Sjáðu tindinn, þarna fór ég
10.11.2009
Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað háum fjöllum og haldið undir yfirskriftinni: Sjáðu tindinn, þarna fór ég. Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 18. nóvember n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð.
Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Guðmundar Jónssonar sem stundum er kallaður Gummi stóri. Guðmundur er í hópi reyndra fjallamanna þrátt fyrir ungan aldur og hefur getið sér gott orð sem fararstjóri fyrir Ferðafélagið í göngum á há fjöll. Guðmundur sýnir myndir úr ferðum á Hrútfjallstinda og Þverártindsegg og einhver fleiri fjöll sem freista brattgengra.
Seinni hluti sýningarinnar er í umsjá Haraldar Arnar Ólafssonar sem sýnir myndir úr göngum á Hvannadalshnúk eftir ýmsum leiðum og fleiri tinda í öskju Öræfajökuls. Haraldur er reyndasti fjallamaður Íslands fyrr og síðar og stjórnar göngum á Hvannadalshnúk á hverju vori fyrir Ferðafélag Íslands.