Fréttir

Ferðafélag Íslands og Háskóli Íslands í samstarfi á aldarafmæli HÍ.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir reglulegum gönguferðum á afmælisárinu. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið lengi hafa haft gott samstarf við Háskóla Íslands og að margir kennarar við skólann hafi verið fararstjórar fyrir félagið, setið í stjórn eða nefndum félagsins.  

Lifandi myndir í Mörkinni 6

Miðvikudagskvöldið 19. jan. n.k. verður haldið eitt af hinum sívinsælu myndakvöldum Ferðafélags Íslands. Að þessu sinni verður um bíómyndakvöld að ræða því sýndar verða tvær kvikmyndir eftir Pétur Steingrímsson kvikmyndagerðarmann og göngugarp. Fyrri myndin er tekin í göngu á Hvannadalshnúk vorið 2010 og heitir: Hæsti tindurinn heillar. Pétur tók þátt í hinni hefðbundnu hvítasunnugöngu FÍ. Hópurinn hreppti einmuna gott veður og fyrir vikið náðust myndir sem teljast mega einstæðar því varla munu dæmi um að kvikmyndagerðarmenn hafi áður borið tækjabúnað sinn upp á hæsta fjall landsins. Inn í myndina er fléttað sögu fjallganga á Öræfajökli og myndin sýnir mannlíf og stemmningu í hinum vinsælu Hvannadalshnúksgöngum.Seinni myndin er tekin í gönguferð hóps úr Garðabæ eftir Jökulsárgljúfrum sumarið 2004. Það eru það fossandi vötn, brumandi skógar og fagur gróður sem fanga augu myndavélarinnar ólíkt ís og hjarni Hvannadalshnúks.Af þessu tilefni verður ekki boðið upp á hefðbundnar kaffiveitingar í hléi á myndakvöldinu heldur verður poppkorn og kók eins og títt er í kvikmyndahúsum.Aðgangseyrir er kr. 1.000.

Tæplega 160 á Mosfelli

Mikill áhugi er á verkefni FÍ eitt fjall á viku en tæplega 160 göngugarpar gengu á Mosfell í morgun undir leiðsögn verkefnisstjórnans Páls Ásgeirs auk fleirii fararstjóra FÍ.  Ferðafélagið býður einnig upp á gönguverkefnið eitt fjall á mánuði og hafa þegar um 100 manns skráð sig í vekefnið og þá er boðið upp á framhaldsverkefni fyrir þátttakendur í 52 fjöllum 2010 og þar hafa um 50 þátttakendur skráð sig.  Fjallabakterían er greinilega bráðsmitandi og besta meðferðin við henni er án efa góð fjallganga, reglulega.

Fjölmenni á fundi um gönguleiðir að Fjallabaki

Fjölmenni var á fundi um gönguleiðir að Fjallabaki, samstarf og framtíðarsýn, sem haldinn var að Brúarlundi í Landsveit í dag. Mikill áhugi áhugi var meðal fundarmanna á frekara samstarfi hagsmunaaðila sem og margar áhugaverðar hugmyndir um framtíðarsýn á svæðinu.  Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ voru á meðal þeirra fluttu framsögu á fundinum.

Gönguleiðir að fjallabaki, tækifæri og framtíðarsýn

Fundur um gönguleiðir að fjallabaki  verður haldinn að Brúarlundi í Landsveit laugardaginn 15. janúar nk. frá kl. 14:00 – 16:30.Á fundinum verða nokkur framsöguerindi um gönguleiðir að fjallabaki.  M.a. verður fjallað um þau verkefni sem unnið hefur verið að  og kynntar hugmyndir að áframhaldandi uppbyggingu gönguleiða á svæðinu.  Einnig verða ræddar hugmyndir um frekara samstarf við kortlagningu og merkingar á hálendinu.Meðal framsögumanna er Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og mun hann kynna hvernig Norðmenn hafa staðið að gönguleiðauppbyggingu, en þeir eru mjög framarlega á því sviði.Vonast er til að fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja, sveitarfélags og áhugafólk um gönguleiðir að fjallabaki mæti og taki þátt í umræðum um málefnið.

