Fréttir

Örnefni í Vestmannaeyjum

Fræðslufundur verður haldinn í Nafnfræðifélaginu laugardaginn 24. október nk., kl. 13, í Öskju, húsi Háskóla Íslands, stofu N 130. Guðjón Ármann Eyjólfsson  fyrrv. skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík flytur fyrirlestur um örnefni í Vestmannaeyjum, landsheiti, jarðfræði og fiskimið, og sérstaklega um hverja eyju með myndum úr Árbók Ferðafélags Íslands 2009, Vestmannaeyjar, sem kom út um miðjan júní sl. vor. Guðjón Ármann er aðalhöfundur Árbókarinnar, en auk hans rita jarðfræðingarnir Ingvar A. Sigurðsson og dr. Sveinn P. Jakobsson um jarðsögu Vestmannaeyja og Jóhann Óli Hilmarsson um fuglalíf í Vestmannaeyjum. Ritstjóri var Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur.

Göngugleði á sunnudögum

Á sunnudagsmorgnum yfir veturinn hittast göngumenn í Mörkinni 6 og fara saman á fjöll. S.l. sunnudag kom lítill hópur manna og kvenna saman og fóru sumir á gönguskíði upp í Bláfjöll en aðrir gengu á Skálafell. Ágætt veður var á sunnudag og nutu menn hollrar útivistar í góðum hópi.  

Snæfellingar gengu á Skipaþúfu

Ferðafélag Snæfellsness var stofnað á þessu ári. Félagið efndi til gönguferðar á Bjarnarhafnarfjall um helgina og tóku 17 göngumenn þátt í leiðangrinum. Besta veður var til fjallgöngu því bjart var yfir þrátt fyrir nokkuð snarpa norðanátt. Göngumenn fengu í verðlaun frábært útsýni ofan af Skipaþúfu efst á fjallinu.

Fyrsta myndakvöld vetrarins

Fyrsta myndakvöld vetrarins verður miðvikudaginn 14. október.  Þá  verða sýndar myndir af Vatnaleiðinni milli Hnappadals og Norðurárdals og um leið verður kynnt nýútkomið smárit FÍ um Vatnaleiðina. Það eru þeir Pálmi Bjarnason og Sigurður Kristjánsson sem annast myndasýninguna en Sigurður hefur verið helsti fararstjóri á þessari leið í áratugi og Pálmi á sæti í útgáfunefndinni. Einnig heldur Reynir Ingibjartsson höfundur leiðarlýsinga í ritinu stutt erindi. Eftir kaffihlé kemur Páll Ásgeir Ásgeirsson og sýnir nokkrar myndir úr ferð sem var kölluð Óeiginlegur Laugavegur og var farin í fyrsta sinn í sumar. Myndakvöldið hefst kl. 20 og er aðgangseyrir sem fyrr kr. 600 og er kaffi og meðlæti innifalið. Allir velkomnir. 

Sjáið jöklana hreyfast

Hopun og framskrið jökla er áhugavert fyrirbæri sem margt útivistarfólk hefur séð með eigin augum. Á þessari vefsíðu er hægt að skoða myndbönd af framskriði Sólheimajökuls og Svínafellsjökuls. Myndskeiðin eru byggð á myndatökum á klukkustundarfresti í 2-3 ár. Á sömu síðu er að finna samskonar myndskeið af skriðjöklum í Alaska og Grænlandi. Góða skemmtun.

Urriðadans í Öxará 10. okt

Laugardaginn 10.október verður Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum.ehf með kynningu á rannsóknum sínum á stórurriðanum í Þingvallavatni.Jóhannes mun skýra rannsóknir sínar og og verða meðal annars lifandi risaurriðar til sýnis. Jóhannes hefur stundað rannsóknir á urriðanum í Öxará og Þingvallavatni undanfarin ár.Urriðinn fer að sjást í Öxará í september en þar hrygnir hann allt fram í desember. Með þeim rannsóknum hafa fengist miklar og ítarlegar upplýsingar um atferli urriðans í Þingvallavatni.

Ferðaáætlun FÍ 2010

Nú er hafin undirbúningur að útgáfu Ferðaáætlunar Ferðafélags Íslands fyrir árið 2010 sem kemur út í byrjun næsta árs. Ferðaáætlun FÍ er prentuð í 70.000 eintökum og markar upphaf hvers ferðaárs hjá þúsundum Íslendinga. Áætluninni er dreift með heilu upplagi af Morgunblaðinu og heim til ríflega 8.000 félagsmanna FÍ auk þess að liggja frammi á fjölda staða um allt land. Þá er hún einnig aðgengileg hér á vefsíðu FÍ á PDF formi.

Jólagjöfin í ár - árbækur, smárit og ferðir með FÍ

Ný styttist óðum í jólin og því rétt að minna á árbækur FÍ, smárit, sem og ferðir með Ferðafélaginu eða félagsáskrift eru tilvalin jólagjöf.   Slík jólagjöf er bæði ódýr, skemmtileg, frumleg og um leið heilsubætandi, ef hún leiðir til þess að viðkomandi fari að stunda gönguferðir og fjallgöngur sem eru styrkjandi bæði fyrir líkaman og sál.  Nánari upplýsingar á skrifstofu FÍ.

Myndakvöld 14. október - Vatnaleiðin

Fyrsta myndakvöld vetrarins verður miðvikudaginn 14. október.  Þá  verða sýndar myndir af Vatnaleiðinni og um leið verður nýútkomið smárit FÍ um Vatnaleiðina kynnt en þessu fimmtánda fræðsluriti FÍ er ætlað að bæta úr skorti á aðgengilegum leiðarlýsingum og kortum á Vatnaleiðinni milli Hnappadals og Norðurárdals og eins um áhugaverð göngusvæði á báðar hendur.   Myndakvöldið hefst kl. 20 og er aðgangseyrir sem fyrr kr. 600 og er kaffi og meðlæti innifalið. Allir velkomnir.  Nánar auglýst síðar.

Skálum FÍ lokað - vetraropnun

Skálum FÍ hefur nú verið lokað fyrir veturinn nema enn er opiði í Landmannalaugum og skálaverðir þar að störfum. Aðrir skálar félagsins hafa verið læstir og þarf að nálgast lykla á skrifstofu FÍ.  Ferðamenn sem eru á ferðinni nú á haustdögum og í vetur eru vinsamlega beðnir um að ganga vel um skála félagsins og taka þannig höndum saman um að aðkoma sé ávallt sem best.  Vetrarreglur í skálum FÍ eru: