Ísland er vettvangur endalausra ævintýra fyrir þá sem vilja ferðast fyrir eigin afli og njóta alls þess magnaða sem fyrir augu ber. Aðferðirnar við að njóta á fjöllum eru fjölmargar og það veit Tómas Guðbjartsson fararstjóri og fjallakempa betur en flestir. Hann hefur frá barnsaldri þvælst um tinda, eggjar, skriður og kletta. Nýskriðinn úr menntaskóla var hann leiðsögumaður á fjöllum og beindi mest erlendum ferðamönnum í rétta troðninga og slóðir um allt hálendi Íslands.