmörk
25.11.2009
Laugardaginn 5. des. n.k verður efnt til aðventuferðar á jeppum inn í Þórsmörk á vegum Ferðafélags Íslands og Safari. Hópurinn mun hittast á Hvolsvelli kl. 11.00 á laugardag og þaðan verður ekið í hóp inn í Langadal undir leiðsögn vanra jeppamanna og fararstjóra sem leiða för yfir vötn í klaka kropin á Þórsmerkurleið.
Verði er stillt í hóf en það er kr. 5.000 á hverja fjölskyldu og það gildir fyrir einstaklinga einnig. Gist verður í Skagfjörðsskála í Langadal og efnt til margvíslegra leikja þar sem fjölskyldan getur sameinast við leik og ærsl í fögru umhverfi. Þátttakendur skera saman laufabrauð, grilla og fara í feluleik í myrkrinu og taka þátt í fjöldasöng.
Lagt verður af stað heim aftur skömmu eftir hádegi á sunnudag.
Hringið á skrifstofu FÍ og látið skrá ykkur.