120 manns gengu á fjall númer eitt

120 manns tóku þátt í fyrstu göngunni í verkefni Ferðafélags Íslands; Eitt fjall á viku sem hófst í dag með göngu á Úlfarsfellið. Fimm fararstjórar fylgdu hópnum, leiddu för, fræddu göngumenn um örnefni og náttúrufar og stjórnuðu teygjuæfingum þegar göngu lauk.Páll Ásgeir Ásgeirsson verkefnisstjóri sagði heimasíðuritara að hópurinn hefði verið kátur og tindilfættur. Hann sagðist vera bjartsýnn og hlakka til þess að leiða hópinn gegnum árið.Næsta ganga verður eftir viku og verður þá gengið á Mosfell í Mosfellsdal. Kannski finnst silfur Egils loksins eftir 1000 ár. Tími kraftaverkanna er ekki liðinn. Hægt að fá nánari upplýsingar undir sérstökum hlekk á heimasíðunni sem merktur er: Eitt fjall á viku. Þar birtast upplýsingar og leiðbeiningar um göngu hverrar viku og þar er að finna lista yfir fjöll ársins.

Húsfyllir á kynningarfundi um Eitt fjall á viku

Rúmlega 300 manns mættu á kynningarfund í Mörkinni 6 á miðvikudagskvöld vegna Eitt fjall á viku sem nú er að fara af stað í annað sinn. Verkefnisstjóri, Páll Ásgeir Ásgeirsson kynnti dagskrá ársins og fyrirkomulag og sýndi myndir úr sama verkefni árið 2010. Fyrsta gangan er á laugardaginn og verður farið á Úlfarsfellið. Hægt er að skoða dagskrána fyrir allt árið á sömu síðu.Þessi mikli áhugi á verkefninu annað árið í röð er Ferðafélagi Íslands mikið gleðiefni og sýnir hve áhugi á fjallgöngum og útivist er útbreiddur meðal Íslendinga.

Borgarganga Hornstrandafara 9. janúar 2011

Borgarganga Hornstrandafara 9. janúar 2011   SVEIT Í BORG, FORNAR MINJAR OG LEIÐIR   Borgarganga Hornstrandafara verður að þessu sinni í Garðabæ. Genginn verður Fógetastígur, forn gata í gegnum Gálgahraun að Garðastekk. Þaðan verður gengin Garðagata yfir í Garðahverfi. Hugað verður að fornminjum, huldufólksbústöðum og sögu skólahalds á Íslandi.

Eitt fjall á viku 2011

Á nýju ári verður verkefnið: Eitt fjall á viku, sett af stað að nýju. Kynningarfundur verður í sal FÍ í Mörkinni 6 þann 5 janúar 2011 og hefst kl.20.00.Eins og nafnið ber með sér felst verkefnið í því að ganga á 52 fjöll á árinu. Gengið verður í hverri viku framan af ári en síðan þéttar. Gefið er sumarfrí í átta vikur en svo tekið til við verkefnið af fullum krafti.Fjöllin sem gengið er á eru allt frá lágum fjöllum við bæjardyr Reykjavíkur yfir í Hvannadalshnúk. Tvisvar sinnum yfir árið er farið í helgarferðir til þess að safna fjöllum og verður farið í Landmannalaugar og Þórsmörk.Þátttakendur læra að takast á við ólík verkefni, þekkja sjálfan sig og sín takmörk og síðast en ekki síst kynnast skemmtilegu fólki og komast í gott form.Nánar verður auglýst í dagblöðum um áramótin. Nýársgjöfin frá þér til þín í ár er þátttaka í þessu stórskemmtilega verkefni.

Þrettándaferð fjölskyldunnar í Þórsmörk

Árlega Þrettándaferð bíladeildar FÍ í Langadal í Þórsmörk verður farin 8.- 9. janúar.  Ekið í Langadal í Þórsmörk og gist í Skagfjörðsskála.  Farið í stuttar jeppaferðir, skoðunaferðir, gönguferðir og stjörnuskoðun, kvöldvaka á grill á laugardegi.  Háldið heimleiðis á sunnudag með viðkomu á nokkrum stöðum. Komið til Reykjavíkur um eða efftir mjaltir.  Fararstjóri: Gísli Ólafur Pétursson.