Hver er réttur og hverjar eru skyldur þeirra sem ferðast um Ísland? Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði sem fjalla um almannarétt, umgengni og útivist. Þar segir að öllum sé heimilt að fara um landið og njóta náttúru þess svo fremi að gengið sé vel um og þess gætt að spilla engu. Heimilt er að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis. Rétthöfum lands er heimilt að takmarka með merkingum ferðir manna um eignarlönd. Lönd í eigu ríkisins, svo sem náttúruverndar- og skógræktarsvæði, eru öllum opin með fáum undantekningum. Hægt er að takmarka umferð tímabundið, svo sem yfir varptíma eða vegna gróðurverndar.