Hópurinn sem dvelur í skála Ferðafélags Íslands í Langadal í Þórsmörk er í sambandi við lögreglu á Hvolsvelli og bíður átekta. Vatnavextir úr Gígjökli loka hefðbundinni leið inn í Þórsmörk.
Í morgun voru vangaveltur um að keyra yfir í Húsadal og þaðan yfir Markarfljót ofan mestu vatnavaxtanna. Eins og staðan er núna var það ekki talið til neins að fara yfir í Fljótshlíðina því þar gæti allt lokast ef vatnavextir lokuðu leiðinni Fljótshlíðarmegin.
Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, segir að 38 manns séu í skála FÍ í Langadal, tólf manns úr forystu FÍ, tólf manna hópur frá norska ferðafélaginu, tíu Belgar og þrír Finnar ásamt einum Íslendingi sem er með þeim í för. Til tals hefur komið að sækja hópinn eða hluta hans með þyrlu.
Ólafur sagði að af og til sæist gosmökkurinn fara hátt í loft upp. Um klukkan ellefu í gærkvöldi hefði jörðin skolfið hressilega og skáli Ferðafélagsins í Langadal hristist duglega. Fram til klukkan eitt í nótt hefðu nokkrir kippir fundist.
Við erum kyrrsett hérna og bíðum bara átekta,“ sagði Ólafur. „Við höfum nóg af mat og gott skap. Það er ró yfir þessu reynslumikla fólki hérna og við skiljum að í augnablikinu þurfa aðrir á meiri hjálp að halda heldur en við.“