Verið er að vinna að kærkominni yfirhalningu á skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi við Hvítárvatn á Kili. Hvítárnesskálinn er einn fallegast skáli félagsins en jafnframt sá elsti, byggður 1930.
Í haust var unnið að lagfæringum á göngubrúnni yfir Skógá, á leiðinni upp á Fimmvörðuháls. Handrið brúarinnar var orðið afar lélegt og öryggi göngumanna í hættu.
Í tilefni af 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands býðst félagsmönnum að kaupa nokkrar vandaðar vörur á sérstöku tilboðsverði. Um er að ræða sérmerkta jakka og peysur en líka alhliða gönguskó og endingargóða hitabrúsa.
Frábær þátttaka hefur verið í lýðheilsugöngum FÍ út um allt land sem af er þessum mánuði. Næstu göngur fara fram víðsvegar um landið n.k. miðvikudag, 20. september.
Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands eru einn af hápunktum í afmælisári félagsins, en félagið fagnar 90 ára afmæli í ár. Fyrstu göngurnar af fjórum fóru fram víðsvegar um landið í gær. „Lýðheilsugöngurnar fara vel af stað, gengið var í öllum landshlutum í gær og þátttaka fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Ólöf Sívertsen verkefnastjóri hjá Ferðafélagi Íslands.
Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu nú í september og eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði kl. 18:00. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Ferðafélag Íslands var með sérstaka ferð í Þórsmörk í vikunni sérsniðna fyrir eldri og heldri borgara. Ferðin var einstaklega vel heppnuð, ferðalangar heimsóttu og skoðuðu nágrenni í Húsadal, Langadal og Goðalandi. Í Skagfjörðsskála, skála Ferðafélagsins, var boðið upp á kaffi og kleinur undir harmonikkuleik.
Það var myndarlegur hópur félagsmanna og sjálfboðaliða FÍ sem fór í vinnuferð í Hornbjargsvita í lok júní sl. Tekið var til hendinni við að gangsetja húsið fyrir sumarið, þrífa, mála, lagfæra og koma upp rennunni sem flytur farangur úr fjörunni, auk þess að koma á rafmagni og hita í Hornbjargsvita.