Safetravel hleypt af stokkunum í Krýsuvík
10.06.2010
Í hádeginu í dag skrifuðu 17 aðilar, er koma að ferðaþjónustu á einn eða annan hátt, undir samstarfssamning í Krýsuvík um öryggismál ferðamanna.
Fjöldi ferðamanna sem ferðast um landið hefur verið að aukast með hverju árinu. Tölur frá Ferðamálastofu sýna að 90% íslendinga ferðuðust innanlands síðasta sumar og um 500.000 erlendir ferðamenn heimsóttu landið.
Bjartsýnustu spár segja að árið 2018 geti fjöldi erlendra ferðamanna verið kominn í eina milljón. Áætlað er að tekjur af erlendum ferðamönnum hér á landi hafi verið 155 milljarðar árið 2009 sem er um 21% raunaukning frá árinu á undan og er ferðaþjónustan nú orðin ein af stærstu gjaldeyrisskapandi greinum þjóðarinnar með um 18% hlutdeild.




