Fréttir

515 alls í morgungöngum

Morgungöngum Ferðafélags Íslands lauk 2010 með hljómfögrum söng Léttsveitar Reykjavíkur á Úlfarsfelli í morgun meðan 160 þátttakendur gæddu sér á morgunmat. Jóhanna Þórhallsdóttir stjórnaði kórnum. Alls tók 515 þátt í morgungöngunum að þessu sinni sem mun vera metþátttaka. Sjá nýjar myndir hér.

Vill leyfa aðgengi ferðamanna að Gígjökli

Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins,“ sagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur á Ferðamálaþingi í fyrradag. Hann hefur stundað rannsóknir á eldfjöllum í fjóra áratugi og skipulagt ferðir fyrir ferðamenn á eldfjallasvæði í um þrjá áratugi. Erindi Haraldar má lesa á bloggi hans, www.vulkan.blog.is.   ,,Það er algjörlega magnað að vera hérna, og eins að aka hér inneftir,“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hann fór inn að Gígjökli í fyrradag ásamt fleirum frá Ferðafélaginu og Vegagerðinni til að kanna aðstæður í Þórsmörk og ástand vegarins.

101 Mosfell

101 mætti í morgungöngu á Mosfellið í morgun. Þokan var dimm en menn létu það ekki á sig fá heldur fengu sér frískandi morgungöngu, gáðu að silfri Egils og hlustuðu á ljóðalestur á toppnum. Skáld dagsins var Jóhannes úr Kötlum og Land míns föður, landið mitt hljómaði í þokunni á Mosfelli í morgun. Fleiri myndir eru komnar inn hér.

Mögnuð ferð á Miðfellstind

Um helgina fór 19 manna leiðangur á vegum Ferðafélags Íslands á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum og mun þetta vera í fyrsta sinn sem félagið efnir til ferðar á þennan kyngimagnaða tind. Leiðangursmenn gengu úr Skaftafelli inn í Kjós þar sem settar voru upp tjaldbúðir. Snemma á laugardag var síðan haldið upp með Meingili í Hnútudal og þaðan í skarð við Þumal. Þaðan liggur leiðin inn á jökul norðan við fjöll og austur með þeim að Miðfellstindi. Tindurinn er 1430 metra hár og af honum óviðjafnanlegt útsýni yfir Skaftafellsfjöll og fjallakrans Öræfajökuls allan.

Metþátttaka í fyrstu morgungöngunni

Morgungöngur FÍ 2010 hófust á mánudagsmorgun kl. 0600. 91 tók þátt í fyrstu göngunni og muna menn ekki eftir svo mikilli þátttöku fyrsta daginn. Undanfarin ár hefur jafnan fjölgað í göngunum eftir því sem líður á vikuna. Veður var hið besta og á toppnum var lesið úr bláu Skólaljóðunum kvæði eftir Jón Helgason við góðar undirtektir. Sjá myndir.

Örgöngur FÍ

Fyrsta gangan um nágrenni Grafarholtsins verður miðvikudaginn 5. maí.  Lagt verður af stað frá vatnsgeymunum kl: 19:00.  Leið:  Gengið um stíginn, sem liggur að Hádegismóum - þaðan haldið upp á Hádegisholtið - þaðan um Lyngdalsklaufina í Skálina  (Paradísardal) - úr Skálinni niður á göngustíginn, sem liggur að - að geymunum.  Leiðin er að nokkru utan stíga og því ráðlegt að vera í góðum gönguskóm.  Þetta er ekki hraðganga.  Ætlaðar eru 1 1/2 - 2 klukkstundir til ferðarinnar.  Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Fararstjórar:  Guðlaug Sveinbjarnardóttir og Höskuldur Jónsson

Fjallakröfugöngu á morgun 1.maí AFLÝST

Fjallakröfuganga á degiverkalýðsins- Ferðir FÍ  Númer: D-2 Dagsetning: 1.5.2010 Brottfararstaður: Bláfjöll Viðburður: Fjallakröfuganga á degi verkalýðsins Erfiðleikastig: Lýsing: Vegna aurbleytu á Lönguhlíðum og Fagradalsmúla hefur þessari gönguferð verið aflýst 1.maí

Húsfyllir á myndakvöldi

Húsfyllir var á myndakvöldi Ferðafélags Íslands í gærkvöldi þegar Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ sýndi myndir úr væntanlegri árbók um Friðland að Fjallabaki. Myndir Daníels Bergmann fengu gestir til að grípa andann á lofti og margir sáu þarna nýjar hliðar á landsvæði sem þeir töldu sig þekkja allvel. Ekki síður vöktu kátínu gamlar myndir úr uppbyggingarstarfi Ferðafélagsins í Landmannalaugum sem vörpuðu ljósi á að hefði ekki Ferðafélag Íslands hafist handa við uppbyggingu á svæðinu um 1950 rynni Jökulgilskvíslin án efa yfir heita lækinn í dag. Þetta var síðasta myndakvöld vetrarins en þráðurinn verður tekinn upp aftur á hausti komanda.

Morgungöngur FÍ alla næstu viku

„Hann Tumi fer á fætur, við fyrsta hanagal,” segir í kvæði sem öll börn á Íslandi kunnu áður en sjónvarpið náði almennri útbreiðslu og er sungið við lag eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Ferðafélag Íslands hefur í nokkur ár vaknað við fyrsta hanagal í eina viku á hverju vori og staðið fyrir svokölluðum morgungöngum sem standa yfir alla næstu viku 3. - 7. maí. Ákveðið hefur verið að þema morgungangnanna í ár verði ljóðalestur og verður lesið úr Skólaljóðunum eða öðrum ljóðbókmenntum á hverjum fjallstindi. Það eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir sem sjá um morgungöngurnar eins og undanfarin ár.

Myndir úr nýrri árbók

Á næsta myndakvöldi Ferðafélags Íslands 28. apríl n.k. mun Ólafur Örn Haraldsson forseti félagsins sýna ljósmyndir úr væntanlegri árbók FÍ 2010. Bókin fjallar um Torfajökulssvæðið og Fjallabak og er óhætt að segja að þetta heillandi svæði verði sýnt í nýju ljósi í þessari árbók sem Ólafur Örn hefur skrifað og er væntanleg í hendur félagsmanna í maímánuði n.k. Árbækur Ferðafélags Íslands eru ótvírætt ein merkasta ritröð um Ísland og náttúru þess sem til er en árbækurnar hafa komið út árlega frá 1929. Vandaðar ljósmyndir eru aðalsmerki þessarar bókar eins og ávallt og flestar þeirra hefur Daníel Bergmann ljósmyndari tekið en hann hefur lagt gjörva hönd að verki við árbækur síðustu ára. Í ljósmyndasýningunni á miðvikudaginn mun einnig bregða fyrir fjölmörgum eldri myndum sem sýna uppbyggingarstarf og ferðir á svæðinu umhverfis Landmannalaugar í áratugi. Hér gefst því tækifæri til að skyggnast í væntanlegan fróðleiksmola en ekki síður að líta til baka og minnast við gamla daga. Samkoman hefst stundvíslega kl. 20.00 í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6. Aðgangseyrir er kr. 600 og kaffiveitingar í hléi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.