Svæðisráð vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs boðar til samráðsfunda um Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir nýtt svæði (Langasjó – Eldgjá) sem bættist við þjóðgarðinn sl. sumar. Fundirnir verða haldnir 23. jan., 24. jan. og 25. jan.
Ferðafélag Íslands hefur gert samning við félagið Stjörnunótt ehf. um rekstur Húsadals í Þórsmörk. Ferðafélag Íslands keypti Húsadal sl. sumar af Kynnisferðum og hefur nú leigt út reksturinn til 10 ára. Sjá nánari upplýsingar um hina nýju rekstaraðila.
Þau fjöll sem gengið verur á í dagskrá FÍ Garpa sem kynnt var á kynningarfundi í gær eru sem hér segir: Skeggi/Hengill, upphitunarferð, miðnæturganga í lok febrúar, Eyjafjallajökull, Miðfellstindur, Birnudalstindur, Loðmundur og Snækollur, Herðubreið og Snæfell og Hrútfell á Kili.
130 manns mættu í fyrstu gönguna undir merkjum Eitt fjall á viku eða 52 fjöll á árinu með Ferðafélagi Íslands. Fyrsta gangan var farin á Úlfarsfellið í súldarveðri og blautu færi sem á köflum var fljúgandi hált. Ekki kom það mjög að sök því mjög margir voru vel búnir á smábroddum sem teljast ómissandi í fjallgöngum að vetri.Hópurinn fagnaði á toppnum þótt lítt sæist til fjalla og mikil gleði ríkti í hópnum og góð stemmning sveif yfir vötnunum.Þátttaka í tveimur fyrstu ferðunum er heimil án skráningar en þegar hafa margir tugir þátttakenda skráð sig og skuldbundið til þátttöku út árið.Næsta fjall sem hópurinn tekst á við er Mosfell í Mosfellsdal á næsta laugardag. Fylgist með frá byrjun.
Ferðafélag Íslands býður upp á verkefnið Eitt fjall á mánuði árið 2012. Þá er gengið á eitt fjall á mánuði sem er minni skuldbinding en fyrir þá sem taka þátt í Eitt fjall á viku. Kynningarfundur á Eitt fjall á mánuði er haldinn þriðjudaginn 10. janúar kl 20 í sal FÍ. Verkefnisstjórar eru þeir Fjallabræður Örvar og Ævar Aðalsteinssynir.....,
Ferðafélag Íslands býður nú upp á nýtt verkefni sem hefur fengið nafnið FÍ Garpar. Þá er gengið á 8 – 10 virkilega krefjandi fjöll og er verkefnið eingöngu ætlað þátttakendum í mjög góðu formi og með reynslu af fjallaferðum. Einar Stefánsson Everestfari, verkfræðingur og margreyndur fjallagarpur og Auður Kjartansdóttir sem starfar sem sérfræðingur á ofanflóðasviði Veðurstofunnar og hefur 20 ára reynslu af fjallamennsku og björgunarsveitarstörfum verða fararstjórar í þessu verkefni. Verkefnið FÍ Garpar og Eitt fjall á mánuði verða kynnt á sérstökum kynningarfundi 10. Janúar nk. í sal Ferðafélagsins Mörkinni 6 kl. 20.
Ferðafélag Íslands fór í byrjun árs af stað með verkefnið eitt fjall á mánuði. Fjölmargir þátttakendur skráðu sig og hafa gengið á eitt fjall á mánuði allt árið. Verkefnið naut verðskuldaðra vinsælda og skiptu göngumenn oftast mörgum tugum og stundum nálægt hundraði sem tróð fjöll í fótspor fararstjóra.
Eitt fjall á mánuði verður eftir á dagskrá á nýju ári. Umsjónarmenn og aðalfararstjórar verða eins og í ár þeir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir. Þeir eru bræður og með margra áratuga reynslu að baki í margvíslegri fjallamennsku og starfi fyrir björgunarsveitirnar.
Sérstakur kynningarfundur verður haldinn þriðjudaginn 10. janúar 2012 í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 kl. 20.00. Þar munu bræðurnir kynna dagskrá nýs árs, fara yfir nauðsynleg atriði í búnaði og svara fyrirspurnum. Hér fyrir neðan er dagskrá nýs árs og fyrir áhugasama því ekki annað að gera en að taka upp símann og láta skrá sig.