Hornstrandir eru draumalandið
06.06.2019
Mjög marga dreymir um að komast í friðlandið á Hornströndum en það tilheyrir örfáum stöðum á jörðinni þar sem unnt er að mæta sögunni innan um rústir, tóftir og gömul hús en líka að sjá mögnuð víðerni og vera á blettum sem gefa þá mynd að þú sért fyrsta manneskjan til að standa nákvæmlega þar sem iljar þínar eru. Þetta er líklega eini staðurinn á Íslandi þar sem þú getur horfst í augu við heimskautaref af tveggja metra færi og hann lætur sér fátt um finnast enda á hann landið eins og hann gerði áður en maðurinn kom hingað fyrst.